30.12.2008 | 21:24
Hugsað upphátt um áramót
Árið sem nú er að kveðja hefur verið um margt sérstakt og gleymist ekki í bráð, ef einhvern tíma.
Það sem stendur upp úr eru erfiðleikar í fjármálum lands og þjóðar, vandræði sem forsætisráðherra og fleiri framámenn í samfélaginu tönnlast í sífellu á að eigi sér erlendar orsakir, enda sé kreppa sú sem á landsmenn herjar alþjóðleg og ástand víða slæmt í heiminum í dag. Það má vel vera, en ég er einn þeirra sem telja að ástandið hér á landi sé að 50-75 % leyti domestic, heimatilbúinn vandi sem glæfralegir bankamenn og "útrásarvíkingar" sem og slakir eftirlitsaðilar (Fjármálaeftirlit, Seðlabanki, ríkisstjórn og Alþingi) bera öðrum fremur ábyrgð á.
Ég tel ennfremur að nauðsynlegt uppbyggingarstarf geti ekki hafist að neinu marki hér á landi nema að þeir axli ábyrgð sem hana bera á ástandinu og eftir að skipt verði um fólk í þeim ábyrgðarstöðum þar sem menn hafa brugðist, vegna eiginhagsmunapots, græðgi og oft óheiðarleika. Fyrirgefning er nauðsynleg, en á undan henni þarf að koma iðrun og eftirsjá þeirra sem hafa brugðist og/eða brotið af sér. Einnig þarf að refsa þeim sem brotið hafa lög og víkja úr starfi þeim sem kannski héldu sig innan ramma laganna, en sýndu dómgreindarskort og siðleysi sem ekki á líðast fólki í opinberum störfum.
Hrun stóru bankanna þriggja í byrjun október hafði margar alvarlegar afleiðingar. Ein þeirra var sú að fólk sem hafði geymt sparnað sinn eða varasjóð inn á peningamarkaðsbréfum bankanna tapaði 15 % til 1/3 hluta sparnaðar síns. Ég var einn þeirra sem geymdi eiginn sparnað og varasjóð fyrirtækis míns á reikningi sem kallaðist peningabréf Landsbankans og var gersamlega grunlaus um einhverja hættu á tapi ef illa færi, enda með upplýsingar frá bankanum sem lýstu peningabréfum sem "lang vinsælasta svona sparireikningi bankans, því hann ber góða vexti, enga áhættu og er alltaf laus", eins og stendur í tölvubréfi frá bankanum.
Endurgreiðslu bankans upp á 68.8 % var harðlega mótmælt af mér og fleirum og fyrr en varði hafði myndast baráttuhópur um endurheimt sparnaðar í Landsbankanum. Samtökin RÉTTLÆTI.is voru stofnuð og heimasíða opnuð, www.rettlaeti.is
Siðleysi það sem birtist í kynningu á Peningabréfum Landsbankans, markaðssetningu þeirra og upplýsingagjöf starfsmanna Landsbankans er með því ógeðfelldara sem ég hef kynnst um dagana.
Síðan bættu stjórnendur bankans gráu ofan á svart með dæmalausri meðhöndlun peningabréfasjóðsins, þ.e. fjármuna fólks sem átti inneignir í peningabréfum og Landsbankinn átti að passa, því peningabréfin voru fjárvarsla í augum flestra (og skv. upplýsingum bankans) en ekki fjárfesting. Sukkið og svínaríið sem Landsbankinn stundaði árið 2008 verður vonandi krufið til mergjar og þeim refsað sem voru í forsvari fyrir ráni á 1/3 sparnaðar af íslenskum almenningi, oft eldra fólki sem getur ekki bætt sér upp tapið og í raun enga björg sér veitt. Þetta mál er til háborinnar skammar fyrir samfélag sem vill kalla sig siðað og hljóta stjórnvöld að boða leiðréttingu á mistökum sínum og Landsbankans, því þetta var ekkert annað en þjófnaður, stórþjófnaður.
Með ósk um að við megum aldrei aftur upplifa ár eins og 2008 og að lærdómur þess megi verða okkur öllum víti til varnaðar um ókomin ár.
GLEÐILEGT ÁR !
Hörður Hilmarsson
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.