16.6.2009 | 10:31
Úr minningabankanum: Með pabba
Við saman á fótboltaleik á Akranesi. Við á landsleik í handbolta í Höllinni. Við saman í Kaupmannahöfn að hitta Laugu systur þína og Mikael nokkrum mánuðum áður en þau féllu frá. Við með Hjördísi í Færeyjum, á landsleik í úrhellisrigningu. Við í Manchester með 470 manna leiguvél í fótbolta- og skemmtiferð; kvöldskemmtun í ferðinni með Bergþór Pálsson, Stebba Hilmars. og Eyfa Kristjáns. sem aðalnúmer. Við með Bryndísi dóttur minni í Hollandi í hennar fyrstu utanlandsferð með pabba sínum (og afa). Við í bíltúr að syngja saman falleg íslensk ættjarðarlög, perlur sem aldrei gleymast.
Þú að kenna mér 12 ára gömlum Gunnarshólma, sem þú hafðir sjálfur lært á sama aldri.
Þú að glíma í Hálogalandi. Keppnisandinn var mikill, en sannur íþróttaandi enn meiri. Bannað að hafa rangt við, svindl ekki til í orðabókinni. Heiðarleiki framar öllu, græðgi, okur og ósannindi meðal verstu lasta. Allar vísurnar sem þú kenndir mér; innihaldið til að læra af ... og það síaðist inn.
Við að horfa á Ragga Jóns., Geira snilling Hallsteinsson, Kristján Ara, handboltahetjurnar sem þú hélst svo mikið upp á. Við á tónleikum í Salnum í Kópavogi, þar sem Diddú og Bergþór Pálsson sungu lög eftir Fúsa og ítalskar aríur og tárin runnu niður kinnar okkar beggja. Ógleymanlegt og tilfinningaþrungið kvöld.
Ég gæti haldið endalaust áfram; myndirnar og minningabrotin eru óteljandi eins og stjörnurnar á himninum þar sem þú ert núna, elsku pabbi minn. Guð geymi þig og verndi.
Þinn Hörður
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.