Mikill misskilningur í gangi !

Af þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við þessa frétt er ljóst að það er mikill misskilningur í gangi varðandi peningabréfin.  Auðvitað átti alls konar fólk inneign í peningabréfum og peningamarkaðssjóðum. En af þeim mikla fjölda sem ég hef rætt þessi mál við síðustu tvær vikur og fengið tölvubréf frá, er í miklum meirihluta venjulegt fólk sem t.d. hafði fengið arf, fólk sem fengið hafði slysabætur eða örorkubætur, fólk sem hafði minnkað við sig í miðju "góðærinu", selt hús og keypt sér íbúð o.s.frv. En ekki síst eldra fólk, afar og ömmur sem höfðu með sparsemi og ráðdeildarsemi safnað saman nokkrum milljónum króna sem áttu að gera því síðustu æviárin léttbærari. Það er til háborinnar skammar að ræna af þessu fólki 31.2 % sparnaðar þess, því þetta fólk á enga möguleika til að bæta sér upp tapið. Peningabréf voru allt annað en hlutabréf. Þetta var sparnaður fólks og varasjóður sem ríkisvaldið á að meðhöndla eins og annan sparnað, sama hvaða nafn reikningurinn ber.

Þetta er ekki fólkið sem missti sig í því eyðslufylleríi sem var hér á landi undanfarin ár. Þetta er ekki fólkið sem keypti 2-3 jeppa á hvert heimili, flatskjái í hvert herbergi, fjórhjól og fleira. Þetta er fólkið sem sparaði og treysti bankanum sínum, sem margir höfðu átt viðskipti við í 40-50 ár. Þetta er fólkið sem treysti bankanum sínum þegar hann bauð góða og örugga ávöxtunar- og sparnaðarleið. Þetta er fólkið sem starfsmenn bankanna hringdu í að fyrra bragði og buðu betri kjör en sama öryggi. Þetta er fólkið sem hafði samband við bankann sinn í lok sept., byrjun okt. af ótta við ástandið og vildi færa inneignir sínar yfir á aðra reikninga, en bankinn taldi fólkið ofan af því, sagði að inneignir á peningabréfum væru tryggari en á öðrum reikningum, ef allt færi á versta veg. Og það hefur verið staðfest; sparnaður var tryggari í peningabréfum en hefðbundnari innlánsreikningum fram að setningu neyðarlaganna 6. okt. s.l. Hver ber ábyrgð á þeim? Og hverra er það þá að leiðrétta þau mistök að sumar innistæður séu tryggar en aðrar ekki. Kynningar banka, a.m.k. Landsbankans á peningabréfum og skilningur fólks fór saman. Þetta var/átti að vera tryggur sparnaður, án áhættu.

Þær lausnir sem hafa verið nefndar eru m.a. skuldajöfnun í viðkomandi banka, skattaafsláttur eins og hér er nefndur, hlutabréf í nýjum banka (það er ekkert sagt við því að ríkið býður erlendum kröfuhöfum slíkt, en hví býður ríkið ekki þeim Íslendingum sem töpuðu sparnaði sínum hlutabréf?) og bundin inneign í bankanum til 3ja-4ra ára.

Allur sá mikli fjöldi sem rændur var stórum hluta sparnaðar síns, sem búið var að greiða af skatta og önnur gjöld, lendir líka í sömu súpunni og aðrir landsmenn; stórhækkun lána, verðbólga, atvinnuleysi og álögur þær sem ríkið leggur okkur á herðar vegna glannaskapar íslenskra banka erlendis. Eini munurinn er sá að það er búið að taka af sumum þann varasjóð, þann sparnað sem nota átti í "mögru árunum", við stóráföll eða í ellinni. Þannig verður tap þessa fólks mun meiri en annarra. Sumum finnst það kannski í lagi, en mér finnst það til skammar fyrir íslenskt samfélag, hvernig sem á það er litið.

Með aðventukveðju

Hörður Hilmarsson


mbl.is Þeir sem töpuðu fái skattaafslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 39970

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband