Færsluflokkur: Dægurmál
7.1.2012 | 04:29
15 ára afmæli ÍT ferða; flottur bæklingur og ný heimasíða
Ég tók mér gott frí frá hefðbundnu bloggi, en hef verið þeim mun aktívari á Facebook sem er ágætur samskiptavefur og góð leið til að halda sambandi við ættingja og vini. Fb gefur einnig tækifæri til að kommentera á margt það sem í gangi er í samfélagi voru og skrifa hugleiðingar um ýmis mál, allt eða ekkert.
Á nýbyrjuðu ári er starfið ofarlega í huga. Fyrirtæki fjölskyldunnar, ÍT ferðir varð 15 ára s.l. haust og um leið hélt ég upp á 25 ára afmæli í ferðaþjónustu á Íslandi. Að venju gefa ÍT ferðir út ársbækling þar sem ferðaframboð ferðaskrifstofunnar er kynnt. 2012 bæklingurinn er venju fremur glæsilegur og á hönnuðurinn Einar Pálmi Árnason þar stærstan hlut að máli. Hafi hann mikla þökk fyrir. Kortéri fyrir áramót fór í loftið ný heimasíða ÍT ferða, www.itferdir.is þremur mánuðum á eftir áætlun, en "betra er seint en skömmu síðar" eins og kerlingin sagði.
Við starfsmenn ÍT ferða erum stolt af bæklingnum, heimasíðunni og ekki síst afar metnaðarfullum göngu-, sögu- og menningarferðum sem við bjóðum upp á 2012. Þá er hafið samstarf við áhugasama aðila um sölu golfferða til Spánar þar sem við bjóðum upp á tvö afar flott 5 stjörnu golfhótel á 4ra stjörnu verði. Íþróttaferðir eru sem fyrr kjarninn í starfsemi fyrirtækisins og þótt boltaferðum til Englands hafi fækkað eru fótboltaferðir knattspyrnuliða sem og æfinga- og keppnisferðir handbolta- og körfuboltaliða um 50% af starfseminni. Loks er aukin áherslu lögð á móttöku erlendra ferðamanna til Íslands og viljum við með því leggja hönd á plóginn til þeirrar gjaldeyrisöflunar sem svo mikilvæg er þjóðarbúinu á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum þessi misserin.
Megi nýbyrjað ár verða friðsælt og gott, landi og lýð til heilla. - Nei, ég er ekki á leiðinni í forsetaframboð (en tek þó á móti áskorunum).
Ár og friður / Hörður Hilmarsson
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2010 | 10:20
Hugsað upphátt
Eigið ánægjulegan vetur!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2010 | 19:01
Hvað svo ?
Hvað mun það taka langan tíma þangað til þeir aðilar sem gerðust brotlegir við lög verði sóttir til saka, dæmdir og þeim stungið inn? Maður reynir að kenna börnum sínum heiðarleika og muninn á réttu og röngu. En hvernig á maður að svara þeim þegar þau spyrja eftir að hafa horft á fréttir síðasta sólarhrings af hverju ekki sé búið að setja vissa menn í fangelsi? Þurfa menn að nota kúbein við bankarán til að verða sóttir af lögreglu og stungið inn, á meðan dæmt er í málum þeirra? Fjármálaráðherra sagði brúnaþungur í gær eitthvað á þessa leið: "Rán var það og rán skal það heita". Þetta er náttúrulega rétt hjá manninum, en hvað svo? Ef ég brýst inn í Landsbankann í nótt og ræni þeim krónum sem þar er að finna, ef einhverjar, má ég þá eiga von á því að ég geti leikið mér fyrir afraksturinn í 2-3 ár eða meira, áður en lögreglan bankar upp á og spyr, vonandi kurteislega, hvar ég hafi verið aðfararnótt 14. apríl 2010?
Skýrslan góða er áfellisdómur yfir stofnunum og embættismönnum ríkisins, einkum fyrri ríkisstjórn, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka og Alþingi. Aðal brotamennina er þó að finna í bönkunum, í hópi stærstu eigenda og helstu stjórnenda stóru bankanna. Þeirra sem fáru ránshendi um hirslur bankanna og hirtu sparnað þúsunda Íslendinga. Hvar eru þeir fjármunir? - "Follow the money" sagði Eva Joly og það er nákvæmlega það sem þarf að gera. Menn mega ekki komast upp með að ryksuga íslensku bankana, flytja afraksturinn í erlenda banka og njóta glæpsins síðar, þegar um hægist. Er virkilega enginn að vinna í að kyrrsetja allar eignir glæpamannanna og leita uppi hvar þeir földu þýfið? Er svona mikill munur í hugum þeirra sem gæta eiga laga og reglna í landinu, hvort glæpamenn eru með bindi eða kúbein?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 12:55
Bréf til fjármálaráðherra
Úr því að ég hef ekkert svar fengið, birti ég bréfið nú hér á bloggsíðu minni.
Góðan daginn Steingrímur,
Er að lesa fréttir á vefmiðlunum og hnaut um eftirfarandi fyrirsögn á dv.is: Maður bara nuddar augun og trúir þessu varla Ég held að það þurfi nú að gera eitthvað annað og meira en að nudda augun og verða hissa á endalausum fréttum um sukkið og siðleysið sem viðgekkst átölulaust í bönkum landsins fyrir bankahrun.
Mig grunar að enn sé víða maðkur í mysunni.
Vísa í blogg mitt frá því fyrir um mánuði síðan; sjá http://hoerdur.blog.is/blog/hoerdur/entry/1028208/
Ítreka það sem þar kemur fram:
Það þýðir ekkert að taka með silkihönskum á mönnum sem berjast með boxhönskum fyrir sig og sína.
Á borði þíns ráðuneytis er mál sem ég minnist á í þessum pistli mínum.
Hvernig má það vera að fyrst steli banki, Landsbankinn, 31.2 % sparnaðar einstaklinga og félaga, með samþykki, vilja og vitund Alþingis og fyrri ríkisstjórnar og síðan skattleggur ríkið tekjur þær sem búið er að ræna af þegnum og fyrirtækjum þessa lands? Tilraunir til að fá leiðréttingu á skattlagningu vegna skertrar greiðslugetu hafa ekki skilað neinu. Maður líttu þér nær!
Peningamarkaðssjóður Landsbankans var Icesave á Íslandi. Er ekki rétt að leiðrétta það ranglæti sem borgarar/skattgreiðendur þessa lands urðu fyrir af hálfu Landsbankans, Alþingis og fyrri ríkisstjórnar áður en erlendum aðilum er endurgreitt tap sparnaðar sem þeir urðu fyrir af hendi sömu aðila. Maður líttu þér nær! Eru skyldur þingmanna og ráðherra íslenska ríkisins ekki fyrst og mest við þegna Íslands?
Þarf maður að tala ensku eða flæmsku til að hlustað sé á sanngjarnar kröfur um fulla endurgreiðslu sparnaðar?
Með kveðju
Hörður Hilmarsson
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2010 | 13:24
Ólöglegar arðgreiðslur
Dr. Andrés, geðlæknir minntist í Silfri Egils í dag á að stórir aðilar í viðskiptalífinu hafi fegrað stöðu sinna fyrirtækja með lántökum og í kjölfarið greitt sjálfum sér stórar upphæðir í arð. Fyrirtækin hafi í raun verið á leið í þrot og séu nú komin í eigu ríkisins. Þessar arðgreiðslur þurfi menn að endurgreiða ríkinu. Ég gæti ekki verið meira sammála. Svona gjörningar hljóta að vera ólöglegir. Ef ekki þá eru lögin ekki í lagi og þarf þá að breyta þeim. Það þarf bæði að lögsækja og krefjast endurgreiðslu frá þeim aðilum sem stunduðu iðju af þessu tæi.
Steingrímur joð: Er ekki rétt að fara að vakna og gera eitthvað af viti?
Kveðja
HH
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2010 | 18:05
Það er eitthvað mikið að !
Hvernig gat það gerst að hér á Íslandi varð til ríki í ríkinu, batterí sem varð öllu öðru æðra og reyndist máttugra en ríkisstjórn og sjálft Alþingi?
Topparnir á fjármálageiranum á Íslandi, bankaeigendur og bankastjórnendur voru (og eru?) valdamestu menn lýðveldisins og engin lög virðast ná yfir þá og þeirra gerðir.
Hvernig stendur á því?
Ef lög landsins ná ekki yfir allan landslýð, þ.m.t. þá aðila sem stærstan þátt eiga í hruni fjármálakerfisins, þá þarf að breyta þeim og það strax.
Það dugir ekki fyrir forsætis- og fjármálaráðherra að koma fram í fjölmiðlum, alveg jafn agndofa og almenningur yfir fréttum af fjármála-misferli og sukki tiltölulega fárra aðila. Það gengur heldur ekki að biðla til þessara sömu aðila að þeir sýni nú þann manndóm og samhug að skila til baka illa fengnu fé. Fé sem oft var greitt sem arður af rekstri fyrirtækja sem voru í reynd fallit, en gátu við fyrstu sýn eftir bókhaldsbrellur, litið vel út um stundarsakir, en urðu svo gjaldþrota innan skamms tíma, jafnvel árs. Það þýðir ekkert að taka með silkihönskum á mönnum sem berjast með boxhönskum fyrir sig og sína. Einn þeirra hefur nú stigið fram og segist iðrast. Það er gott svo langt sem það nær, en það þarf meira til.
Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur mér oft orðið óglatt við tilhugsunina um sukkið sem átti sér stað í bönkunum. Ég get varla farið í Landsbankann án þess að fá klígju upp í kok. Samt vinnur þar bæði heiðarlegt og gott starfsfólk sem hefur ekkert til saka unnið.
Í dag treysti ég ekki bönkum þessa lands, ríkisstjórn eða Alþingi.
Mér finnst hræðilegt að lifa í slíku samfélagi.
Það hryggir mig að heyra fjármálaráðherra og fleiri halda því fram að inneignir almennings í bönkum landsins í október 2008 hafi verið að fullu tryggðar. Það er alrangt. Bankarnir, með aðstoð ríkisstjórnar og alþingis, hirtu allt upp í 30-40% af ævisparnaði þúsunda Íslendinga, einkum eldra fólks. Og eins og það hafi ekki verið nóg, þurftu margir að greiða skatta af peningum sem hafði verið rænt af þeim.
Það er eitthvað að í ríki sem þannig kemur fram við þá sem síst skyldi.
Núverandi ríkisstjórn hefur margoft talað um nauðsyn þess að hlúa vel að fyrirtækjum í landinu, til að hægt sé að halda uppi atvinnu og skapa verðmæti. Gott og blessað. En hvað er gert?
Ég nefni dæmi sem mér stendur nálægt: Lítið fyrirtæki, vel rekið og skuldlaust, átti smá varasjóð sem geymdur var í banka. Það töpuðust 31.2 % varasjóðsins við aðgerðir ríkisstjórnar Íslands og Alþingis haustið 2008. Fyrirtækinu var eigi að síður gert að greiða skatta af því fé sem tapaðist.
Hvers konar bull er það og hvernig samræmist þetta því að hlúa að fyrirtækjum landsins?
Það er eitthvað mikið að.
Hvað er til ráða?
Því miður er það svo að almenningur ber sáralítið traust til stjórnmála-manna, eftir það sem á undan er gengið. Það er skiljanlegt.
Ég tel því ekki þjóðstjórn besta kostinn til að koma Íslandi aftur á flot.
Frá bankahruni hef ég verið þeirrar skoðunar og er enn, að hér þurfi utanþingsstjórn til að taka á málunum. Gefum pólitíkusunum frí, því pólitík þvælist fyrir því sem þarf að gera. Það hefur margoft sýnt sig að margir stjórnmálamenn hugsa um sinn hag og síns flokks, frekar en hag almennings og þjóðarinnar.
Þegar frá líður þarf síðan að breyta kosningalögum þannig að kosið verði um fólk, ekki flokka. Flokksræðið hefur runnið sitt skeið á enda.
Kjósendur vilja fá að kjósa persónur, fólk, þvert á flokkslínur.
Kópavogi 7. mars 2010
Hörður Hilmarsson
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.8.2009 | 10:07
Orð í belg
Góðan daginn,
Ég hef fylgst með umræðunni og því sem skrifað hefur verið um Ice-Save, ESB og önnur aðkallandi mál sem liggja þungt á þjóð okkar um þessar mundir.
Varðandi Ice-Save þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé þeirra sem stofna til skulda, með einum eða öðrum hætti, að greiða þær. Ekki annarra sem eru svo heppnir eða óheppnir að vera af sama þjóðerni og það fólk sem stofnaði til skuldanna. Ekki hefði íslenskur almenningur fengið hagnaðinn ef betur hefði tekist til með Ice-Save og verkefnið skilað arði. Eigendur Landsbankans og yfirmenn hefðu gert það sama og þeir gerðu þrátt fyrir slæma stöðu bankans, þ.e. að hirða til sín og félaga í eigin eigu allt það lausafé sem þeir komust yfir. Þegar menn greiða sjálfum sér ótrúlegar upphæðir í arð og bónusa ofan á ofurlaun þegar fyrirtæki er á hraðri leið á hausinn, hvaða gera slíkir menn ekki þegar vel gengur í rekstri fyrirtækja?
Ekki minnkar siðleysið þá.
Sjá á www.altice.blog.is hvers vegna þjóðinni ber ekki að greiða Ice-Save samninginn skv. lögum og tilskipunum Evrópusambandsins sjálfs.
Innganga í ESB heillar mig ekki. Ég óttast svona bákn og held að við myndum missa mikið af því sjálfstæði sem okkur er kært. Sjálfstæði sem ásamt tungumálinu og sögu lands og þjóðar gerir okkur að því sem við erum í dag.
Gjaldeyrismál: Íslenska króna (ISK) er ónýtur gjaldmiðill og verður aldrei aftur brúkleg í þeim viðskiptum sem við þurfum að eiga við önnur lönd. Það má skipta um gjaldmiðil án þess að ganga í ESB. Flestir tala um evru (EUR), en það á ekki að útiloka aðrar lausnir s.s. USD eða NOK.
En það er ekki hægt að hanga inni við bloggskrif þegar veðrið er eins dásamlegt og í dag. Fleiri hugleiðingar og fleiri orð í belginn verða að bíða, kannski ekki betri tíma, en klárlega annars tíma.
Eigið ánægjulega verslunarmannahelgi !
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 12:53
Góð helgi !
Þetta er búið að vera ánægjuleg og gefandi fjölskylduhelgi.
Yngsta dóttirin, Birna Ósk, varð 15 ára á föstudaginn og af því tilefni fórum við fjölskyldan í bæinn.
Það var reyndar ekki auðvelt að fá borð fyrir 5 á þeim stöðum sem hugur afmælisbarnsins stóð til, en eftir um 2 klst. fengum við borð á Basil & Lime við Klapparstíg. Það er huggulegur staður og við fengum þar mjög góðan mat og góða þjónustu. Mæli með þessum veitingastað.
Í gær, laugardag, fórum við hjónin með 18 1/2 árs yngismeyna Söru Mildred í bæinn. Bílnum var lagt við Snorrabraut og við röltum Laugaveginn, Bankastrætið, niður á Austurvöll og til baka, með viðkomu í nokkrum verslunum (mæðgurnar, ég sat fyrir utan), á Vegamótum í sólbað og snarl o.fl. Þetta var 4-5 tíma pakki í góðu veðri að viðstöddu fjölmenni.
Grillaði svo gott svínakjöt í gærkvöldi og ítalskt rauðvínið rann ljúflega niður.
Bíltúr í dag, væntanlega í Hestvík við Þingvallavatn, að athuga hvort góðir vinir, Atli Már og Andrea, séu í bústað sínum.
Svona eiga helgar að vera !
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2009 | 10:31
Úr minningabankanum: Með pabba
Við saman á fótboltaleik á Akranesi. Við á landsleik í handbolta í Höllinni. Við saman í Kaupmannahöfn að hitta Laugu systur þína og Mikael nokkrum mánuðum áður en þau féllu frá. Við með Hjördísi í Færeyjum, á landsleik í úrhellisrigningu. Við í Manchester með 470 manna leiguvél í fótbolta- og skemmtiferð; kvöldskemmtun í ferðinni með Bergþór Pálsson, Stebba Hilmars. og Eyfa Kristjáns. sem aðalnúmer. Við með Bryndísi dóttur minni í Hollandi í hennar fyrstu utanlandsferð með pabba sínum (og afa). Við í bíltúr að syngja saman falleg íslensk ættjarðarlög, perlur sem aldrei gleymast.
Þú að kenna mér 12 ára gömlum Gunnarshólma, sem þú hafðir sjálfur lært á sama aldri.
Þú að glíma í Hálogalandi. Keppnisandinn var mikill, en sannur íþróttaandi enn meiri. Bannað að hafa rangt við, svindl ekki til í orðabókinni. Heiðarleiki framar öllu, græðgi, okur og ósannindi meðal verstu lasta. Allar vísurnar sem þú kenndir mér; innihaldið til að læra af ... og það síaðist inn.
Við að horfa á Ragga Jóns., Geira snilling Hallsteinsson, Kristján Ara, handboltahetjurnar sem þú hélst svo mikið upp á. Við á tónleikum í Salnum í Kópavogi, þar sem Diddú og Bergþór Pálsson sungu lög eftir Fúsa og ítalskar aríur og tárin runnu niður kinnar okkar beggja. Ógleymanlegt og tilfinningaþrungið kvöld.
Ég gæti haldið endalaust áfram; myndirnar og minningabrotin eru óteljandi eins og stjörnurnar á himninum þar sem þú ert núna, elsku pabbi minn. Guð geymi þig og verndi.
Þinn Hörður
Dægurmál | Breytt 4.10.2009 kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2009 | 10:26
Hilmar Bjarnason - Minningarorð
Úr því að Morgunblaðið birti ekki í dag, 16. júní, minningargrein mína um föður minn, Hilmar Bjarnason, geri ég það hér.
Pabbi minn kvaddi þennan heim 9. júní kl. 12:12, kannski ekki saddur lífdaga en örugglega hvíldinni feginn. Brottför hans bar brátt að og því er sorgin sárari, höggið meira. En það var friðsæld og reisn yfir brottförinni eins og gamli glímumaðurinn hefði viljað. Sjálfur hefði ég viljað fá meiri tíma með pabba mínum; skreppa með honum upp á Skaga að sjá leik með ÍA, horfa á handbolta í sjónvarpinu, spila við hann rússa, vist með honum gegn systkinum mínum, spjalla við hann um lífið og tilveruna, hlæja með honum o.fl. En það er bara einn sem ræður tíma okkar hér á jörðu og honum fannst víst tími pabba kominn.Ótal endurminningar brjótast fram, misgömul myndaalbúm skoðuð og rifjaðar upp liðnar ánægju- og samverustundir. Margs er að minnast, ekki allt jákvætt og gott, en þeim mun betur kann maður að meta góð tímabil og ljúfar stundir. Víst hefði pabbi minn mátt eiga ánægjulegra og auðveldara ævikvöld en það er aldrei á allt kosið. Það skiptust á skin og skúrir í lífi pabba, eins og annarra mannanna barna, en það er ekkert auðveldara og sjálfsagðara nú á kveðjustund, en að muna bara gleði-stundirnar, húmorinn, hláturinn, hlýtt faðmlagið, brosið, keppnisskapið, söngröddina og allt annað sem gerði pabba minn að því sem hann var. Einstakur maður sem svo óhemju sárt er að kveðja. Engum manni hef ég unnað meira og enginn hefur gefið mér meira. Hann gaf mér meira að segja útlit sitt.Ég var oft spurður að því á yngri árum hvort ég væri ekki sonur hans Hilmars og ýmist bætt við sendibílstjóra eða glímumanns. Það vantaði ekkert upp á stoltið þegar ég samsinnti því. Áratugum síðar sagði pabbi mér að nú hefði þetta snúist við. Nú væri hann gjarnan spurður hvort hann væri ekki pabbi hans Harðar, fótboltamanns og Valsara. Og ég held að hann hafi bara verið nokkuð sáttur við það. Ef ég skrifa einhvern tíma bók, þá er allt eins líklegt að hún fjalli um föður minn, að nokkru eða öllu leyti. Þótt lífshlaup hans hafi ekki alltaf verið auðvelt, þá var það fjölbreytt og oftar en ekki skemmtilegt. Hann lifði lífinu lifandi, lengst af, gaf af sér og gladdi, en var ekki allra og vildi ekki vera það. Kostirnir voru miklir og gallarnir einnig. Heiðarlegri manni hef ég ekki kynnst og þeir mannkostir sem pabbi mat mest eru gömul og góð gildi sem eiga fullt erindi í samfélag okkar sem búum á Íslandi á þessum viðsjárverðu tímum.
Pabbi skilur eftir sig stóran hóp afkomenda, 8 börn, 29 barnabörn og 27 barnabarnabörn. Þetta var ríkidæmið hans og hann minntist oft á það hvað hann væri ríkur maður að eiga allan þennan skara. Við vorum og erum ekki síður rík að hafa átt Hilmar Bjarnason að föður, tengdaföður, afa og langafa. Þótt það sé þyngra en tárum taki að kveðja elskaðan föður, þá er mér þó fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir vegferðina, vináttuna, kærleikann og allt sem hann kenndi mér, meðvitað og ómeðvitað. Elsku hjartans pabbi minn: Ég er enn jafn stoltur af að vera sonur þinn eins og ég var sem lítill drengur á Óðinsgötunni. Ég elska þig, sakna þín og mun geyma þig í hjarta mínu þar til við sjáumst á ný í fyllingu tímans.
Guð veri með þér og okkur öllum.
Þinn elskandi sonur Hörður og fjölskylda (Ríta, Bryndís, Sara Mildred og Birna Ósk).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Íþróttir
- Víkingar náðu naumlega jafntefli
- Opnaði markareikninginn fyrir Íslendingafélagið
- Viktor talar og hlær í svefni
- Lítið sofinn en ekki illa sofinn
- Liverpool óstöðvandi í Meistaradeildinni
- Stórstjarna Frakka fór mikinn í öruggum sigri
- Valskonur fjarlægðust botnsvæðið
- Íslandsmeistararnir áfram á sigurbraut
- Annar sigur Þórsara gegn toppliðinu á fjórum dögum
- Lærisveinar Alfreðs áttu ekki roð í meistarana