Færsluflokkur: Íþróttir

15 ára afmæli ÍT ferða; flottur bæklingur og ný heimasíða

Ég tók mér gott frí frá hefðbundnu bloggi, en hef verið þeim mun aktívari á Facebook sem er ágætur samskiptavefur og góð leið til að halda sambandi við ættingja og vini. Fb gefur einnig tækifæri til að kommentera á margt það sem í gangi er í samfélagi voru og skrifa hugleiðingar um ýmis mál, allt eða ekkert.
           Á nýbyrjuðu ári er starfið ofarlega í huga. Fyrirtæki fjölskyldunnar, ÍT ferðir varð 15 ára s.l. haust og um leið hélt ég upp á 25 ára afmæli í ferðaþjónustu á Íslandi. Að venju gefa ÍT ferðir út ársbækling þar sem ferðaframboð ferðaskrifstofunnar er kynnt. 2012 bæklingurinn er venju fremur glæsilegur og á hönnuðurinn Einar Pálmi Árnason þar stærstan hlut að máli. Hafi hann mikla þökk fyrir. Kortéri fyrir áramót fór í loftið ný heimasíða ÍT ferða, www.itferdir.is þremur mánuðum á eftir áætlun, en "betra er seint en skömmu síðar" eins og kerlingin sagði.
Við starfsmenn ÍT ferða erum stolt af bæklingnum, heimasíðunni og ekki síst afar metnaðarfullum göngu-, sögu- og menningarferðum sem við bjóðum upp á 2012. Þá er hafið samstarf við áhugasama aðila um sölu golfferða til Spánar þar sem við bjóðum upp á tvö afar flott 5 stjörnu golfhótel á 4ra stjörnu verði. Íþróttaferðir eru sem fyrr kjarninn í starfsemi fyrirtækisins og þótt boltaferðum til Englands hafi fækkað eru fótboltaferðir knattspyrnuliða sem og æfinga- og keppnisferðir handbolta- og körfuboltaliða um 50% af starfseminni. Loks er aukin áherslu lögð á móttöku erlendra ferðamanna til Íslands og viljum við með því leggja hönd á plóginn til þeirrar gjaldeyrisöflunar sem svo mikilvæg er þjóðarbúinu á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum þessi misserin.
Megi nýbyrjað ár verða friðsælt og gott, landi og lýð til heilla. - Nei, ég er ekki á leiðinni í forsetaframboð (en tek þó á móti áskorunum).
Ár og friður / Hörður Hilmarsson


Tillaga

Þetta er náttúrulega út í hött. Enn eitt dæmið um heimskuleg lög sem þarf að breyta.
En er þetta nokkuð vandamál? Eru ekki íslensku hjónin foreldrar barnsins skv. indverskum lögum?
Það ættu þá að vera hæg heimatökin að ættleiða barnið. Þau skrifa þá væntanlega undir umsókn um ættleiðingu bæði sem foreldrar barnsins og þau sem ættleiða!
En ég skil að þetta sé réttlætismál fyrir íslensku hjónin og þau eiga alla mína samúð.
Með aðventukveðju
HH


mbl.is Staðgöngumæðrun ekki viðurkennd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi Sig. með stáltaugar

Það er ekki alltaf auðvelt að skora úr vítaspyrnu í knattspyrnuleik og erfiðara eftir því sem meira er undir og minna er eftir af leik. Gylfi Sig. var undir mikilli pressu þegar hann tók víti fyrir Hoffenheim á lokamín. gegn Leverkusen í gær. Gylfi þurfti að bíða óvenju lengi eftir að dómari leiksins tryggði að allir leikmenn væru nægilega langt frá marki. Og að lokum gekk dómarinn þvert yfir vítateiginn til að taka sér stöðu! Hef aldrei séð það áður. En Hafnfirðingurinn ungi var svellkaldur og setti knöttinn í bláhornið, framhjá markmanni Leverkusen sem þó gerði heiðarlega tilraun, valdi rétt horn.

Gylfi er skærasta stjarnan í glæsilegri framtíðarflóru íslenskra leikmanna. Það verður gaman að fylgjast með "strákunum okkar" næstu árin!


mbl.is Jöfnunarmark Gylfa gegn Leverkusen (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur

Sendi stelpunum okkar baráttukveðjur fyrir leikinn mikilvæga gegn Frökkum á morgun, laugardag!
Áfram ÍSLAND !!!


mbl.is Byrjunarliðið gegn Frökkum tilbúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti íþróttamaður heims ?

Er Usain Bolt, gazellan frá Jamaica, besti íþróttamaður heimsins í dag?
Það er auðvitað erfitt að bera saman íþróttamenn í ólíkum íþróttagreinum, en sem íþróttaáhugamaður í 50 ár finnst mér þessi ótrúlegi spretthlaupari vera á hraðri leið í hóp með Pelé, Michael Jordan, Tiger Woods og Muhammed Ali sem eru að mínu mati mestu íþróttamenn allra tíma.
Það er ótrúlegt að fylgjast með Bolt á hlaupabrautinni. Hann hefur nánast fullkominn hlaupastíl og maður hefur á tilfinningunni að hann geti ekki tapað, hvort heldur í 100 m eða 200 m hlaupi. Og hann virðist hafa þá trú sjálfur; geislar af sjálfstrausti og er nánast í eigin heimi þegar hann dansar og fíflast síðustu mínúturnar fyrir hlaup. Nú heyrist að Bolt finnist hann ekki fá nægilega keppni í hlaupunum og hann ætli að fara að leggja áherslu á langstökk. Það verður spennandi að fylgjast með því sem og framþróun þessa frábæra íþróttamanns á næstu árum. 
Með íþróttakveðju


50 ára afmæli - Takk kærlega fyrir mig !

Nú í vor eru 50 ár síðan 6 ára snáði af Óðinsgötunni rölti inn að Hlíðarenda og skráði sig í Val. Síðan hafa íþróttir og Valur verið stór hluti af lífi mínu og er ég afar þakklátur forsjóninni fyrir að hafa leitt mig inn á þá braut. Íþróttirnar hafa gefið mér mikið, en upp úr stendur félagsskapurinn, bæði innan Vals og eins við gott fólk úr öðrum íþróttafélögum. Það eru forréttindi að fá að lifa og starfa innan íslenskrar íþróttahreyfingar og vera partur af henni, eins og ég hef verið sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, starfsmaður, framkvæmdastjóri og stuðningsmaður. Gildir þá einu hvort félagið sem maður leikur með, starfar fyrir eða styður heitir Valur, UMF Reykjavíkur, KR, KA, Stjarnan, AIK, Grindavík, FH, UMF Selfoss, Breiðablik eða annað. Þetta eru félögin sem ég hef keppt eða starfað fyrir. Aðrir hafa aðra sögu að segja. Það skiptir ekki máli hvaða íþróttafélag menn styðja; það er fleira sem sameinar íþróttamenn og íþróttaáhugamenn heldur en það sem skilur þá að. 
Ég á íslensku íþróttasamfélagi mikið að þakka og geri það hér með. Takk kærlega fyrir mig !

Með íþróttakveðju um hvítasunnu 2009

HH


Kraftur í ferðaþjónustunni

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem staðið hefur í allan dag kom skýrt fram að það er mikill kraftur í þeim fyrirtækjum og frumkvöðlum sem í atvinnugreininni eru. Það er vonandi að fólk almennt átti sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir samfélagið. Ferðaþjónustan er ekki bara meðal þeirra 3ja atvinnugreina sem skapa mestan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Greinin skapar fjölda starfa úti um allt land og síðast en ekki síst skapar engin atvinnugrein jafn mörg "afleidd" störf, þ.e. störf í öðrum atvinnugreinum en einmitt ferðaþjónustan.


mbl.is Miklar vonir bundnar við ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðþyrstir Baskar í Bilbao

Sá í morgun endursýningu á leik Athletic Bilbao og Real Madrid í spænska boltanum. Þetta var ótrúlegur leikur. Baskarnir í Bilbao voru grimmir og grófir innan vallar (en hentu sér niður við hverja snertingu Madridinga og heimtuðu spjöld) og blóðþyrstir á pöllunum. Reyndar var stuðningurinn við heimaliðið magnaður allan leikinn sem Real vann 5-2. 7 mörk, 11 gul spjöld og tvö rauð. Allt að gerast. Hollendingarnir í liði Real áttu fínan leik; Huntelaar skoraði tvö falleg mörk, Snejder var "play-makerinn" á miðjunni með fínar sendingar og Arjen Robben átti stórleik. Hann (Robben) er í dag allt annar leikmaður en hann var hjá Chelsea, þar sem hann fór í taugarnar á mér vegna leiðinlegrar framkomu oft og tíðum. Nú einbeitir hann sér að fótboltanum og sýnir hversu frábær leikmaður hann er. Real er nú aðeins 3 stigum á eftir Barcelona, þannig að það er komin spenna í spænsku deildina. Ég held þó að Barca klári þetta. Þeir eru með besta liðið á Spáni .... og í Evrópu?

Hvílíkur leikur - hvílíkir leikmenn !!!

Aldeilis stórbrotin frammistaða hjá Liverpool í kvöld. Steven Gerrard sýndi enn einu sinni hvílíkur klassaleikmaður hann er og Torres er "awesome". Margir aðrir mjög góðir fótboltamenn eru í liðinu s.s. Alonso, Carragher, Mascherano, Reina og hinn ódrepandi Kuyt, en Gerrard og Torres eru í sérflokki ..... heimsklassa. Hvílíkir leikmenn !
Svo má vel vera að Liverpool tapi á Old Trafford á laugardaginn, en það er önnur saga, annar leikur.
Í kvöld voru mínir menn frábærir.
Fótboltakveðja
Hörður


mbl.is Steven Gerrard: Vorum ógnvekjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Barcelona besta félagslið í heimi?

Vaknaði snemma á sunnudagsmorgni og horfði á endursýningu frá leik Barcelona og Deportivo la Coruna frá kvöldinu áður. Sé ekki eftir því.
Barcelona sýndi bestu knattspyrnu sem ég hef séð á þessu keppnistímabili, einkum í fyrri hálfleik. 5-0 sigur var síst of stór; framherjarnir fótfráu og leiknu, Messi, Henry og Eto´o tættu vörn Deportivo í sig, vel studdir af leikstjórnanda Barcelona-liðsins, snillingnum Xavi. Annar frábær miðvallar-leikmaður, Iniesta, var varamaður sem segir sína sögu um styrk leikmannahópsins hjá Barca.
Það er í raun stórkostlegt afrek hjá Eiði Smára að vera í hópnum hjá Barcelona og leika jafn mikið og raun ber vitni.
Ég hef ýmist fylgt Barcelona og Real Madrid að málum í spænska boltanum. Studdi fyrst Barca, væntanlega vegna búningsins, borgarinnar og Katalóníu, en svo gerðist tvennt; Zidane hóf að leika með Real Madrid og síðar flutti elsta dóttir mín, Bryndís, til Madrid og gerðist eldheitur stuðnings-maður Real. Með franska snillinginn innanborðs var Real besta félagslið í heimi, en tímarnir breytast, í boltanum eins og öðru. Real er enn og verður stórveldi, var t.a.m. útnefnt "besta knattspyrnufélag 20. aldarinnar" af FIFA. En í vetur er það Barcelona sem er yfirburðalið í spænsku deildinni og eitt albesta félagslið Evrópu. Barca er eins og nýtt lið undir stjórn Pepe Guardiola, sem á fyrsta ári við stjórnvölinn hefur náð að endurvekja leikgleðina og samstöðuna meðal leikmanna félagsins. Getan var alltaf til staðar. Guardiola er klárlega þjálfari ársins í Evrópuboltanum.

Það yrði sigur fyrir knattspyrnuna ef Barcelona vinnur Meistaradeildina. Ég held að Barcelona sé um þessar mundir besta félagslið í heimi, en önnur félög eru reyndar einnig að gera fína hluti s.s. Man. Utd., Inter Milan o.fl.

Með knattspyrnukveðju

Hörður


Næsta síða »

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 39944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband