Færsluflokkur: Ferðalög

15 ára afmæli ÍT ferða; flottur bæklingur og ný heimasíða

Ég tók mér gott frí frá hefðbundnu bloggi, en hef verið þeim mun aktívari á Facebook sem er ágætur samskiptavefur og góð leið til að halda sambandi við ættingja og vini. Fb gefur einnig tækifæri til að kommentera á margt það sem í gangi er í samfélagi voru og skrifa hugleiðingar um ýmis mál, allt eða ekkert.
           Á nýbyrjuðu ári er starfið ofarlega í huga. Fyrirtæki fjölskyldunnar, ÍT ferðir varð 15 ára s.l. haust og um leið hélt ég upp á 25 ára afmæli í ferðaþjónustu á Íslandi. Að venju gefa ÍT ferðir út ársbækling þar sem ferðaframboð ferðaskrifstofunnar er kynnt. 2012 bæklingurinn er venju fremur glæsilegur og á hönnuðurinn Einar Pálmi Árnason þar stærstan hlut að máli. Hafi hann mikla þökk fyrir. Kortéri fyrir áramót fór í loftið ný heimasíða ÍT ferða, www.itferdir.is þremur mánuðum á eftir áætlun, en "betra er seint en skömmu síðar" eins og kerlingin sagði.
Við starfsmenn ÍT ferða erum stolt af bæklingnum, heimasíðunni og ekki síst afar metnaðarfullum göngu-, sögu- og menningarferðum sem við bjóðum upp á 2012. Þá er hafið samstarf við áhugasama aðila um sölu golfferða til Spánar þar sem við bjóðum upp á tvö afar flott 5 stjörnu golfhótel á 4ra stjörnu verði. Íþróttaferðir eru sem fyrr kjarninn í starfsemi fyrirtækisins og þótt boltaferðum til Englands hafi fækkað eru fótboltaferðir knattspyrnuliða sem og æfinga- og keppnisferðir handbolta- og körfuboltaliða um 50% af starfseminni. Loks er aukin áherslu lögð á móttöku erlendra ferðamanna til Íslands og viljum við með því leggja hönd á plóginn til þeirrar gjaldeyrisöflunar sem svo mikilvæg er þjóðarbúinu á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum þessi misserin.
Megi nýbyrjað ár verða friðsælt og gott, landi og lýð til heilla. - Nei, ég er ekki á leiðinni í forsetaframboð (en tek þó á móti áskorunum).
Ár og friður / Hörður Hilmarsson


Flottur !

Hann er flottur frændi minn og göngugarpurinn Sæmundur Þór Sigurðsson. Hann hefur væntanlega erft göngugenið og og útivistarþörfina frá móður sinni, Hjördísi Hilmarsdóttur, umsjónarmanni gönguferða hjá ÍT ferðum.

Mér skilst að Sæmi muni fljótlega eftir heimkomu verða með myndasýningu úr ferðinni og kynningu á göngu- og ævintýraferð(um) á vegum ÍT ferða.

Nánar á heimasíðu Sæma, http://saemi.123.is/ og á www.itferdir.is
mbl.is Á toppi Vesturheims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Newcastle

Er á heimleið úr vinnuferð til Newcastle og N-A Englands. Svæðið kom skemmtilega á óvart og verður spennandi að bjóða ferðir þangað þegar ástandið lagast. Það er mikið hægt að sjá og gera; kúltúr, ganga, hjólaferðir, verslun, næturlíf, fótbolti. golf, veðreiðar og margt fleira. Og svo er fólkið almennt vingjarnlegt og hjálpsamt.

Með kveðju

Hörður


Hótel Rangá er flottur staður

Bauð konunni í óvissuferð um helgina. Sló tvær flugur í einu höggi og heimsótti Hótel Rangá sem ég átti eftir að skoða til að athuga hvort við getum nýtt hótelið fyrir erlenda gesti ÍT ferða - IT Travel. Hótelið er glæsilegt og gaman að það skuli vera til 4ra stjörnu hótel "úti í sveit", en samt í aðeins rúmlega klukkutíma akstursfjarlægð frá Stór-Kópavogssvæðinu (!). Við borðuðum á hótelinu og fyrir valinu varð 4ra rétta samsettur matseðill sem reyndist vera einhver albesta máltíð sem við höfum lengi fengið ..... og erum við þó góðu vön. Það er ljóst að Friðrik Pálsson, Björn Eriksson hótelstjóri og þeirra fólk kann vel til verka, því allur pakkinn, gisting, matur og þjónusta svínvirkaði. Það verður enginn svikinn af heimsókn eða dvöl á Hótel Rangá hvort sem tilgangur er fundur utan erils höfuðborgarsvæðisins, afmæli, brúðkaup eða annað.
Gef staðnum mín bestu meðmæli og hlakka til að koma aftur.
Takk fyrir okkur.

Hörður Hilmarsson og frú


Liverpool leynir á sér

Var í Liverpool um fyrri helgi. Sambland af "business and pleasure" eins og stundum vill verða.
Var boðið í brúðkaupspartý fyrsta kvöldið með Eddy Jennings, vini og fyrrum samstarfsmanni í tengslum við Liverpool-mótið sem ÍT ferðir hafa umboð fyrir. Það var gaman að upplifa enska brúðkaupsveislu, en þetta var reyndar ekki aðal veislan. Hún var haldin í New York þremur vikum fyrr.
Laugardagurinn fór allur í stórleik Liverpool og Manchester United. Mínir menn unnu loksins heimaleik gegn Man. Utd., í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni, svo dagurinn var allur hinn ágætasti. Hitti eftir leikinn kollega sem vilja samstarf; þeir bjóða "hospitality pakka" á heimaleiki Liverpool, miða á mjög góðum stað, mat fyrir eða eftir leik og samveru með gömlum stjörnum Liverpool FC. John Aldridge var sá sem "messaði" yfir mannskapnum eftir þennan leik og svaraði fyrirspurnum.
Á sunnudegi fór ég í heimsókn til Ian Ross, fyrrum þjálfara Vals, KR og Keflavíkur, en Roscoe og frú  Rona búa ásamt "boxernum" George í Skelmersdale, um 30 mín. fyrir norðan Liverpool. Alltaf gaman að hitta Roscoe og fjölskyldu, rifja upp gamla tíma og borða góðan mat með tilheyrandi.

Liverpool borg er að breytast. Miklum fjármunum hefur verið varið í uppbyggingu miðborgarinnar (ekki veitti af), bæði í tilefni 800 afmælis borgarinnar í fyrra og svo er Liverpool Menningarborg Evrópu 2008. Náði að versla smávegis á mánudegi fyrir heimflug, einkum nauðsynlegar flíkur fyrir golfið, því þótt golfvertíðinni sé að mestu lokið, þá kemur sumar eftir þetta sem er að kveðja með rigningu og roki.

Þetta var fín ferð og ég hlakka til þeirrar næstu á þessar slóðir, hvort heldur það verður til Liverpool eða Manchester sem er einnig prýðileg borg heim að sækja í helgarferð.


Lélegt á Laugardalsvelli

Miðvikudaginn 10. sept. s.l. fylltu 10.000 Íslendingar og Skotar þjóðarleikvanginn í Laugardal vegna landsleikjar Íslands og Skotlands í undankeppni HM 2010. Leikurinn sem slíkur var ágætur, okkar menn léku á köflum vel og áttu skilið a.m.k. eitt stig út úr viðureigninni.
En það er ekki leikurinn sem slíkur sem eftir situr í minningunni, heldur hnökrar á framkvæmd leikjarins eða öllu heldur móttöku áhorfenda. Ég keypti miða á Netinu fyrir sjálfan mig og starfsfólk ÍT ferða o.fl. sem ég ákvað að bjóða á leikinn. Við kaupin kom fram að hægt væri að nálgast miða í verslunum Skífunnar, gegn framvísun útprentaðrar kvittunar fyrir viðskiptunum. Það reyndist ekki rétt. Þá var hringt í KSÍ sem svaraði því til að nóg væri að prenta út miðana í eigin tölvu. Það var gert. Þegar komið var að "nýju" ("bláu") stúkunni var okkur og öðrum sem voru með sams konar útprentanir vísað "hinum megin", á aðalinngang vallarins vegna þess að ekki væru skannar þarna megin til að lesa miðana. Við aðalinnganginn var fleiri þúsund manna röð og aðeins afgreitt inn um þrennar dyr eða hlið. Þótt fólk hafi mætt á völlinn 30 mín. fyrir leik komust margir ekki í sæti sín fyrr en 20 mín. eftir að leikur hófst.
Þessi framkvæmd var KSÍ ekki boðleg og er nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að e-ð þessu líkt endurtaki sig.

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband