Færsluflokkur: Íþróttir

Til hamingju og takk fyrir mig !

Það var vitað mál að handboltakappinn og heimspekingurinn Ólafur Stefánsson yrði valinn íþróttamaður ársins 2008. Hann hefði ekki þurft að eiga jafn frábært ár og raun ber vitni með sínu félagsliði, Ciudad Real, til að eiga sigurinn vísan sem fyrirliði og leiðtogi íslenska handboltalandsliðsins sem vann silfrið á Ólympíuleikunum í Kína. Innilega til hamingju með kjörið Óli og ótrúleg afrek á einu og sama ári!
Mér fannst einnig gott að sjá Snorra Stein Guðjónsson í 2. sæti og Guðjón Val í því fjórða, því þeir voru eins og allir "strákarnir okkar" lygilegir á ÓL. Snorri valdi heldur betur tímann til að blómstra og brillera með landsliðinu og Guðjón Valur er að mínu mati einhver albesti íþróttamaður sem Ísland hefur fóstrað, mikill keppnismaður, frábær fyrirmynd og drengur góður.
Þá voru "stelpurnar okkar" áberandi á listanum yfir landsins bestu íþróttamenn árið 2008. Margrét Lára, Katrín fyrirliði Vals og landsliðsins, Dóra María leikmaður ársins í Landsbankadeildinni og KR-ingurinn Hólmfríður Magnúsdóttir í 3., 7., 13. og 17. sæti listans, afar verðskuldað enda árangur kvennalandsliðsins framúrskarandi og til sóma fyrir Sigga Ragga þjálfara liðsins og KSÍ.

Þótt engin félagapólitík ríki eða eigi að ríkja í sambandi við val á íþróttamanni ársins, get ég ekki annað en viðurkennt stolt mitt sem Valsmanns yfir því að fjórir af 10 bestu íþróttamönnum Íslands 2008 komi frá Hlíðarenda; Óli Stef., Snorri Steinn, Margrét Lára og Katrín. Og svo finnst okkur Valsmönnum við alltaf eiga töluvert í Eiði Smára sem hóf feril sinn sem leikmaður í meistaraflokki með Val árið 1994, þá aðeins 15 ára. Þetta er alls ekki sagt/skrifað til að kasta rýrð á aðra íþróttamenn eða önnur íþróttafélög. Ég met mikils alla góða íþróttamenn og öll félög sem vinna gott starf.

Að lokum vil ég bara þakka ofannefndum og aðstandendum þeirra, ekki síst Gumma Gumm landsliðsþjálfara og hans teymi, þar með talið Einar Þorvarðar, íslenska karlalandsliðinu í handbolta og íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta fyrir afar ánægjulegt íþróttaár 2008. Það verður seint toppað.
TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG !

Með íþróttakveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Rikki og fjölskylda !

Ég er alinn upp við aðdáun á Ríkharði Jónssyni og reyndar öllum leikmönnum ÍA liðsins í knattspyrnu á árunum um og eftir 1960. Faðir minn, Hilmar Bjarnason sendibílstjóri og glímumaður, var mikill aðáandi Skagaliðsins og ég fór ófáar ferðir upp á Skipaskaga með honum til að horfa á "gullaldarliðið" leika listir sínar.
Rikki fór fyrir frábærum hópi leikmanna sem innihélt Þórð Þórðar, Svenna Teits., Guðjón Finnboga, Þórð  Jóns., Helga Dan. og marga fleiri, að ógleymdum Donna, Halldóri Sigurbjörnssyni heitnum sem ég hélt mikið uppá.

Rikki Jóns er afar vel að þessari vegsemd kominn.
Innilega til hamingju kæri Ríkharður, frú Hallbera og fjölskyldan öll !

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Ríkharður heiðursborgari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram stelpur!

Fín úrslit í dag. Nú er það bara að klára dæmið á fimmtudaginn.

Áfram stelpur ! Áfram Ísland !

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Ísland færðist skrefi nær EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökkum fyrir stigin þrjú !

Við þökkum fyrir stigin þrjú, en fótboltinn er skrýtin íþrótt og úrslit ekki alltaf sanngjörn.
Í kvöld máttum við þakka fyrir að vinna Makedónana, sem áttu fjölda færa og voru í heildina betra liðið á vellinum. Í síðasta heimaleik gegn Skotum voru okkar menn betri aðilinn og verðskulduðu svo sannarlega að fá stig, eitt eða fleiri út úr leiknum. En svona er fótboltinn og oftast jafnast svona hlutir út yfir heila keppni eða mót og lið enda í því sæti sem þau eiga skilið.
Gunnleifur var góður í markinu, besti maður íslenska liðsins og aftasta vörnin var sterk en ég set þó spurningamerki við Indriða í vinstri bakvarðarstöðunni, bæði í kvöld og gegn Hollandi. Stefán Gísla komst vel frá sínu og eins Arnór eftir að hann kom inn á; mikið efni. Aðrir léku undir pari og eiga mikið inni. Það veit á gott að vinna leik án þess að spila vel og gott að enda haustleikjahrinuna með sigri. Skotland næst.

Til hamingju Óli Jóh., Pétur Péturs. og allir strákarnir!

Áfram ÍSLAND !

Hörður Hilmarsson


mbl.is Veigar tryggði 1:0 sigur á Makedónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frammistaða gegn sterkum mótherjum

0-2 gegn Hollandi á útivelli er ekkert til að skammast sín fyrir. En fótboltaleikir eru ekki bara úrslit þeirra þótt vissulega skipti þau mestu máli þegar upp er staðið.
Frammistaða íslenska landsliðsins í þessum leik var góð. Reyndar vorum við í miklum vandræðum fyrstu 30 mínúturnar eða svo, en eftir það náðu strákarnir prýðilegu spili á köflum og sköpuðu fleiri færi en ég átti von á að sjá.
Leikmenn stóðu sig misjafnlega; Gulli þakkaði fyrir traustið og stóð sig mjög vel, miðverðirnir voru traustir, einkum Kristján Örn sem var bestur Íslendinga. Hermann var einnig góður, en fór út úr stöðu sinni rétt áður en Hollendingar skoruðu 2. markið, sem reyndar átti að dæma af vegna hendi (og jafnvel rangstöðu en eitt leikbrot er nóg). Mér finnst Stefán Gísla flottur miðjumaður, rólegur og yfirvegaður og getur tekið á móti bolta með mann í bakinu, a la Rúnar Kristinsson. Þá var gaman að sjá Brynjar Björn aftur með og hann komst vel frá leiknum. Frammi var Veigar sívinnandi og ógnandi og skilaði sínu hlutverki vel. Aðrir leikmenn voru misgóðir, en allir lögðu sig fram. Eiður Smári er okkar besti leikmaður, en hann reynir of mikið of oft og tapar því boltanum þegar hægt er að spila honum á samherja .... og þá jafnvel fá hann aftur strax. Verð að minnast á einn varamannanna sem er í miklu uppáhaldi þess sem þetta ritar, en það er miðjumaðurinn knái Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Coventry. Þar fer óhemju efnilegur leikmaður sem ég sé leika stórt hlutverk í íslenska landsliðinu næstu 10-15 árin.
Óli Jóh. og Pétur Péturs. mega vera stoltir af liði sínu. Ég hlakka til að sjá strákana gegn Makedónum á miðvikudaginn. Þá vonast ég eftir fyrsta sigrinum í þessari undankeppni.

Áfram ÍSLAND !!!

Hörður Hilmarsson


mbl.is Holland vann Ísland, 2:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju KR-ingar ... en 4. sætið er ekki viðunandi !

Til hamingju KR-ingar með sigurinn í VISA bikarkeppninni !
Það er alltaf gaman að vinna bikar, en ég vek athygli á því að sigur í bikarkeppni er engan veginn sambærilegur við sigur á Íslandsmóti. Bikarkeppni er skemmtilegt fyrirbæri þar sem neðri deildar lið fá tækifæri til að mæta félögum úr efstu deild og komast jafnvel alla leið, í úrslitaleikinn. Í ýmsum löndum, svo sem Svíþjóð, er lítið lagt upp úr bikarkeppninni, en sem betur fer er töluvert lagt upp úr keppninni hér á Íslandi, eins og gert er í Englandi og víða annars staðar.
Bikarkeppni er útsláttarkeppni og sem slík "happening" þar sem lið úr neðri deildum geta á góðum degi skákað mun betri liðum. Sigurvegari í bikarkeppni er ekki næstbesta lið landsins. Það lið á félagið sem varð í 2. sæti Íslandsmótsins. Ég skil gleði KR-inga vel og samfagna þeim með árangurinn í bikarnum, en félag eins og KR sem er með mannskap til að enda í einu af þremur efstu sætum Íslandsmótsins á ekki að gera sig ánægt með 4. sætið.

Með fótboltakveðju

Hörður Hilmarsson


Stelpurnar okkar !

Baráttukveðjur til íslenska kvennalandsliðsins, þjálfaranna Sigga Ragga og Guðna og allra sem koma að málefnum landsliðsins. Hvernig sem allt fer þá eruð þið "stelpurnar okkar" (nema Siggi og Guðni!). Við erum stolt af ykkur!

Áfram ÍSLAND !!!

Hörður Hilmarsson


mbl.is Byrjunarlið Íslands sem mætir Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Gautur er besti kosturinn

Það er óskandi að Óli Jóh., landsliðsþjálfari, beri gæfu til að kalla eftir þjónustu Árna Gauts Arasonar í verkefni landsliðsins í október.
Þeir markmenn sem leika í Landsbankadeildinni eru flestir ágætir, en enginn afgerandi. Allir hafa þeir sína kosti og sína galla, en sá sem ég tel mesta möguleika á að ná þeim stöðugleika sem landsliðsmarkmaður þarf að sýna er KR-ingurinn Stefán Logi Magnússon. En ég tel að Árni Gautur sé klárlega besti kosturinn sem markmaður A-landsliðsins númer eitt og Stefán Logi eigi að vera varamarkmaður, með það fyrir augum að hann taki við af Árna þegar hans tími er kominn.

Áfram ÍSLAND !

Hörður Hilmarsson


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt á Laugardalsvelli

Miðvikudaginn 10. sept. s.l. fylltu 10.000 Íslendingar og Skotar þjóðarleikvanginn í Laugardal vegna landsleikjar Íslands og Skotlands í undankeppni HM 2010. Leikurinn sem slíkur var ágætur, okkar menn léku á köflum vel og áttu skilið a.m.k. eitt stig út úr viðureigninni.
En það er ekki leikurinn sem slíkur sem eftir situr í minningunni, heldur hnökrar á framkvæmd leikjarins eða öllu heldur móttöku áhorfenda. Ég keypti miða á Netinu fyrir sjálfan mig og starfsfólk ÍT ferða o.fl. sem ég ákvað að bjóða á leikinn. Við kaupin kom fram að hægt væri að nálgast miða í verslunum Skífunnar, gegn framvísun útprentaðrar kvittunar fyrir viðskiptunum. Það reyndist ekki rétt. Þá var hringt í KSÍ sem svaraði því til að nóg væri að prenta út miðana í eigin tölvu. Það var gert. Þegar komið var að "nýju" ("bláu") stúkunni var okkur og öðrum sem voru með sams konar útprentanir vísað "hinum megin", á aðalinngang vallarins vegna þess að ekki væru skannar þarna megin til að lesa miðana. Við aðalinnganginn var fleiri þúsund manna röð og aðeins afgreitt inn um þrennar dyr eða hlið. Þótt fólk hafi mætt á völlinn 30 mín. fyrir leik komust margir ekki í sæti sín fyrr en 20 mín. eftir að leikur hófst.
Þessi framkvæmd var KSÍ ekki boðleg og er nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að e-ð þessu líkt endurtaki sig.

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


« Fyrri síða

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband