Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Ekkert hik Breiðablik - Ólaf áfram !

Innilega sammála Dunna í pistlinum um nýja kynslóð knattspyrnuþjálfara á Íslandi og mjög góða frammistöðu þeirra fjögurra þjálfara sem hann nefnir. Ég tel Ólaf Kristjánsson í þeim hópi, jafnvel þótt Breiðablik hafi endað í 8. sæti Landsbankadeildarinnar 2008. Það er ekki eingöngu hægt að miða hæfni þjálfara út frá því hvaða sæti lið þeirra hafna í, ekki nema öll félögin hafi nákvæmlega jafn góðum leikmönnum á að skipa.
Ég þykist vita að Óli sé óánægður með útkomuna, en undir hans stjórn lék Breiðablik mjög vel í mörgum leikjum, þótt botninn hafi aðeins dottið úr undir lokin. Og það má ekki gleyma þeim ungu og efnilegum leikmönnum sem hann gaf tækifæri s.l. sumar. Nokkrir unnu sér sæti í landsliðum okkar, A og U-21 og einhverjir eru á leið í atvinnumennsku, nú eða síðar. Við erum að tala um leikmenn sem fáir þekktu fyrir keppnistímabilið 2008. Þjálfarinn hlýtur að eiga töluvert í frammistöðu þessara bráðefnilegu leikmanna. Ég vona að Blikar og Óli læri af reynslu nýliðins Íslandsmóts en haldi áfram að gleðja knattspyrnuáhugamenn með jákvæðri og góðri knattspyrnu, gjarnan með meiri árangri í stigasöfnun.

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson
mbl.is Ólafur hefur fullan hug á að halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þær leiðir virðast virka vel

Þorvaldur Örlygsson náði óvæntum og mjög góðum árangri með Fram-liðið í sumar og sama má segja um Kristján Guðmundsson, þjálfara Keflavíkur. Bæði lið stóðu sig betur í Landsbankadeildinni en reiknað hafði verið með og það sama gildir um Fjölni sem Ásmundur Arnarsson stýrði. Og Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, stendur uppi sem sigurvegari á sínu 1. ári sem aðalþjálfari, reyndar með besta mannskapinn, en það hefur ekki alltaf reynst nóg til að vinna Íslandsmót.  Bestu einstaklingarnir mynda ekki alltaf besta liðið, en svo varð reyndar í ár.

Til hamingju Heimir, Kristján, Þorvaldur og Ásmundur með mjög góðan árangur í þjálfun 2008!

Fótboltakveðja

Hörður Hilmarsson

 


mbl.is Þorvaldur Örlygsson: Fer mínar eigin leiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju strákar!

Til hamingju strákar með upphefðina.
Hlakka samt til að sjá hverja leikmenn Landsbankadeildarinnar sjálfir velja sem besta leikmanninn og þann efnilegasta. Með fullri virðingu fyrir Morgunblaðinu og íþróttafréttariturum þess, þá er mest vægi fólgið í vali leikmanna og þjálfara félaganna, sem kunngjört er á Lokahófi Landsbankadeildarinnar. En "Moggaleikmaður ársins" er einnig fín viðurkenning.

Fótboltakveðja

Hörður Hilmarsson


mbl.is Gunnleifur og Guðjón efstir í einkunnagjöfinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur endir á skemmtilegu móti

Lokaumferð Landsbankadeildarinnar stóð svo sannarlega undir væntingum. Háspenna a la Hitchcock og FH stóð uppi sem sigurvegari. FH-ingar eru mjög vel að Íslandsmeistaratitlinum komnir. Þeir eru með besta mannskapinn og leika besta fótboltann þegar leikmenn liðsins eru á pari.
Keflvíkingar eru sjálfsagt mjög svekktir og þeir eiga að vera það. Samt geta þeir borið höfuðið hátt, því þeir áttu fínt sumar og settu óneitanlega mjög skemmtilegan svip á Landsbankadeildina í ár.
Fram átti sömuleiðis mjög gott mót, eftir mörg mögur ár. Önnur félög geta verið misánægð með frammistöðu sinna liða; Fjölnismenn náðu góðum árangri, KR er með mannskap til að vera í einu af þremur efstu sætunum og Valur náði aldrei sama flugi og í fyrra og endaði á eðlilegum stað, miðað við mannskap.
Blikar luku mótinu illa eftir að hafa glatt knattspyrnuunnendur með góðum leik lengst af sumri og vonbrigði sumarsins eru klárlega ÍA,  en ég þekki Skagamenn illa ef þeir koma ekki tvíefldir til leiks næsta sumar og vinna sig strax aftur upp í efstu deild.

Skemmtilegu knattspyrnusumri á Íslandi lýkur á næstu vikum, með bikarúrslitaleik og landsleikjum, en kvennalið Vals og íslenska kvennalandsliðið eiga mikilvæga leiki eftir áður en stelpurnar komast í frí.

Að Landsbankadeildinni lokinni segi ég, takk fyrir mig og hlakka til Íslandsmótsins 2009.

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is FH-ingar lyfta Íslandsbikarnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL HAMINGJU FH-INGAR !

Til hamingju FH-ingar, leikmenn, Heimir stórþjálfari, Jón Rúnar, Pétur Steph. og allir hinir.
Þið eruð flottir og verðugir Íslandsmeistarar.

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is FH Íslandsmeistari 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan í hámarki

Ég myndi ekki veðja gegn því að FH verði Íslandsmeistari á laugardaginn, jafnvel þótt Keflavík hafi leikið vel í allt sumar, komið liða mest á óvart og verðskuldi titilinn, ef þeir vinna hann. Sama gera FH-ingar sem hafa sýnt mikinn styrk og karakter í síðustu tveimur leikjum, eftir stórtap fyrir Fram. Það er engin tilviljun að þessi tvö félög enda í tveimur efstu sætum Landsbankadeildarinnar. Bæði eru vel mönnuð og hafa sýnt jafnbestu frammistöðuna í sumar. Baráttan um Evrópusæti er einnig hörð, en ég spái að KR vinni Val á Hlíðarenda, FH vinni Fylki í Árbænum með meira en einu marki og Keflavík geri jafntefli heima gegn Fram. Það þýðir FH Íslandsmeistari, Keflavík í öðru, KR í því 3., Fram 4. og Valur 5.
mbl.is Atli Viðar: Get alveg séð fyrir mér að við hömpum titlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gervigrasið er komið til að vera

Það er rétt hjá Bjarna Jóh. þjálfara Stjörnunnar að það er alls óvíst að knattspyrnulið Stjörnunnar muni hagnast á því í heildina, fótboltalega séð, að leika heimaleiki sína 2009 á gervigrasinu í Garðabæ.

Árið 1991 var undirritaður þjálfari Breiðabliks í efstu deild. Þá var skipt um gras á Kópavogsvelli og við þurftum stærstan hluta sumarsins að leika heimaleikina á þá nýjum gervigrasvelli (sandgras) sem stóð þar sem Fífan er núna, ef ég man rétt. Leikmönnum Breiðabliks þótti ekki gott að þurfa sífellt skipta á milli grass og gervigrass, leika annan hvorn leikinn á grasi, hinn á sandgrasinu. Einnig æfðum við ýmist á grasi eða sandgrasinu eftir því á hvernig undirlagi næsti leikur var. Það var ekki auðvelt.

Stjörnuvöllurinn er af 3. kynslóð gervigrass og mjög góður sem slíkur. Gervigrasvellir nútímans eru orðnir svo miklu betri en fyrstu vellirnir sem hér voru lagðir gervigrasi að munurinn jafnast á við mun á gömlu malarvöllunum (sem reyndar voru misjafnir) og fyrstu gervigrasvöllunum. Ég var lengi andstæðingur gervigrasvalla sem vettvangs fyrir leiki í Íslandsmóti efstu deildar, en sú mótstaða er að minnka með stórauknum gæðum nýjustu tegunda gervigrass. Í dag er betra að leika á góðu gervigrasi en slæmum grasvelli, ef þeir fyrirfinnast þá hjá félögum í efstu deild.
Niðurstaða: Gervigrasið er komið til að vera, en það er ekki sama gervigras og gervigras!

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Högnumst ekki á gervigrasinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður !

Það er með ólíkindum að annað eins klúður skuli geta gerst árið 2008 og varð í sambandi við skráningu á gulu spjaldi FH-ingsins Dennis Siim. Leikmaðurinn átti með réttu að vera í leikbanni í stórleiknum skemmtilega um helgina, þegar FH vann Keflavík sanngjarnt 3-2, en klúður á skrifstofu KSÍ varð þess valdandi að mál DS var ekki tekið fyrir á fundi aganefndar KSÍ í síðustu viku. Hann lék því gegn Keflavík í "úrslitaleik" mótsins, má einnig leika á morgun, miðvikudag gegn góðu liði Breiðabliks, en tekur út leikbann í lokaleiknum gegn Fylki á laugardaginn. - Með fullri virðingu fyrir Fylki, þá eru Keflavík og Breiðablik klárlega mun sterkari andstæðingar. Þannig nýtur FH, án þess að hafa nokkuð til þess unnið eða gert, mistaka sem urðu á skrifstofu KSÍ. Ég hef þó ekki séð eða heyrt KSÍ taka af allan vafa um hvað gerðist og hvar mistökin liggi."Skýrslurnar eru forskrifaðar af félögunum og farið svo yfir þær hjá KSÍ. Þau mistök voru gerð að spjaldið sem var í leikskýrslunni hjá dómaranum var ekki skráð í gagnagrunninn." segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ. Þetta segir ekki alla söguna og opnar m.a.s. fyrir hugleiðingar um að FH hafi gert mistök við "forskrifun" leikskýrslunnar og starfsmenn KSÍ tekið hana sem rétta.
Ég er hræddur um að vinir mínir í forsvari knattspyrnudeildar FH vilji ógjarnan liggja undir ámæli um að skila frá sér ranglega útfylltri skýrslu (óvart eða viljandi) sem hafi áhrif á það í hvaða leik leikmaður þeirra tekur út leikbann. Mannleg mistök geta alltaf átt sér stað, en skrifstofa KSÍ er bæði það tæknivædd og vel mönnuð að það á að vera hægt að fyrirbyggja klúður sem þetta. Og að sjálfsögðu á KSÍ að taka af allan vafa um að mistökin séu alfarið  skrifstofu KSÍ, en ekki kd. FH.

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


Úrslitaleikur þrátt fyrir allt !

Í dag, sunnudaginn 21. sept., fer fram stórleikur í Landsbankadeildinni í knattspyrnu á milli FH og Keflavíkur. Keflvíkingar sem hafa komið skemmtilega á óvart í sumar, sitja verðskuldað í efsta sæti deildarinnar og þurfa aðeins eitt stig í síðustu tveimur leikjunum til að tryggja sér fyrsta Íslandsmeistaratitili sinn frá 1973.
En Keflavík má ekki misstíga sig. Tap gegn FH í dag gæti haft í för með sér mikla spennu fram á síðustu mínútu í síðustu umferð Landsbankadeildarinnar sem fram fer n.k. laugardag. Segjum sem svo að FH vinni í dag. Þá eiga þér eftir frestaðan leik gegn Breiðabliki í miðri viku og þótt Blikar hafi á köflum leikið stórskemmtilega á yfirstandandi tímabili, þá er FH-liðið enn betra og á að vinna þann leik. Þá væri komið að spennandi lokaumferð þar sem FH mætir Fylki í Árbænum og Keflavík tekur á móti Fram sem er í harðri baráttu um 3. sætið og er sýnd veiði en alls ekki gefin. Við slíkar aðstæður ræður það meiru hvernig menn höndla spennuna heldur en fótboltaleg geta.

Ég held að Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur og hans menn geri sér vel grein fyrir ofanrituðu og geri allt til þess að forðast það að lenda í taugatrekkjandi viku og enn verri lokadegi deildarinnar. Eitt stig gegn FH í dag er nóg til að tryggja titilinn.

Sem Valsmaður og fyrrum þjálfari úrvalsdeildarfélaganna FH, Breiðabliks og Grindavíkur þá get ég vel unnt Keflvíkingum þess að bera sigur úr býtum í Landsbankadeildinni. Ef þeir standast prófið í dag .... eða á laugardaginn, þá eru þeir verðugir sigurvegarar, en hvernig sem allt fer er Keflavík á ný komið í hóp bestu knattspyrnuliða landsins. TIL HAMINGJU KEFLVÍKINGAR !

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Verður Keflavík Íslandsmeistari í dag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 39939

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband