3.1.2009 | 12:02
Til hamingju og takk fyrir mig !
Það var vitað mál að handboltakappinn og heimspekingurinn Ólafur Stefánsson yrði valinn íþróttamaður ársins 2008. Hann hefði ekki þurft að eiga jafn frábært ár og raun ber vitni með sínu félagsliði, Ciudad Real, til að eiga sigurinn vísan sem fyrirliði og leiðtogi íslenska handboltalandsliðsins sem vann silfrið á Ólympíuleikunum í Kína. Innilega til hamingju með kjörið Óli og ótrúleg afrek á einu og sama ári!
Mér fannst einnig gott að sjá Snorra Stein Guðjónsson í 2. sæti og Guðjón Val í því fjórða, því þeir voru eins og allir "strákarnir okkar" lygilegir á ÓL. Snorri valdi heldur betur tímann til að blómstra og brillera með landsliðinu og Guðjón Valur er að mínu mati einhver albesti íþróttamaður sem Ísland hefur fóstrað, mikill keppnismaður, frábær fyrirmynd og drengur góður.
Þá voru "stelpurnar okkar" áberandi á listanum yfir landsins bestu íþróttamenn árið 2008. Margrét Lára, Katrín fyrirliði Vals og landsliðsins, Dóra María leikmaður ársins í Landsbankadeildinni og KR-ingurinn Hólmfríður Magnúsdóttir í 3., 7., 13. og 17. sæti listans, afar verðskuldað enda árangur kvennalandsliðsins framúrskarandi og til sóma fyrir Sigga Ragga þjálfara liðsins og KSÍ.
Þótt engin félagapólitík ríki eða eigi að ríkja í sambandi við val á íþróttamanni ársins, get ég ekki annað en viðurkennt stolt mitt sem Valsmanns yfir því að fjórir af 10 bestu íþróttamönnum Íslands 2008 komi frá Hlíðarenda; Óli Stef., Snorri Steinn, Margrét Lára og Katrín. Og svo finnst okkur Valsmönnum við alltaf eiga töluvert í Eiði Smára sem hóf feril sinn sem leikmaður í meistaraflokki með Val árið 1994, þá aðeins 15 ára. Þetta er alls ekki sagt/skrifað til að kasta rýrð á aðra íþróttamenn eða önnur íþróttafélög. Ég met mikils alla góða íþróttamenn og öll félög sem vinna gott starf.
Að lokum vil ég bara þakka ofannefndum og aðstandendum þeirra, ekki síst Gumma Gumm landsliðsþjálfara og hans teymi, þar með talið Einar Þorvarðar, íslenska karlalandsliðinu í handbolta og íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta fyrir afar ánægjulegt íþróttaár 2008. Það verður seint toppað.
TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG !
Með íþróttakveðju
Hörður Hilmarsson
Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.