25.9.2008 | 23:53
Spennan í hámarki
Atli Viðar: Get alveg séð fyrir mér að við hömpum titlinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2008 | 22:12
Liverpool leynir á sér
Var í Liverpool um fyrri helgi. Sambland af "business and pleasure" eins og stundum vill verða.
Var boðið í brúðkaupspartý fyrsta kvöldið með Eddy Jennings, vini og fyrrum samstarfsmanni í tengslum við Liverpool-mótið sem ÍT ferðir hafa umboð fyrir. Það var gaman að upplifa enska brúðkaupsveislu, en þetta var reyndar ekki aðal veislan. Hún var haldin í New York þremur vikum fyrr.
Laugardagurinn fór allur í stórleik Liverpool og Manchester United. Mínir menn unnu loksins heimaleik gegn Man. Utd., í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni, svo dagurinn var allur hinn ágætasti. Hitti eftir leikinn kollega sem vilja samstarf; þeir bjóða "hospitality pakka" á heimaleiki Liverpool, miða á mjög góðum stað, mat fyrir eða eftir leik og samveru með gömlum stjörnum Liverpool FC. John Aldridge var sá sem "messaði" yfir mannskapnum eftir þennan leik og svaraði fyrirspurnum.
Á sunnudegi fór ég í heimsókn til Ian Ross, fyrrum þjálfara Vals, KR og Keflavíkur, en Roscoe og frú Rona búa ásamt "boxernum" George í Skelmersdale, um 30 mín. fyrir norðan Liverpool. Alltaf gaman að hitta Roscoe og fjölskyldu, rifja upp gamla tíma og borða góðan mat með tilheyrandi.
Liverpool borg er að breytast. Miklum fjármunum hefur verið varið í uppbyggingu miðborgarinnar (ekki veitti af), bæði í tilefni 800 afmælis borgarinnar í fyrra og svo er Liverpool Menningarborg Evrópu 2008. Náði að versla smávegis á mánudegi fyrir heimflug, einkum nauðsynlegar flíkur fyrir golfið, því þótt golfvertíðinni sé að mestu lokið, þá kemur sumar eftir þetta sem er að kveðja með rigningu og roki.
Þetta var fín ferð og ég hlakka til þeirrar næstu á þessar slóðir, hvort heldur það verður til Liverpool eða Manchester sem er einnig prýðileg borg heim að sækja í helgarferð.
Ferðalög | Breytt 24.9.2008 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2008 | 21:40
Bílpróf, brúðkaup og bóklestur
Það er helst af dætrunum að frétta að Bryndís ætlar að gifta sig næsta sumar, Sara tók bílpróf og er kominn með ökuskírteini og Birna Ósk hefur byrjað skólaárið vel, en var reyndar veik heima nánast alla síðustu viku. Góðar og fallegar stúlkur allar þrjár og ég veit vel hvaðan þær hafa það.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2008 | 14:51
Gervigrasið er komið til að vera
Það er rétt hjá Bjarna Jóh. þjálfara Stjörnunnar að það er alls óvíst að knattspyrnulið Stjörnunnar muni hagnast á því í heildina, fótboltalega séð, að leika heimaleiki sína 2009 á gervigrasinu í Garðabæ.
Árið 1991 var undirritaður þjálfari Breiðabliks í efstu deild. Þá var skipt um gras á Kópavogsvelli og við þurftum stærstan hluta sumarsins að leika heimaleikina á þá nýjum gervigrasvelli (sandgras) sem stóð þar sem Fífan er núna, ef ég man rétt. Leikmönnum Breiðabliks þótti ekki gott að þurfa sífellt skipta á milli grass og gervigrass, leika annan hvorn leikinn á grasi, hinn á sandgrasinu. Einnig æfðum við ýmist á grasi eða sandgrasinu eftir því á hvernig undirlagi næsti leikur var. Það var ekki auðvelt.
Stjörnuvöllurinn er af 3. kynslóð gervigrass og mjög góður sem slíkur. Gervigrasvellir nútímans eru orðnir svo miklu betri en fyrstu vellirnir sem hér voru lagðir gervigrasi að munurinn jafnast á við mun á gömlu malarvöllunum (sem reyndar voru misjafnir) og fyrstu gervigrasvöllunum. Ég var lengi andstæðingur gervigrasvalla sem vettvangs fyrir leiki í Íslandsmóti efstu deildar, en sú mótstaða er að minnka með stórauknum gæðum nýjustu tegunda gervigrass. Í dag er betra að leika á góðu gervigrasi en slæmum grasvelli, ef þeir fyrirfinnast þá hjá félögum í efstu deild.
Niðurstaða: Gervigrasið er komið til að vera, en það er ekki sama gervigras og gervigras!
Með fótboltakveðju
Hörður Hilmarsson
Högnumst ekki á gervigrasinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2008 | 08:44
Klúður !
Það er með ólíkindum að annað eins klúður skuli geta gerst árið 2008 og varð í sambandi við skráningu á gulu spjaldi FH-ingsins Dennis Siim. Leikmaðurinn átti með réttu að vera í leikbanni í stórleiknum skemmtilega um helgina, þegar FH vann Keflavík sanngjarnt 3-2, en klúður á skrifstofu KSÍ varð þess valdandi að mál DS var ekki tekið fyrir á fundi aganefndar KSÍ í síðustu viku. Hann lék því gegn Keflavík í "úrslitaleik" mótsins, má einnig leika á morgun, miðvikudag gegn góðu liði Breiðabliks, en tekur út leikbann í lokaleiknum gegn Fylki á laugardaginn. - Með fullri virðingu fyrir Fylki, þá eru Keflavík og Breiðablik klárlega mun sterkari andstæðingar. Þannig nýtur FH, án þess að hafa nokkuð til þess unnið eða gert, mistaka sem urðu á skrifstofu KSÍ. Ég hef þó ekki séð eða heyrt KSÍ taka af allan vafa um hvað gerðist og hvar mistökin liggi."Skýrslurnar eru forskrifaðar af félögunum og farið svo yfir þær hjá KSÍ. Þau mistök voru gerð að spjaldið sem var í leikskýrslunni hjá dómaranum var ekki skráð í gagnagrunninn." segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ. Þetta segir ekki alla söguna og opnar m.a.s. fyrir hugleiðingar um að FH hafi gert mistök við "forskrifun" leikskýrslunnar og starfsmenn KSÍ tekið hana sem rétta.
Ég er hræddur um að vinir mínir í forsvari knattspyrnudeildar FH vilji ógjarnan liggja undir ámæli um að skila frá sér ranglega útfylltri skýrslu (óvart eða viljandi) sem hafi áhrif á það í hvaða leik leikmaður þeirra tekur út leikbann. Mannleg mistök geta alltaf átt sér stað, en skrifstofa KSÍ er bæði það tæknivædd og vel mönnuð að það á að vera hægt að fyrirbyggja klúður sem þetta. Og að sjálfsögðu á KSÍ að taka af allan vafa um að mistökin séu alfarið skrifstofu KSÍ, en ekki kd. FH.
Með knattspyrnukveðju
Hörður Hilmarsson
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2008 | 08:14
Árni Gautur er besti kosturinn
Það er óskandi að Óli Jóh., landsliðsþjálfari, beri gæfu til að kalla eftir þjónustu Árna Gauts Arasonar í verkefni landsliðsins í október.
Þeir markmenn sem leika í Landsbankadeildinni eru flestir ágætir, en enginn afgerandi. Allir hafa þeir sína kosti og sína galla, en sá sem ég tel mesta möguleika á að ná þeim stöðugleika sem landsliðsmarkmaður þarf að sýna er KR-ingurinn Stefán Logi Magnússon. En ég tel að Árni Gautur sé klárlega besti kosturinn sem markmaður A-landsliðsins númer eitt og Stefán Logi eigi að vera varamarkmaður, með það fyrir augum að hann taki við af Árna þegar hans tími er kominn.
Áfram ÍSLAND !
Hörður Hilmarsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2008 | 12:35
Úrslitaleikur þrátt fyrir allt !
Í dag, sunnudaginn 21. sept., fer fram stórleikur í Landsbankadeildinni í knattspyrnu á milli FH og Keflavíkur. Keflvíkingar sem hafa komið skemmtilega á óvart í sumar, sitja verðskuldað í efsta sæti deildarinnar og þurfa aðeins eitt stig í síðustu tveimur leikjunum til að tryggja sér fyrsta Íslandsmeistaratitili sinn frá 1973.
En Keflavík má ekki misstíga sig. Tap gegn FH í dag gæti haft í för með sér mikla spennu fram á síðustu mínútu í síðustu umferð Landsbankadeildarinnar sem fram fer n.k. laugardag. Segjum sem svo að FH vinni í dag. Þá eiga þér eftir frestaðan leik gegn Breiðabliki í miðri viku og þótt Blikar hafi á köflum leikið stórskemmtilega á yfirstandandi tímabili, þá er FH-liðið enn betra og á að vinna þann leik. Þá væri komið að spennandi lokaumferð þar sem FH mætir Fylki í Árbænum og Keflavík tekur á móti Fram sem er í harðri baráttu um 3. sætið og er sýnd veiði en alls ekki gefin. Við slíkar aðstæður ræður það meiru hvernig menn höndla spennuna heldur en fótboltaleg geta.
Ég held að Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur og hans menn geri sér vel grein fyrir ofanrituðu og geri allt til þess að forðast það að lenda í taugatrekkjandi viku og enn verri lokadegi deildarinnar. Eitt stig gegn FH í dag er nóg til að tryggja titilinn.
Sem Valsmaður og fyrrum þjálfari úrvalsdeildarfélaganna FH, Breiðabliks og Grindavíkur þá get ég vel unnt Keflvíkingum þess að bera sigur úr býtum í Landsbankadeildinni. Ef þeir standast prófið í dag .... eða á laugardaginn, þá eru þeir verðugir sigurvegarar, en hvernig sem allt fer er Keflavík á ný komið í hóp bestu knattspyrnuliða landsins. TIL HAMINGJU KEFLVÍKINGAR !
Með fótboltakveðju
Hörður Hilmarsson
Verður Keflavík Íslandsmeistari í dag? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2008 | 09:51
Flottur fótbolti
Enn eitt árið er Arsene Wenger að koma fram með frábært fótboltalið sem spilar jákvæðan og skemmtilegan bolta, sem unun er að horfa á og hlýtur að vera gaman að spila. Sama með hvaða félagi menn halda; það hljóta allir knattspyrnuunnendur að hrífast af leik Arsenal þessi misserin. Sjálfur styð ég Val, Liverpool og Real Madrid, í þessari röð, en viðurkenni að mín lið standa Arsenal töluvert að baki í boltanum, í skemmtanagildi og góðum leik.
Fótboltakveðja
háhá
Wenger: Þetta var fullkominn leikur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2008 | 09:32
Lélegt á Laugardalsvelli
Miðvikudaginn 10. sept. s.l. fylltu 10.000 Íslendingar og Skotar þjóðarleikvanginn í Laugardal vegna landsleikjar Íslands og Skotlands í undankeppni HM 2010. Leikurinn sem slíkur var ágætur, okkar menn léku á köflum vel og áttu skilið a.m.k. eitt stig út úr viðureigninni.
En það er ekki leikurinn sem slíkur sem eftir situr í minningunni, heldur hnökrar á framkvæmd leikjarins eða öllu heldur móttöku áhorfenda. Ég keypti miða á Netinu fyrir sjálfan mig og starfsfólk ÍT ferða o.fl. sem ég ákvað að bjóða á leikinn. Við kaupin kom fram að hægt væri að nálgast miða í verslunum Skífunnar, gegn framvísun útprentaðrar kvittunar fyrir viðskiptunum. Það reyndist ekki rétt. Þá var hringt í KSÍ sem svaraði því til að nóg væri að prenta út miðana í eigin tölvu. Það var gert. Þegar komið var að "nýju" ("bláu") stúkunni var okkur og öðrum sem voru með sams konar útprentanir vísað "hinum megin", á aðalinngang vallarins vegna þess að ekki væru skannar þarna megin til að lesa miðana. Við aðalinnganginn var fleiri þúsund manna röð og aðeins afgreitt inn um þrennar dyr eða hlið. Þótt fólk hafi mætt á völlinn 30 mín. fyrir leik komust margir ekki í sæti sín fyrr en 20 mín. eftir að leikur hófst.
Þessi framkvæmd var KSÍ ekki boðleg og er nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að e-ð þessu líkt endurtaki sig.
Með knattspyrnukveðju
Hörður Hilmarsson
Íþróttir | Breytt 23.9.2008 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar