Þökkum fyrir stigin þrjú !

Við þökkum fyrir stigin þrjú, en fótboltinn er skrýtin íþrótt og úrslit ekki alltaf sanngjörn.
Í kvöld máttum við þakka fyrir að vinna Makedónana, sem áttu fjölda færa og voru í heildina betra liðið á vellinum. Í síðasta heimaleik gegn Skotum voru okkar menn betri aðilinn og verðskulduðu svo sannarlega að fá stig, eitt eða fleiri út úr leiknum. En svona er fótboltinn og oftast jafnast svona hlutir út yfir heila keppni eða mót og lið enda í því sæti sem þau eiga skilið.
Gunnleifur var góður í markinu, besti maður íslenska liðsins og aftasta vörnin var sterk en ég set þó spurningamerki við Indriða í vinstri bakvarðarstöðunni, bæði í kvöld og gegn Hollandi. Stefán Gísla komst vel frá sínu og eins Arnór eftir að hann kom inn á; mikið efni. Aðrir léku undir pari og eiga mikið inni. Það veit á gott að vinna leik án þess að spila vel og gott að enda haustleikjahrinuna með sigri. Skotland næst.

Til hamingju Óli Jóh., Pétur Péturs. og allir strákarnir!

Áfram ÍSLAND !

Hörður Hilmarsson


mbl.is Veigar tryggði 1:0 sigur á Makedónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Ég er alls ekki sammála þér um Indriða, Hörður. Mér fannst sökin vera hjá Hermanni, rétt eins og í leiknum hjá Hollendingum þar sem hann átti sök á báðum mörkunum (fyrst með því að spila leikmann Hollendinga réttstæðan og svo að fara út úr stöðu sinni við annað markið (sem ekki var rangstaða eins og margir héldu fram)).

Í leiknum núna átti Hermann nokkrar fáranlegar sendingar út úr vörninni sem sköpuðu stórhættu, auk þess sem hann var hvað eftir annað kominn út úr stöðu sinni (og átti auk þess í mestu erfiðleikum með að gæta besta manns Makedóníu, enda alltof seinn leikmaður til að leika í miðri vörninni). Þetta varð til þess að Indriði neyddist hvað eftir annað að fara inn á miðjuna til að hjálpa Hermanni. Við það þurfti Emil oft á tíðum að spila eins og vinstri bakvörður.

Þá var Aron alltof grófur í þessum leik (eins og oftast áður) og heppinn að fá ekki spjald miklu fyrr í leiknum, auk þess sem hann missti boltann klaufalega nokkrum sinnum.

Veigar var bestur í íslenska liðinu og fáránlegt að taka hann út af (Pálmi Rafn kom varla við boltann eftir að hann kom inn á). Veigar hélt boltanum mjög vel, miklu betur en Eiður, og hjálpaði liðinu þannig að færa sig framar þegar á því lá.

Svo var Theodór Elmar frískur þegar hann kom inn á. Birkir var allt í lagi og Grétar Rafn öflugur (Kristján frábær eins og venjulega) en miðjan var vandamál eins og svo oft áður. 

Ég skil ekki af hverju Helgi Valur Daníelsson er ekki í liðinu í stað stráks eins og Arons. Helgi er í toppliði í Svíþjóð (Elfsborg) og leikur alla leiki þegar hann er heill - og við hliðina á ekki lakari leikmanni en Anders Svensson. 

Nei, það þarf reynslubolta í svona leiki en ekki einhverja stráklinga sem grípa til þess ráðs að brjóta á mönnum þegar á móti blæs.

Leikurinn var arfaslakur hjá íslenska liðinu og það stálheppið að vinna hann. Þjálfararnir fá falleinkun hjá mér fyrir stjórnun sína á því.  

Annars er gaman að fá gamlan og góðan Valsara til að rýna í leiki, þótt sjónin sé orðin léleg!

Torfi Kristján Stefánsson, 15.10.2008 kl. 23:14

2 Smámynd: Hörður Hilmarsson

Takk fyrir athugasemdirnar Torfi. Menn líta misjöfnum augum á boltann og það er bara í fínu lagi. Sjón mín er ágæt, ég hef að vísu verið nærsýnn ansi lengi, en bara með -1 og gleraugu redda því alveg. Þetta er frekar spurning um skilning og skoðanir heldur en sjón og ég er sáttur við minn skilning á fótbolta, a.m.k. á meðan hann fer saman við skilning og skoðanir þeirra manna sem ég tek mark á í boltanum. 
En aðrir hafa að sjálfsögðu fullan rétt á sínum skoðunum sem og að tjá þær.

Með fótboltakveðju

Hörður

Hörður Hilmarsson, 16.10.2008 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 39970

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband