Hilmar Bjarnason - Minningarorð

Úr því að Morgunblaðið birti ekki í dag, 16. júní, minningargrein mína um föður minn, Hilmar Bjarnason, geri ég það hér.

Pabbi minn kvaddi þennan heim 9. júní kl. 12:12, kannski ekki saddur lífdaga en örugglega hvíldinni feginn. Brottför hans bar brátt að og því er sorgin sárari, höggið meira. En það var friðsæld og reisn yfir brottförinni eins og gamli glímumaðurinn hefði viljað. Sjálfur hefði ég viljað fá meiri tíma með pabba mínum; skreppa með honum upp á Skaga að sjá leik með ÍA, horfa á handbolta í sjónvarpinu, spila við hann rússa, vist með honum gegn systkinum mínum, spjalla við hann um lífið og tilveruna, hlæja með honum o.fl. En það er bara einn sem ræður tíma okkar hér á jörðu og honum fannst víst tími pabba kominn.
Ótal endurminningar brjótast fram, misgömul myndaalbúm skoðuð og rifjaðar upp liðnar ánægju- og samverustundir. Margs er að minnast, ekki allt jákvætt og gott, en þeim mun betur kann maður að meta góð tímabil og ljúfar stundir. Víst hefði pabbi minn mátt eiga ánægjulegra og auðveldara ævikvöld en það er aldrei á allt kosið. Það skiptust á skin og skúrir í lífi pabba, eins og annarra mannanna barna, en það er ekkert auðveldara og sjálfsagðara nú á kveðjustund, en að muna bara gleði-stundirnar, húmorinn, hláturinn, hlýtt faðmlagið, brosið, keppnisskapið, söngröddina og allt annað sem gerði pabba minn að því sem hann var. Einstakur maður sem svo óhemju sárt er að kveðja. Engum manni hef ég unnað meira og enginn hefur gefið mér meira. Hann gaf mér meira að segja útlit sitt.Ég var oft spurður að því á yngri árum hvort ég væri ekki “sonur hans Hilmars” og ýmist bætt við sendibílstjóra eða glímumanns. Það vantaði ekkert upp á stoltið þegar ég samsinnti því. Áratugum síðar sagði pabbi mér að nú hefði þetta snúist við. Nú væri hann gjarnan spurður hvort hann væri ekki pabbi hans Harðar, fótboltamanns og Valsara. Og ég held að hann hafi bara verið nokkuð sáttur við það. Ef ég skrifa einhvern tíma bók, þá er allt eins líklegt að hún fjalli um föður minn, að nokkru eða öllu leyti. Þótt lífshlaup hans hafi ekki alltaf verið auðvelt, þá var það fjölbreytt og oftar en ekki skemmtilegt. Hann lifði lífinu lifandi, lengst af, gaf af sér og gladdi, en var ekki allra og vildi ekki vera það. Kostirnir voru miklir og gallarnir einnig. Heiðarlegri manni hef ég ekki kynnst og þeir mannkostir sem pabbi mat mest eru gömul og góð gildi sem eiga fullt erindi í samfélag okkar sem búum á Íslandi á þessum viðsjárverðu tímum.
Pabbi skilur eftir sig stóran hóp afkomenda, 8 börn, 29 barnabörn og 27 barnabarnabörn. Þetta var ríkidæmið hans og hann minntist oft á það hvað hann væri ríkur maður að eiga allan þennan skara. Við vorum og erum ekki síður rík að hafa átt Hilmar Bjarnason að föður, tengdaföður, afa og langafa. Þótt það sé þyngra en tárum taki að kveðja elskaðan föður, þá er mér þó fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir vegferðina, vináttuna, kærleikann og allt sem hann kenndi mér, meðvitað og ómeðvitað.
                 Elsku hjartans pabbi minn: Ég er enn jafn stoltur af að vera sonur þinn eins og ég var sem lítill drengur á Óðinsgötunni.  Ég elska þig, sakna þín og mun geyma þig í hjarta mínu þar til við sjáumst á ný í fyllingu tímans.
Guð veri með þér og okkur öllum.

Þinn elskandi sonur Hörður og fjölskylda (Ríta, Bryndís, Sara Mildred og Birna Ósk).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 39941

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband