Færsluflokkur: Dægurmál

Mjög gott mál !

Ég fagna fram kominni tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um vinnuhóp m.a. til að kanna með hvaða hætti "Reykjavíkurborg getur hvatt til nýsköpunar og eflt vöruþróun í ferðaþjónustu í Reykjavík". Þótt hér sé um framtak borgarinnar að ræða er ljóst að höfuðborgarsvæðið og í raun landið allt njóta ávaxtanna af starfi þessa vinnuhóps. Margfeldisáhrif ferðaþjónustunnar hafa það í för með sér að fjölmörg fyrirtæki og þá um leið einstaklingar sem ekki starfa beint við ferðaþjónustu njóta góðs af fjölgun ferðamanna til landsins.
Með kveðju
Hörður


mbl.is Greini tækifæri í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pistill dagsins

Það er gott að vakna snemma á sunnudegi  og vera fyrir kl. 11 búinn að horfa á heilan fótboltaleik í sjónvarpinu. Ekki síst þegar um er að ræða leik með Barcelona, besta knattspyrnuliði heims um þessar mundir .... að mínu mati. Hvílíkir snillingar og það skiptir engu þótt liðið hafi aðeins náð jafntefli gegn baráttuglöðu liði Real Betis í Sevilla. Eiður "okkar" Guðjohnsen kom ekki við sögu í leiknum, en mikið rosalega held ég að hann "fíli" sig vel að æfa og spila (stundum) með Xavi, Iniesta, Messi og öllum hinum frábæru fótboltamönnunum sem eru í leikmannahópi Barcelona CF.

Gærdagurinn var um margt góður. Vetrarhátíð í Reykjavík þessa helgina og Valentínusardagur í gær. Sjálfsögðum skyldum var sinnt um morguninn með heimsókn í blómabúð og bakarí.
Síðdegis skruppum við hjónin í bæinn og leiðin lá m.a. á Austurvöll. Þar var undir kvöldið uppákoma sem nefndist "Kærleikar", samanber Ólympíuleikar. Eftir ágæta samverustund með 2-300 manns við styttu Jóns Sigurðssonar var komið að því að fá sér gott í gogginn. Fyrir valinu varð nýr veitingastaður, PISA í Lækjargötunni, þar sem áður var Litli ljóti andarunginn. Það er skemmst frá því að segja að þessi nýi ítalski restaurant er mjög velkomin viðbót við fjölbreytta flóru matsölustaða í miðborg Reykjavíkur. Staðurinn smekklegur og hlýr og þjónustan til fyrirmyndar. Maturinn var, eins og lofað hafði verið, ekki bara góður heldur mjög góður og til að kóróna stemninguna, hljómaði yndisleg ítölsk tónlist, mátulega hátt stillt, úr tækjum staðarins. Það er alveg ljóst að við eigum eftir að koma fljótt aftur á þennan stað. Ég mæli með PISA í Lækjargötu 6b.

Nenni ekki að kommentara mikið á bullið í bænum í gærkvöldi. Bál á Lækjartorgi þjónar hvaða tilgangi? Hverjir voru að mótmæla og hverju? Það kom hvergi fram. Geta allir borgarar þessa lands framvegis réttlætt brot sín og mistök, hver svo sem þau eru, með því að þeir hafi verið að mótmæla og þurfi ekkert að útskýra það frekar eða falið sig á bak við þau mistök sem gerð voru í aðdraganda og eftir bankahrunið í október s.l. Það er til fullt af illa innrættu fólki á Íslandi (eins og annars staðar) og ég vara við því að skrílslæti og fylleríisrugl óvandaðra einstaklinga sé í fjölmiðlum samtengt eðlilegum mótmælum við ástandinu í samfélaginu og þeim sem bera ábyrgð á því. Ólæti og ofbeldi er ekki það sama og mótmæli.

Haldið hvíldardaginn heilagan, verið góð við þá sem ykkur þykir vænt um og brosið með hjartanu.

Hörður


Sjálfsagt að skoða þennan möguleika

Það er að sjálfsagt að skoða þennan möguleika eins og aðra sem geta orðið til hjálpar. Í dag hugnast mér þessi valkostur betur en ESB, en það er m.a. vegna þess að það vantar skýrar upplýsingar um kosti og galla þess fyrir okkur að ganga í ESB. Á mannamáli takk.
Með kveðju
Hörður


mbl.is Tilbúin í viðræður um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað upphátt um áramót

Árið sem nú er að kveðja hefur verið um margt sérstakt og gleymist ekki í bráð, ef einhvern tíma.
Það sem stendur upp úr eru erfiðleikar í fjármálum lands og þjóðar, vandræði sem forsætisráðherra og fleiri framámenn í samfélaginu tönnlast í sífellu á að eigi sér erlendar orsakir, enda sé kreppa sú sem á landsmenn herjar alþjóðleg og ástand víða slæmt í heiminum í dag. Það má vel vera, en ég er einn þeirra sem telja að ástandið hér á landi sé að 50-75 % leyti “domestic”, heimatilbúinn vandi sem glæfralegir bankamenn og "útrásarvíkingar" sem og slakir eftirlitsaðilar (Fjármálaeftirlit, Seðlabanki, ríkisstjórn og Alþingi) bera öðrum fremur ábyrgð á.

     Ég tel ennfremur að nauðsynlegt uppbyggingarstarf geti ekki hafist að neinu marki hér á landi nema að þeir axli ábyrgð sem hana bera á ástandinu og eftir að skipt verði um fólk í þeim ábyrgðarstöðum þar sem menn hafa brugðist, vegna eiginhagsmunapots, græðgi og oft óheiðarleika. Fyrirgefning er nauðsynleg, en á undan henni þarf að koma iðrun og eftirsjá þeirra sem hafa brugðist og/eða brotið af sér. Einnig þarf að refsa þeim sem brotið hafa lög og víkja úr starfi þeim sem kannski héldu sig innan ramma laganna, en sýndu dómgreindarskort og siðleysi sem ekki á líðast fólki í opinberum störfum.
 

RÉTTLÆTI.is:

Hrun stóru bankanna þriggja í byrjun október hafði margar alvarlegar afleiðingar. Ein þeirra var sú að fólk sem hafði geymt sparnað sinn eða varasjóð inn á peningamarkaðsbréfum bankanna tapaði 15 % til 1/3 hluta sparnaðar síns. Ég var einn þeirra sem geymdi eiginn sparnað og varasjóð fyrirtækis míns á reikningi sem kallaðist peningabréf Landsbankans og var gersamlega grunlaus um einhverja hættu á tapi ef illa færi, enda með upplýsingar frá bankanum sem lýstu peningabréfum sem "lang vinsælasta svona sparireikningi bankans, því hann ber góða vexti, enga áhættu og er alltaf laus", eins og stendur í tölvubréfi frá bankanum.
Endurgreiðslu bankans upp á 68.8 % var harðlega mótmælt af mér og fleirum og fyrr en varði hafði myndast baráttuhópur um endurheimt sparnaðar í Landsbankanum. Samtökin RÉTTLÆTI.is voru stofnuð og heimasíða opnuð, www.rettlaeti.is 

Siðleysi það sem birtist í kynningu á Peningabréfum Landsbankans, markaðssetningu þeirra og upplýsingagjöf starfsmanna Landsbankans er með því ógeðfelldara sem ég hef kynnst um dagana.
Síðan bættu stjórnendur bankans gráu ofan á svart með dæmalausri meðhöndlun peningabréfasjóðsins, þ.e. fjármuna fólks sem átti inneignir í peningabréfum og Landsbankinn átti að passa, því peningabréfin voru fjárvarsla í augum flestra (og skv. upplýsingum bankans) en ekki fjárfesting. Sukkið og svínaríið sem Landsbankinn stundaði árið 2008 verður vonandi krufið til mergjar og þeim refsað sem voru í forsvari fyrir ráni á 1/3 sparnaðar af íslenskum almenningi, oft eldra fólki sem getur ekki bætt sér upp tapið og í raun enga björg sér veitt. Þetta mál er til háborinnar skammar fyrir samfélag sem vill kalla sig siðað og hljóta stjórnvöld að boða leiðréttingu á mistökum sínum og Landsbankans, því þetta var ekkert annað en þjófnaður, stórþjófnaður.


Með ósk um að við megum aldrei aftur upplifa ár eins og 2008 og að lærdómur þess megi verða okkur öllum víti til varnaðar um ókomin ár.


GLEÐILEGT ÁR !

 

Hörður Hilmarsson

 


GLEÐILEG JÓL !

Ég óska öllum ættingjum, vinum og kunningjum, nær og fjær, sem og landsmönnum öllum friðsælla jóla og gæfu og gleði á komandi ári.

Jólakveðjur

Hörður


Hvíl í friði, minn kæri

Fylgdi Rúna Júl. vini mínum í dag. Athöfnin var afar falleg, tónlist í fyrirrúmi og allir flytjendur eiga mikið hrós skilið, ekki síst synir Rúnars, Baldur Þórir og Júlíus Freyr, við afar erfiðar aðstæður.
Prestinum, séra Skúli S. Ólafssyni, mæltist mjög vel enda annað varla hægt, því efnið var einstakt.

Ég þekkti Rúnar í áratugi og fannst mikið til hans koma, sem tónlistarmanns og ekki síður sem manneskju. Vona að mér hafi tekist að sýna honum á meðan hann lifði, hve mér þótti vænt um hann. Í endurminningunni stendur upp úr þegar hann kom óvænt í brúðkaupsveislu okkar Ritu fyrir 15 árum, tók "Þú ein" eins og enginn annar gat eða getur og síðan fékk brúðguminn að kyrja eitt lag með kappanum.

Mikill mannvinur er genginn og söknuðurinn er sár, missirinn mikill. Mestur er missirinn hjá fjölskyldu Rúnars, sem hann bókstaflega lifði fyrir, Maríu, Baldri, Júlíusi, tengdadætrum og barnabörnunum.
Þau og aðrir ættingjar og vinir Rúnars eiga samúð mína alla. Það er vonandi einhver huggun harmi gegn að finna allan þann kærleika og virðingu sem Rúnari og þeim er sýnd þessa döpru daga í desember.

Með vinsemd og innlegum jólakveðjum

Hörður Hilmarsson og fjölskylda

 


mbl.is Fjölmenni við útför Rúnars Júlíussonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegan vetur !

Hvernig skyldi standa á því að við óskum hvert öðru gleðilegs sumars og þökkum fyrir veturinn á sumardaginn fyrsta og fyrst á eftir, en maður heyrir sjaldan "Gleðilegan vetur og takk fyrir sumarið"?

Ég vona samt að við eigum öll ánægjulegan vetur og að okkur takist sem fyrst að vinna okkur út úr núverandi efnahagsfárviðri. Það er sagt að öll él birti upp um síðir og þessu fárviðri mun einnig slota.

Með baráttukveðjum

"When the going gets tough... !

HH


Lélegt á Laugardalsvelli

Miðvikudaginn 10. sept. s.l. fylltu 10.000 Íslendingar og Skotar þjóðarleikvanginn í Laugardal vegna landsleikjar Íslands og Skotlands í undankeppni HM 2010. Leikurinn sem slíkur var ágætur, okkar menn léku á köflum vel og áttu skilið a.m.k. eitt stig út úr viðureigninni.
En það er ekki leikurinn sem slíkur sem eftir situr í minningunni, heldur hnökrar á framkvæmd leikjarins eða öllu heldur móttöku áhorfenda. Ég keypti miða á Netinu fyrir sjálfan mig og starfsfólk ÍT ferða o.fl. sem ég ákvað að bjóða á leikinn. Við kaupin kom fram að hægt væri að nálgast miða í verslunum Skífunnar, gegn framvísun útprentaðrar kvittunar fyrir viðskiptunum. Það reyndist ekki rétt. Þá var hringt í KSÍ sem svaraði því til að nóg væri að prenta út miðana í eigin tölvu. Það var gert. Þegar komið var að "nýju" ("bláu") stúkunni var okkur og öðrum sem voru með sams konar útprentanir vísað "hinum megin", á aðalinngang vallarins vegna þess að ekki væru skannar þarna megin til að lesa miðana. Við aðalinnganginn var fleiri þúsund manna röð og aðeins afgreitt inn um þrennar dyr eða hlið. Þótt fólk hafi mætt á völlinn 30 mín. fyrir leik komust margir ekki í sæti sín fyrr en 20 mín. eftir að leikur hófst.
Þessi framkvæmd var KSÍ ekki boðleg og er nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að e-ð þessu líkt endurtaki sig.

Með knattspyrnukveðju

Hörður Hilmarsson


« Fyrri síða

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband