Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skylduáhorf á Evu Joly í Silfri Egils í dag !!!!!

Þið sem misstuð af Evu Joly í Silfri Egils í dag, horfið á endursýningu þáttarins í kvöld.
Þetta er skylduáhorf !
Kveðja

Til hamingju Simmi !

Til hamingju með frammistöðuna Sigmundur og frú Elín. Þetta er að verðleikum og þótt ég sé ekki kjósandi í kjördæminu þykir mér alltaf gott að sjá alvöru fólk með heilbrigða skynsemi (þið vitið "common sense" sem er ekki eins "common" og af er látið!) gefa kost á sér í það argaþras sem stjórnmálin eru. Vona bara að Sigmundur og aðrir væntanlegir þingmenn fylgi sannfæringu sinni, en láti ekki múlbinda sig á klafa flokkslínu og flokkshagsmuna.

Það er ekki nema eðlilegt að Sigmundur Ernir ákveði að flytja norður. Hann er frá Akureyri og er því að flytja heim aftur. Ég veit af eigin raun að Akureyri togar sterkt í fólk sem þar hefur búið. Sjálfur bjó ég á Akureyri um 5 ára skeið og fannst strax eftir eitt ár eða svo ég vera að koma heim, í hvert sinn sem ég þurfti að skreppa til Reykjavíkur eða til útlanda og kom aftur "norður".

Kveðja
Hörður


mbl.is Næsta skref að flytja norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir borgi Ice-save skuldir sem bera á þeim ábyrgð !

Ég fagna þessu stjórnarfrumvarpi, en það er fram komið allt of seint eins og svo margt í okkar samfélagi þessa mánuðina. "Það er of seint að byrgja brunninn" ... þegar skaðinn er skeður, en vissulega getur þetta komið í veg fyrir undanskot og skattfrelsi í náinni framtíð.

Það er annað sem ég hef hugleitt, en hvergi séð á prenti.
Hvers vegna er umræðan um endurgreiðslu vegna Ice-Save reikninga Landsbankans alltaf á þá veru að almenningur eigi að borga svo og svo mikið vegna þeirra?
Ekki stofnaði íslenskur almenningur til þessara reikninga og ekki hefði ísl. almenningur fengið hluta hagnaðar ef betur hefði farið. Hví í ósköpunum á almenningur þá að bera tjónið?

Það á að sjálfsögðu fyrst að ganga að þeim sem bjuggu þessa reikninga til enda hefði hagnaður af verkefninu fyrst og fremst runnið til þeirra. Ég er að tala um stærstu eigendur og helstu stjórnendur Landsbankans, þá sem réðu ferðinni. Þessir menn eiga flestir enn talsverðar eignir, mun meiri heldur en íslenskur almenningur og það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ríkisvaldið byrji á því að herja á þá, ef/þegar kemur að endurgreiðslu vegna Ice-save. Allt annað er ósanngjarnt og óréttlátt.

Kveðja

Hörður Hilmarsson


mbl.is Tekið á skattaparadísum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður fólksins !

Í vikunni sem leið varð ljóst hverjir bjóða sig fram í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í vor. Þar á meðal er Ingi Björn Albertsson sem nú hyggur á endurkomu í pólitíkina. Ingi er ekki bara góður vinur, hann er líka góður maður sem á fullt erindi á þing aftur, en hann var þingmaður í 8 ár fyrir nokkrum árum og þótti standa sig mjög vel. Ingi Björn barðist m.a. þingmanna harðast fyrir því að keypt yrði björgunarþyrla til landsins. Sú þyrla bjargaði fleirum úr lífsháska en nokkuð annað björgunartæki hingað til. Ingi hefur heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi og er óskandi að Sjálfstæðismenn í Reykjavík beri gæfu til að veita honum gott brautargengi í prófkjörinu. Það yrði flokknum og þjóðinni til góðs. Við Íslendingar þurfum heiðarlegt fólk með heilbrigða skynsemi á Alþingi. Ingi Björn Albertsson er þeirrar gerðar.
Ingi Björn er maður fólksins.

Kveðja
Hörður


Frekari skuldajöfnun nauðsynleg

Landsbankinn á enn eftir að gera upp við þá aðila sem hann plataði til að leggja sparifé sitt í peningabréf bankans á siðlausan (ólöglegan?) hátt undir því yfirskyni að þetta væri jafn örugg fjárvarsla og aðrir innistæðureikningar sem bankinn bauð upp á.

Eigendur og stjórnendur bankans sukkuðu síðan með það fé eins og þeir ættu það, settu í eigin fyrirtæki sem voru í fjárþörf, í stað þess að varðveita það eins og þeim bar skylda til. Heildartap fólks og félaga var/er um 30 milljarðar.

Ég þykist vita að þeir sem sáu á eftir 31.2 % sparifjár síns séu tilbúnir til að heimila Landsbankanum að skuldajafna í þeim tilfellum sem innistæðueigendur í peningabréfum voru einnig með skuldir í bankanum, jafnvel þótt ekki sé komið að gjalddaga skuldanna. Þarna er kannski um 5-10 milljarða að ræða sem leysa ekki vanda allra sem eiga kröfur á Landsbankann/NBI vegna þessa máls, en er vissulega spor í rétta átt.

Baráttukveðja

Hörður


mbl.is Afskrifa 1.500 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Come-back" hjá Inga Birni Albertssyni

Það vekur athygli að sjá á lista yfir þá sem gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fyrrum þingmanninn Inga Björn Albertsson. Ingi Björn sem á að baki 8 ára setu á Alþingi, hefur verið "í fríi" frá pólitíkinni í 12-14 ár, a.m.k. hvað varðar opinbera þátttöku. Hann var á sínum tíma öflugur þingmaður og ég minnist þess að þingmenn annarra flokka luku á hann lofsorði fyrir dugnað og sanngirni. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Inga Birni vegnar í prófkjörinu eftir þrjár vikur, en hann er annálaður keppnismaður, var frábær leikmaður með Val og landsliðinu á sínum tíma og hefur skorað fleiri mörk í efstu deild knattspyrnunnar á Íslandi en nokkur annar. Þá náði Ingi mjög góðum árangri sem þjálfari og gerði Val t.a.m. að bikarmeisturum þrjú ár í röð. En mestu afrek Inga Björns hefur hann unnið utan knattspyrnunnar, á Alþingi og í öðrum störfum sínum, en einkum sem fjölskyldumaður, faðir 6 barna og margfaldur afi, þótt hann sé enn á besta aldri.

Nú er slæmt að vera ekki búsettur í Reykjavík og geta greitt þessum heiðursmanni atkvæði. Sjálfstæðisflokknum veitir ekki af hæfileikaríkum og vönduðum mönnum með reynslu til að endurvinna traust almennings eftir skipbrotið á liðnu hausti.

Kveðja

Hörður


mbl.is Geir gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk en ekki flokka !

Þetta er ekki nóg að mínu mati. Ef menn vilja raunverulegt lýðræði í landinu, þá á að finna leið til þess að kjósendur geti kosið þvert á lista, þ.e. fólk en ekki flokka.
Með kveðju
Hörður
mbl.is Persónukjör í kosningunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæltu manna heilastur

Vilhjálmur hittir naglann á höfuðið eins og oftast. Ég skrifa heilshugar undir þessi orð hans og hlakka til að heyra meira frá honum um orsakir og afleiðingar bankahrunsins og þá sem bera ábyrgð á því.
Með kveðju
Hörður


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að vera hér flokkalýðræði ?

Ég hef oft hugleitt það hvort það sé til önnur og betri leið en það flokkalýðræði sem við búum við.
Hef lengi verið ósáttur við að verða að kjósa einn flokk .... eða skila auðu vegna óánægju með þá valkosti sem verið hafa í boði.
Er ekki hægt að skipa málum þannig að þótt fram séu boðnir listar með nöfnum frambjóðenda að fólk geti valið þá frambjóðendur sem þeim líst best á, burtséð frá því hvar í flokki þeir standa?
Ég vil geta kosið um fólk, ekki flokka.

Ég myndi kjósa, ef ég gæti, a.m.k. eina hagsýna húsmóður, a.m.k. einn frambjóðanda sem hefur náð árangri í viðskiptum (þ.e. rekið fyrirtæki sem skilaði arði), nokkra sem bera hag þeirra sem minna mega sín fyrir brjósti o.s.frv. þannig að sýnt væri að öll þau sjónarmið sem mér finnast skipta máli eigi sér rödd, fulltrúa á Alþingi.

Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta sé hægt eða hvernig, en finnst rétt að viðra þessar skoðanir mínar, hugsa upphátt, nú þegar stefnir í allsherjar uppgjör, endurskoðunar stjórnarskrár o.fl.

Ég er hins vegar ekki sammála þeim röddum að lækka eigi laun þingmanna og ráðherra.
Sé ekki hvernig það geti stuðlað að eftirsókn hæfasta fólks landsins eftir setu á þingi þegar það getur fengið miklu hærri laun hjá einkafyrirtækjum, þótt vissulega séu launakjör ekki allt.
En það má vissulega fækka þingmönnum talsvert og mér hugnast vel sú hugmynd að þingmenn séu ekki um leið ráðherrar, þ.e. þeir þingmenn sem valdir eru til að gegna ráðherraembættum segi af sér þingmennsku.

Með von um betri tíð með blóm í haga, fyrir okkur öll.

Hörður Hilmarsson


Bestu óskir um góðan bata !

Það var gott að heyra.
Ég sendi Ingibjörgu Sólrúnu bestu kveðjur með ósk um góðan bata.

Hörður Hilmarsson


mbl.is Um góðkynja æxli að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband