Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

"Glöggt er gests augað"

"Glöggt er gests augað" segir máltækið og það kom enn einu sinni í ljós í ræðu Roberts Wade á borgarafundi í Háskólabíó s.l. mánudag.

Meðal ummæla RW:
"Í stað þess fóru bankarnir á smásölumarkað með fé, með því að opna Icesave netreikninga og reikninga Singer and Friedlander. Þeir hófu að soga til sín sparifé með því að bjóða breskum, hollenskum og þýskum sparifjáreigendum ögn hærri innlánsvexti en þeir fengu frá sínum eigin bönkum."

"Hver ætti að bera ábyrgðina á því sem gerðist á Íslandi?
Í fyrsta lagi stuðluðu bankamennirnir og bankaráðin að því með virkum hætti að hagkerfið var keyrt fram af bjargbrún. Nú er ljóst að þeir notuðu bankana sem sína eigin sparibauka og brutu grundvallarreglur heilbrigðrar bankastarfsemi í þágu eigin viðskiptahagsmuna.
Tæknin sem þeir notuðu til að búa til „falskar" eignir með sviksamlegum færslum á milli banka og tengdra fjárfestingarfyrirtækja er nú vel þekkt. Sömuleiðis sú sviksamlega tækni sem þeir notuðu til að fá sparifjáreigendur til að færa inneignir sínar í peningamarkaðssjóði sem tengd fjárfestingarfyrirtæki stjórnuðu." 

Þetta er mergurinn málsins:
IceSave reikningarnir voru ákveðnir á einum fundi Landsbankans, peningabréfin á öðrum (eða sama fundi, það breytir engu).
Annars vegar var ákveðin leið til að seilast í vasa erlendra sparifjáreigenda, hins vegar í vasa íslenskra. Nú hefur verið ákveðið að endurgreiða erlendum sparifjáreigendum inneign sína, en hvað með íslenska innistæðueigendur sem töpuðu 1/3 af sparnaði sínum?

Hvar var FME, hvar voru stjórnvöld, hvar voru þingmenn???
Og hvað ætla þessir aðilar að gera nú þegar sukkið hefur verið opinberað?

Hörður Hilmarsson
 
 


Eigendur bankanna sukkuðu með fjármuni og sparnað almennings

Það er vel skiljanlegt að fólk sem fékk einhverjar bætur vegna íbúðarhúsnæðis sem eyðilagðist í jarðskjálftunum hafi ákveðið að geyma þá fjármuni inni á peningabréfum eða peningamarkaðsreikningum meðan ákveðið var hvað gera skyldi við bæturnar.
Kynning bankanna og skilningur almennings var samhljóða, þ.e. þetta voru bankareikningar sem báru góða vexti, enga áhættu og voru alltaf lausir, a.m.k. kynnti Landsbankinn sín peningabréf þannig. Landsbankinn kynnti peningabréfin gjarnan ásamt svo kölluðum vaxtareikning, en ekki var tíundað að annað reikningsformið bæri einhverja áhættu en hitt ekki. Fólk sem fékk örorkubætur, hlaut arf eða átti einhvern sparnað eftir ævilangt strit setti einnig, oft eftir mikla hvatningu frá sínum viðskiptabanka/þjónustufulltrúa, alla fjármuni sína í peningabréf. Fólk var blekkt. Hver ber ábyrgð?

Það er ekki nóg með að kynning og markaðssetning peningabréfanna hafi verið siðlaus og væntanlega ólögleg. Meðhöndlun fjármuna fólks sem setti sparnað sinn í peningabréf var eitthvert ósvífnasta sukk sem sá sem þessar línur ritar hefur kynnst. Hver ber ábyrgð?

Hvar var FME og aðrir þeir aðilar sem eiga að vernda almenning fyrir óprúttnum bankamönnum sem svifust einskis í þeirri viðleitni sinni að komast yfir eigur almennings?
Hvenær verður flett ofan af sukki eigenda bankanna með fjármuni (sparnað) almennings í eigin þágu og sinna fyrirtækja?
Ætlar ríkisstjórnin virkilega að loka augunum fyrir því siðleysi og þeirri lögleysu sem þarna átti sér stað?
Ætla alþingismenn að sitja hjá þegar 1/3 af ævisparnaði eldra fólks og annarra er rænt af siðlausum bankamönnum og bankaeigendum sem greinilega kunna ekki að skammast sín.

Þolinmæði mín er á þrotum. Ég vil svör og ég vil aðgerðir. Ég vil réttlæti!

Hörður Hilmarsson


mbl.is Tjónabætur í peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir mig og mína!

Það er flest satt og rétt í þessu áramótaávarpi Ólafs bæjarstjóra á Seyðisfirði.
Til viðbótar vil ég sjá meiri og betri vinnu stjórnvalda við að velja og hafna þeim kröfum sem til íslenska ríkisins eru gerðar vegna hruns "íslenskra" banka erlendis. - Vildu þeir ekki vera alþjóðlegir og er þá ekki rétt að segja alþjóðlegra banka? -

Hvaða sanngirni er í því að almenningi á Íslandi sé gert að borga erlendar skuldir gráðugra bankamanna? Ekki hefði þessi sami almenningur fengið sambærilegan hlut í hagnaði ef betur hefði tekist til!

Það er með óbragð í munni sem ég þakka hinum gráðugu bankamönnum og vanmáttugu stjórnvöldum sem hér hafa ríkt (og þá er enginn undanskilinn; FME, Seðlabankinn, ríkisstjórnin, Alþingismenn) fyrir skuldir þær sem ég og börnin mín hafa verið dæmd til að greiða og það án þess að nokkur réttarhöld hafi farið fram. Ég tel okkur saklaus af þeim gæp sem framinn var og annarra að hreinsa upp skítinn eftir sig, áður en seilst er í tóma vasa íslensks almennings.

Takk fyrir mig og mína ..... eða þannig!

Hörður Hilmarsson


mbl.is Ekki borga skuldir bankahrunsins segir bæjarstjórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptavinir Landsbanka

Það er skrýtið að heyra allt í einu um og frá Landsvaka.
Ég fullyrði að langflestir sem lögðu sparifé sitt í peningabréf Landsbankans, oft að frumkvæði starfsmanna bankans, hafi talið og telji sig enn hafa verið viðskiptavini Landsbankans. Þessu fólki kemur Landsvaki í raun ekkert við. Landsvaki er innanhúsmál Landsbankans.

Þegar ég leitaði ráðgjafar um fjárvörslu, geymslu varasjóðs fyrirtækis míns, sendu starfsmenn Landsbanka mér upplýsingar um tvo reikninga sem þeir mæltu með, þ.e. vaxtareikning og peningabréf. Það var ekkert minnst á að annar reikningurinn væri undir umsjón Landsvaka og því var eðlilegt að álíta að um tvær sparnaðarleiðir Landsbankans væri að ræða.

Starfsmaður hjá mér hafði fengið sams konar upplýsingar þegar starfsmaður Landsbankans hringdi í hann og sendi síðan upplýsingar um reikninga sem hann mælti með, í stað þeirrar sparnaðarleiðar sem starfsmaður minn var með. Peningabréf eru þar kölluð "langvinsælasti svona sparireikningur bankans". Á grundvelli þessara upplýsinga lét ég millifæra varasjóð fyrirtækis míns og sparnað fjölskyldunnar á peningabréfareikning Landsbankans. Ég heyrði fyrst um Landsvaka eftir hrun Landsbankans og ég veit að svo er um flesta inneignarhafa í peningabréfareikning Landsbankans.

Það er hróplegt óréttlæti að inneign á peningabréfareikningum sé ekki tryggð 100 % á sama hátt og annar sparnaður landsmanna, því upplýsingar starfsmanna Landsbankans og skilningur fólks fór saman að því leyti að um örugga og góða ávöxtunar- og sparnaðarleið væri að ræða.

Hafi Landsbankinn farið illa með það fé sem hann hafði í fjárvörslu, ber hann og eigendur hans, bæði fyrrverandi og núverandi, ábyrgð á því, ekki það fólk og fyrirtæki sem skv. ráðgjöf starfsmanna Landsbankans valdi reikning sem hét peningabréf, í stað reiknings sem kallaðist vaxtareikningur eða sparisjóðsbók eða e-ð annað til að geyma sparnað sinn í.

Stjórnvöld hafa enn tækifæri til að leiðrétta hróplegt óréttlæti áður en yfir þau skellur holskefla lögsókna og annarra aðgerða sem verða tímafrekar og kostnaðarsamar fyrir alla aðila.

Kveðja

Hörður Hilmarsson


mbl.is Yfirlýsing vegna peningabréfasjóðs Landsvaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta skýrir ýmislegt !

Þetta skýrir ýmislegt, t.d. það að á þremur dögum, 1.-3. okt., voru teknir út úr peningabréfasjóði Landsbankans um 70 milljarðar. Innistæða lækkaði úr 170 milljörðum í 102 milljarða. Það samsvarar öllum útgjöldum íslenska ríkisins í tvo mánuði. Hvar var sjóðsstjórinn? Hvar var eftirlitið?

Vegna þessa var endurgreiðsla til innistæðueigenda í peningabréfum Landsbankans aðeins 68.8 %, en um 85 % í peningamarkaðssjóðum Kaupþings og Glitnis sem þóttu þó báðir standa mun verr, einkum Glitnir.

Kveðja

Hörður


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf við Norðmenn um olíuleit

Frést hefur að líklega sé á svæðinu í kringum Ísland mikið magn olíu. Það væri vissulega meiriháttar ef rétt reynist. En íslensk stjórnvöld eru engan veginn í stakk búin við núverandi ástand til að leggja út í kostnaðarsamar rannsóknir og olíuleit. Er ekki tilvalið að leita strax samstarfs við Norðmenn sem hafa reynsluna, tækin og annað sem þarf að framkvæma þær kannanir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru? Að sjálfsögðu þyrfti að semja um veglegar % til handa Norðmönnum, ef árangur verður af rannsóknum og leit, hvort sem þeir fengju 70 eða 80 % eða annað sem eðlilegt telst og um semst. Í öllu falli er betra fyrir okkur Íslendinga að fá 5, 10 eða 25 % af miklu, heldur en 100 % af engu.

Er eftir einhverju að bíða ?

Kveðja

Hörður Hilmarsson


Lögfræðingur óskast !

Þetta er ekki í lagi !!!
Stjórnvöld verða að skilja að ef inneignir fólks og fyrirtækja í peningabréfum og peningamarkaðssjóðum verða ekki að fullu bættar eins og annað sparifé, þá mun það hafa alvarlegar afleiðingar þar sem mörg fyrirtæki munu draga saman eða hætta starfsemi með tilheyrandi uppsögnum og atvinnuleysi, fólk missi húsnæði sitt o.fl. o.fl. Auk þess munu fjölmargir einstaklingar tapa yfir 30 % ævisparnaðar og gætu þurft að vera upp á ríki og sveitarfélög komnir síðasta hluta ævinnar. Er það betra en að bæta strax skaðann sem bankarnir skópu?

Krafan er einföld: Íslenska ríkið geri ekki greinarmun á tegund sparnaðar og bæti að fullu inneignir fólks í peningabréfum og peningamarkaðssjóðum, eins og annan sparnað fólks og fyrirtækja. Það gengur ekki að hegna fólki fyrir að lifa sparsamt og leggja fyrir til mögru áranna. Nú eru mögru árin að skella á okkur og þá þurfum við á okkar sparifé og varasjóðum að halda. Það gengur ekki að taka (mér liggur við að segja stela) sparnaðinn af okkur, ofan á allt annað!

Ég sætti mig ekki við skerðingu á þeim höfuðstól sem ég og fyrirtæki mitt lögðu í peningabréf skv. ráðleggingum starfsmanna bankans, sem kallar þau í tölvubréfi sparireikning sem "ber góða vexti, enga áhættu og er alltaf laus".

Einhver hlýtur að bera ábyrgð, ef ekki fyrrverandi eigendur bankanna þá núverandi. - Lögfræðingur óskast !

Reykjavík 28. október 2008
Hörður Hilmarsson

mbl.is Landsbankinn greiðir upp peningamarkaðssjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir þetta?

Hvað þýðir þetta fyrir þá keyptu peningabréf Landsbankans fyrir sitt sparifé eða varasjóð?

Ég hef hitt og heyrt í fjölmörgum aðilum sem bíða í ofvæni eftir því hvað verður um sparifé þess eða varasjóð fyrirtækja þeirra. Starfsmenn (ráðgjafar) Landsbankans voru duglegir við að benda á peningabréfin sem ákjósanlegan kost til að geyma handbært fé, því þau "bera góða vexti, enga áhættu og eru alltaf laus", eins og segir í bréfi frá einum ráðgjafanum, sem hafði samband að fyrra bragði við aðila mér nákominn.

Hver ber ábyrgð ef fólk fær ekki allan höfuðstólinn endurgreiddan?
Hvert getur fólk snúið sér til að leita réttar síns?

Með vinsemd

Hörður Hilmarsson


mbl.is Engin hlutabréf í eignasafni peningamarkaðssjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eftir einhverju að bíða?

Eftir hverju er ríkisstjórnin að bíða?
Svo virðist sem flest það sem gert hefur verið síðustu vikuna, síðan ríkisvaldið tók yfir Glitni, hafi gert ástandið verra en ekki betra. Það er eins og menn hafi verið að skvetta olíu á eld. Er betra að bíða eftir því að ástandið verði enn verra, áður en leitað verður til IMF eftir aðstoð? Þangað stefnir og er þá ekki betra að gera það strax og koma með því í veg fyrir enn frekari áföll?
Lengi getur vont versnað og því nauðsynlegt að stoppa það hrun sem hér á sér stað, ekki seinna en strax!

Baráttukveðjur

Hörður Hilmarsson


mbl.is Baksvið: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn - með góðu eða illu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband