18.1.2009 | 14:48
Er Barcelona besta félagslið í heimi?
Vaknaði snemma á sunnudagsmorgni og horfði á endursýningu frá leik Barcelona og Deportivo la Coruna frá kvöldinu áður. Sé ekki eftir því.
Barcelona sýndi bestu knattspyrnu sem ég hef séð á þessu keppnistímabili, einkum í fyrri hálfleik. 5-0 sigur var síst of stór; framherjarnir fótfráu og leiknu, Messi, Henry og Eto´o tættu vörn Deportivo í sig, vel studdir af leikstjórnanda Barcelona-liðsins, snillingnum Xavi. Annar frábær miðvallar-leikmaður, Iniesta, var varamaður sem segir sína sögu um styrk leikmannahópsins hjá Barca.
Það er í raun stórkostlegt afrek hjá Eiði Smára að vera í hópnum hjá Barcelona og leika jafn mikið og raun ber vitni.
Ég hef ýmist fylgt Barcelona og Real Madrid að málum í spænska boltanum. Studdi fyrst Barca, væntanlega vegna búningsins, borgarinnar og Katalóníu, en svo gerðist tvennt; Zidane hóf að leika með Real Madrid og síðar flutti elsta dóttir mín, Bryndís, til Madrid og gerðist eldheitur stuðnings-maður Real. Með franska snillinginn innanborðs var Real besta félagslið í heimi, en tímarnir breytast, í boltanum eins og öðru. Real er enn og verður stórveldi, var t.a.m. útnefnt "besta knattspyrnufélag 20. aldarinnar" af FIFA. En í vetur er það Barcelona sem er yfirburðalið í spænsku deildinni og eitt albesta félagslið Evrópu. Barca er eins og nýtt lið undir stjórn Pepe Guardiola, sem á fyrsta ári við stjórnvölinn hefur náð að endurvekja leikgleðina og samstöðuna meðal leikmanna félagsins. Getan var alltaf til staðar. Guardiola er klárlega þjálfari ársins í Evrópuboltanum.
Það yrði sigur fyrir knattspyrnuna ef Barcelona vinnur Meistaradeildina. Ég held að Barcelona sé um þessar mundir besta félagslið í heimi, en önnur félög eru reyndar einnig að gera fína hluti s.s. Man. Utd., Inter Milan o.fl.
Með knattspyrnukveðju
Hörður
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.