Það er eitthvað mikið að !

Ég horfði á Spaugstofuna um síðustu helgi, eins og flestar helgar og finnst sem þættirnir hafi breyst að undanförnu. Þessi spéspegill á samtímann hefur stundum verið frekar þunnur, en oftast verið hægt að brosa að mörgum atriðum, jafnvel hlæja upphátt. Nú virðist mér sem meira sé lagt í þættina, gagnrýnin er grimmari og háðið beittara. Þá bregður svo við að mér er ekki hlátur í hug, þótt þættirnir séu með besta móti. Það er frekar að grátur sæki að manni við að sjá á skjánum skopstælingu á Íslandi síðustu daga og missera.
Hvernig gat það gerst að hér á Íslandi varð til ríki í ríkinu, batterí sem varð öllu öðru æðra og reyndist máttugra en ríkisstjórn og sjálft Alþingi?
Topparnir á fjármálageiranum á Íslandi, bankaeigendur og bankastjórnendur voru (og eru?) valdamestu menn lýðveldisins og engin lög virðast ná yfir þá og þeirra gerðir.
Hvernig stendur á því?  

Ef lög landsins ná ekki yfir allan landslýð, þ.m.t. þá aðila sem stærstan þátt eiga í hruni fjármálakerfisins, þá þarf að breyta þeim og það strax.
Það dugir ekki fyrir forsætis- og fjármálaráðherra að koma fram í fjölmiðlum, alveg jafn agndofa og almenningur yfir fréttum af fjármála-misferli og sukki tiltölulega fárra aðila. Það gengur heldur ekki að biðla til þessara sömu aðila að þeir sýni nú þann manndóm og samhug að skila til baka illa fengnu fé. Fé sem oft var greitt sem arður af rekstri fyrirtækja sem voru í reynd “fallit”, en gátu við fyrstu sýn eftir bókhaldsbrellur, litið vel út um stundarsakir, en urðu svo gjaldþrota innan skamms tíma, jafnvel árs. Það þýðir ekkert að taka með silkihönskum á mönnum sem berjast með boxhönskum fyrir sig og sína. Einn þeirra hefur nú stigið fram og segist iðrast. Það er gott svo langt sem það nær, en það þarf meira til. 

Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur mér oft orðið óglatt við tilhugsunina um sukkið sem átti sér stað í bönkunum. Ég get varla farið í Landsbankann án þess að fá klígju upp í kok. Samt vinnur þar bæði heiðarlegt og gott starfsfólk sem hefur ekkert til saka unnið.
Í dag treysti ég ekki bönkum þessa lands, ríkisstjórn eða Alþingi.
Mér finnst hræðilegt að lifa í slíku samfélagi.  
 
Það hryggir mig að heyra fjármálaráðherra og fleiri halda því fram að inneignir almennings í bönkum landsins í október 2008 hafi verið að fullu tryggðar. Það er alrangt. Bankarnir, með aðstoð ríkisstjórnar og alþingis, hirtu allt upp í 30-40% af ævisparnaði þúsunda Íslendinga, einkum eldra fólks. Og eins og það hafi ekki verið nóg, þurftu margir að greiða skatta af peningum sem hafði verið rænt af þeim.
Það er eitthvað að í ríki sem þannig kemur fram við þá sem síst skyldi.
 

Núverandi ríkisstjórn hefur margoft talað um nauðsyn þess að hlúa vel að fyrirtækjum í landinu, til að hægt sé að halda uppi atvinnu og skapa verðmæti. Gott og blessað. En hvað er gert? 
Ég nefni dæmi sem mér stendur nálægt: Lítið fyrirtæki, vel rekið og skuldlaust, átti smá varasjóð sem geymdur var í banka. Það töpuðust 31.2 % varasjóðsins við aðgerðir ríkisstjórnar Íslands og Alþingis haustið 2008. Fyrirtækinu var eigi að síður gert að greiða skatta af því fé sem tapaðist.
Hvers konar bull er það og hvernig samræmist þetta því að hlúa að fyrirtækjum landsins?
Það er eitthvað mikið að.

Hvað er til ráða?
Því miður er það svo að almenningur ber sáralítið traust til stjórnmála-manna, eftir það sem á undan er gengið. Það er skiljanlegt.
Ég tel því ekki þjóðstjórn besta kostinn til að koma Íslandi aftur á flot.
Frá bankahruni hef ég verið þeirrar skoðunar og er enn, að hér þurfi utanþingsstjórn til að taka á málunum. Gefum pólitíkusunum frí, því pólitík þvælist fyrir því sem þarf að gera. Það hefur margoft sýnt sig að margir stjórnmálamenn hugsa um sinn hag og síns flokks, frekar en hag almennings og þjóðarinnar.
Þegar frá líður þarf síðan að breyta kosningalögum þannig að kosið verði um fólk, ekki flokka. Flokksræðið hefur runnið sitt skeið á enda.
Kjósendur vilja fá að kjósa persónur, fólk, þvert á flokkslínur.
 

Kópavogi 7. mars 2010

Hörður Hilmarsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Hörður, þetta er frábær færsla og þér til mikils sóma. Elti ekki ólar við einstök efnisatriði, en færslan er glæsileg og á allan rétt á sér. Algjörlega sammála þér með Spaugstofuna. Margir töldu þá félagana þreytta. Það er nú öðru nær. Þeir reka beittustu þjóðfélagsgagnrýni sem í gangi er á Íslandi. Þrátt fyrir allan galsaganginn, skyldi nú ekki reiðin krauma undir hjá þeim ágætu piltum? Eins og hjá mér, þér og svo mörgum. Ekki öllum þó. Siðblindar óværur hafa það margar gott. Takk fyrir pistilinn og lifðu heill gamli!

Björn Birgisson, 10.3.2010 kl. 20:22

2 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Takk fyrir, minn kæri. Gaman að heyra frá þér.
Kveðjur bestar.
HH

Hörður Hilmarsson, 11.3.2010 kl. 09:19

3 identicon

Góð færsla. Skynsöm og réttsýn og svo sönn.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband