Rangfærslur leiðréttar !

Til upplýsinga, að gefnu tilefni:
Það hvað Landsbankinn með stuðningi ríkisins kaus að endurgreiða innistæðueigendum í peningabréfum bankans er hér til umræðu. Fólk geymdi sparnað sinn á þessum reikningum, oftast skv. ráðleggingum starfsmanna bankans og átti að sjálfsögðu að fá eign sína 100 % til baka, eins og aðrir innistæðueigendur enda var því sagt að þessir reikningar væru án áhættu. Og  það sem meira er, innistæður á hefðbundnari bankareikningum voru ekki tryggðar nema sem svaraði 20.000 EUR, þ.e. fram að setningu neyðarlaganna sem mismunuðu innistæðueigendum. Hvað átti fólk að gera sem átti meira?

Peningabréfin voru ekkert annað en ICESAVE á Íslandi. Nákvæmlega sama dæmið, stofnað til af sömu ástæðu (fjárþörf Landsbankans) og síðan sukkað með, án þess að FME, ríkisstjórn og Alþingi tækju í taumana til verndar íslenskum almenningi sem grunlaus treysti bankanum sínum og geymdi ævisparnaðinn á þessum reikningum. Það er rangt að stilla þeim Íslendingum sem áttu sparnað upp sem fjármagnseigendum og öðrum Íslendingum sem almenningi. Það var íslenskur almenningur, ekki síst eldra fólk sem tapaði sparnaði sínum í peningabréfum Landsbankans. Þið eigið að skammast ykkar sem haldið öðru fram og hafið ekki samúð með fólki sem sýndi ráðdeildarsemi og ástundaði sparnað í áratugi. Það eina sem þetta fólk gerði rangt var að treysta bankanum sínum og orðum starfsmanna hans. Á bara að hjálpa þeim sem skulda, ekki þeim sem spara? Hvaða réttlæti er í því?

Það er verið að hjálpa fólki sem tók lán sem hafa hækkað vegna hruns ISK. Það er gott og blessað, en í þeim hópi er fólk sem missti sig í eyðslu í hinu svo kallaða góðæri, keypti betri bíla en það átti fyrir, stærri húseign en það í raun þurfti og hafði efni á. Á sama tíma er ekkert gert fyrir hinn þögla meirihluta, sem minnkaði við sig húsnæði og/eða færði ævisparnaðinn eftir 30-40 ára strit í peningabréf Landbankans.

Perningabréf Landbankans voru ekki kynnt sem hlutabréf eða fjárfesting, heldur sem fjárvarsla, ein tegund sparnaðar. Fólk sem keypti hlutabréf í fyrirtækjum, þar með talið bönkunum, veit að hlutabréf eru áhættusöm fjárfesting. Almenningur sem geymdi sparifé sitt á peningabréfareikningum a.m.k. Landsbankans vissi ekki annað en að sparnaður þess væri 100 % tryggur á þessum reikningum.
Á að refsa fólki fyrir að ástunda sparnað og eiga e-ð sparifé inni á bankareikningum?


mbl.is Of hátt mat á virði bréfa í peningamarkaðssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti íþróttamaður heims ?

Er Usain Bolt, gazellan frá Jamaica, besti íþróttamaður heimsins í dag?
Það er auðvitað erfitt að bera saman íþróttamenn í ólíkum íþróttagreinum, en sem íþróttaáhugamaður í 50 ár finnst mér þessi ótrúlegi spretthlaupari vera á hraðri leið í hóp með Pelé, Michael Jordan, Tiger Woods og Muhammed Ali sem eru að mínu mati mestu íþróttamenn allra tíma.
Það er ótrúlegt að fylgjast með Bolt á hlaupabrautinni. Hann hefur nánast fullkominn hlaupastíl og maður hefur á tilfinningunni að hann geti ekki tapað, hvort heldur í 100 m eða 200 m hlaupi. Og hann virðist hafa þá trú sjálfur; geislar af sjálfstrausti og er nánast í eigin heimi þegar hann dansar og fíflast síðustu mínúturnar fyrir hlaup. Nú heyrist að Bolt finnist hann ekki fá nægilega keppni í hlaupunum og hann ætli að fara að leggja áherslu á langstökk. Það verður spennandi að fylgjast með því sem og framþróun þessa frábæra íþróttamanns á næstu árum. 
Með íþróttakveðju


Orð í belg

Góðan daginn,
Ég hef fylgst með umræðunni og því sem skrifað hefur verið um Ice-Save, ESB og önnur aðkallandi mál sem liggja þungt á þjóð okkar um þessar mundir.

Varðandi Ice-Save þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé þeirra sem stofna til skulda, með einum eða öðrum hætti, að greiða þær. Ekki annarra sem eru svo heppnir eða óheppnir að vera af sama þjóðerni og það fólk sem stofnaði til skuldanna. Ekki hefði íslenskur almenningur fengið hagnaðinn ef betur hefði tekist til með Ice-Save og verkefnið skilað arði. Eigendur Landsbankans og yfirmenn hefðu gert það sama og þeir gerðu þrátt fyrir slæma stöðu bankans, þ.e. að hirða til sín og félaga í eigin eigu allt það lausafé sem þeir komust yfir. Þegar menn greiða sjálfum sér ótrúlegar upphæðir í arð og bónusa ofan á ofurlaun þegar fyrirtæki er á hraðri leið á hausinn, hvaða gera slíkir menn ekki þegar vel gengur í rekstri fyrirtækja?
Ekki minnkar siðleysið þá.
Sjá á www.altice.blog.is hvers vegna þjóðinni ber ekki að greiða Ice-Save samninginn skv. lögum og tilskipunum Evrópusambandsins sjálfs.

Innganga í ESB heillar mig ekki. Ég óttast svona bákn og held að við myndum missa mikið af því sjálfstæði sem okkur er kært. Sjálfstæði sem ásamt tungumálinu og sögu lands og þjóðar gerir okkur að því sem við erum í dag.

Gjaldeyrismál: Íslenska króna (ISK) er ónýtur gjaldmiðill og verður aldrei aftur brúkleg í þeim viðskiptum sem við þurfum að eiga við önnur lönd. Það má skipta um gjaldmiðil án þess að ganga í ESB. Flestir tala um evru (EUR), en það á ekki að útiloka aðrar lausnir s.s. USD eða NOK.

En það er ekki hægt að hanga inni við bloggskrif þegar veðrið er eins dásamlegt og í dag. Fleiri hugleiðingar og fleiri orð í belginn verða að bíða, kannski ekki betri tíma, en klárlega annars tíma.

Eigið ánægjulega verslunarmannahelgi !


Góð helgi !

Þetta er búið að vera ánægjuleg og gefandi fjölskylduhelgi.
Yngsta dóttirin, Birna Ósk, varð 15 ára á föstudaginn og af því tilefni fórum við fjölskyldan í bæinn.
Það var reyndar ekki auðvelt að fá borð fyrir 5 á þeim stöðum sem hugur afmælisbarnsins stóð til, en eftir um 2 klst. fengum við borð á Basil & Lime við Klapparstíg. Það er huggulegur staður og við fengum þar mjög góðan mat og góða þjónustu. Mæli með þessum veitingastað.
Í gær, laugardag, fórum við hjónin með 18 1/2 árs yngismeyna Söru Mildred í bæinn. Bílnum var lagt við Snorrabraut og við röltum Laugaveginn, Bankastrætið, niður á Austurvöll og til baka, með viðkomu í nokkrum verslunum (mæðgurnar, ég sat fyrir utan), á Vegamótum í sólbað og snarl o.fl. Þetta var 4-5 tíma pakki í góðu veðri að viðstöddu fjölmenni.
Grillaði svo gott svínakjöt í gærkvöldi og ítalskt rauðvínið rann ljúflega niður.
Bíltúr í dag, væntanlega í Hestvík við Þingvallavatn, að athuga hvort góðir vinir, Atli Már og Andrea, séu í bústað sínum.

Svona eiga helgar að vera !


Úr minningabankanum: Með pabba

Við saman á fótboltaleik á Akranesi. Við á landsleik í handbolta í Höllinni. Við saman í Kaupmannahöfn að hitta Laugu systur þína og Mikael nokkrum mánuðum áður en þau féllu frá. Við með Hjördísi í Færeyjum, á landsleik í úrhellisrigningu. Við í Manchester með 470 manna leiguvél í fótbolta- og skemmtiferð; kvöldskemmtun í ferðinni með Bergþór Pálsson, Stebba Hilmars. og Eyfa Kristjáns. sem aðalnúmer. Við með Bryndísi dóttur minni í Hollandi í hennar fyrstu utanlandsferð með pabba sínum (og afa). Við í bíltúr að syngja saman falleg íslensk ættjarðarlög, perlur sem aldrei gleymast.
Þú að kenna mér 12 ára gömlum Gunnarshólma, sem þú hafðir sjálfur lært á sama aldri.

Þú að glíma í Hálogalandi. Keppnisandinn var mikill, en sannur íþróttaandi enn meiri. Bannað að hafa rangt við, svindl ekki til í orðabókinni. Heiðarleiki framar öllu, græðgi, okur og ósannindi meðal verstu lasta. Allar vísurnar sem þú kenndir mér; innihaldið til að læra af ... og það síaðist inn.

Við að horfa á Ragga Jóns., Geira “snilling” Hallsteinsson, Kristján Ara, handboltahetjurnar sem þú hélst svo mikið upp á. Við á tónleikum í Salnum í Kópavogi, þar sem Diddú og Bergþór Pálsson sungu lög eftir “Fúsa” og ítalskar aríur og tárin runnu niður kinnar okkar beggja. Ógleymanlegt og tilfinningaþrungið kvöld.

Ég gæti haldið endalaust áfram; myndirnar og minningabrotin eru óteljandi eins og stjörnurnar á himninum þar sem þú ert núna, elsku pabbi minn. Guð geymi þig og verndi.

Þinn Hörður


Hilmar Bjarnason - Minningarorð

Úr því að Morgunblaðið birti ekki í dag, 16. júní, minningargrein mína um föður minn, Hilmar Bjarnason, geri ég það hér.

Pabbi minn kvaddi þennan heim 9. júní kl. 12:12, kannski ekki saddur lífdaga en örugglega hvíldinni feginn. Brottför hans bar brátt að og því er sorgin sárari, höggið meira. En það var friðsæld og reisn yfir brottförinni eins og gamli glímumaðurinn hefði viljað. Sjálfur hefði ég viljað fá meiri tíma með pabba mínum; skreppa með honum upp á Skaga að sjá leik með ÍA, horfa á handbolta í sjónvarpinu, spila við hann rússa, vist með honum gegn systkinum mínum, spjalla við hann um lífið og tilveruna, hlæja með honum o.fl. En það er bara einn sem ræður tíma okkar hér á jörðu og honum fannst víst tími pabba kominn.
Ótal endurminningar brjótast fram, misgömul myndaalbúm skoðuð og rifjaðar upp liðnar ánægju- og samverustundir. Margs er að minnast, ekki allt jákvætt og gott, en þeim mun betur kann maður að meta góð tímabil og ljúfar stundir. Víst hefði pabbi minn mátt eiga ánægjulegra og auðveldara ævikvöld en það er aldrei á allt kosið. Það skiptust á skin og skúrir í lífi pabba, eins og annarra mannanna barna, en það er ekkert auðveldara og sjálfsagðara nú á kveðjustund, en að muna bara gleði-stundirnar, húmorinn, hláturinn, hlýtt faðmlagið, brosið, keppnisskapið, söngröddina og allt annað sem gerði pabba minn að því sem hann var. Einstakur maður sem svo óhemju sárt er að kveðja. Engum manni hef ég unnað meira og enginn hefur gefið mér meira. Hann gaf mér meira að segja útlit sitt.Ég var oft spurður að því á yngri árum hvort ég væri ekki “sonur hans Hilmars” og ýmist bætt við sendibílstjóra eða glímumanns. Það vantaði ekkert upp á stoltið þegar ég samsinnti því. Áratugum síðar sagði pabbi mér að nú hefði þetta snúist við. Nú væri hann gjarnan spurður hvort hann væri ekki pabbi hans Harðar, fótboltamanns og Valsara. Og ég held að hann hafi bara verið nokkuð sáttur við það. Ef ég skrifa einhvern tíma bók, þá er allt eins líklegt að hún fjalli um föður minn, að nokkru eða öllu leyti. Þótt lífshlaup hans hafi ekki alltaf verið auðvelt, þá var það fjölbreytt og oftar en ekki skemmtilegt. Hann lifði lífinu lifandi, lengst af, gaf af sér og gladdi, en var ekki allra og vildi ekki vera það. Kostirnir voru miklir og gallarnir einnig. Heiðarlegri manni hef ég ekki kynnst og þeir mannkostir sem pabbi mat mest eru gömul og góð gildi sem eiga fullt erindi í samfélag okkar sem búum á Íslandi á þessum viðsjárverðu tímum.
Pabbi skilur eftir sig stóran hóp afkomenda, 8 börn, 29 barnabörn og 27 barnabarnabörn. Þetta var ríkidæmið hans og hann minntist oft á það hvað hann væri ríkur maður að eiga allan þennan skara. Við vorum og erum ekki síður rík að hafa átt Hilmar Bjarnason að föður, tengdaföður, afa og langafa. Þótt það sé þyngra en tárum taki að kveðja elskaðan föður, þá er mér þó fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir vegferðina, vináttuna, kærleikann og allt sem hann kenndi mér, meðvitað og ómeðvitað.
                 Elsku hjartans pabbi minn: Ég er enn jafn stoltur af að vera sonur þinn eins og ég var sem lítill drengur á Óðinsgötunni.  Ég elska þig, sakna þín og mun geyma þig í hjarta mínu þar til við sjáumst á ný í fyllingu tímans.
Guð veri með þér og okkur öllum.

Þinn elskandi sonur Hörður og fjölskylda (Ríta, Bryndís, Sara Mildred og Birna Ósk).


Í minningu vinar

Síðast liðinn föstudag var til moldar borinn góður maður, Gísli Bjarnason, kennari og skólastjóri á Akureyri. Gísli reyndist mér afar vel þegar ég tvítugur að aldri hóf kennslu við Barnaskóla Akureyrar. Hann var minn "mentor", kenndi mér ýmis góð ráð sem nýttust vel við kennsluna; ráð sem ekki var að finna í kennslubókum, en sem flest miðuðu að því að ná aga innan skólastofunnar, til að auðvelda það starf sem þar fór fram, fræðsluna og uppeldið. 
Það spillti ekki fyrir vináttu okkar Gísla að hann var gamall handboltamaður og mikill KA-maður, meiri en flestir sem ég kynntist fyrir norðan. Þá fannst mér ég sjá töluverðan svip með Gísla og föður mínum, bæði í líkamsburðum og einnig í ýmsum karaktereinkennum. Þeir voru og jafnaldrar og varð reyndar stutt á milli þeirra, því faðir minn lést s.l. þriðjudag, 9. júní.
Því miður varð vík milli vina eftir að samstarfi okkar Gísla lauk, en ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir leiðsögnina og vináttuna.
Blessuð sé minning Gísla Bjarnasonar.

50 ára afmæli - Takk kærlega fyrir mig !

Nú í vor eru 50 ár síðan 6 ára snáði af Óðinsgötunni rölti inn að Hlíðarenda og skráði sig í Val. Síðan hafa íþróttir og Valur verið stór hluti af lífi mínu og er ég afar þakklátur forsjóninni fyrir að hafa leitt mig inn á þá braut. Íþróttirnar hafa gefið mér mikið, en upp úr stendur félagsskapurinn, bæði innan Vals og eins við gott fólk úr öðrum íþróttafélögum. Það eru forréttindi að fá að lifa og starfa innan íslenskrar íþróttahreyfingar og vera partur af henni, eins og ég hef verið sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, starfsmaður, framkvæmdastjóri og stuðningsmaður. Gildir þá einu hvort félagið sem maður leikur með, starfar fyrir eða styður heitir Valur, UMF Reykjavíkur, KR, KA, Stjarnan, AIK, Grindavík, FH, UMF Selfoss, Breiðablik eða annað. Þetta eru félögin sem ég hef keppt eða starfað fyrir. Aðrir hafa aðra sögu að segja. Það skiptir ekki máli hvaða íþróttafélag menn styðja; það er fleira sem sameinar íþróttamenn og íþróttaáhugamenn heldur en það sem skilur þá að. 
Ég á íslensku íþróttasamfélagi mikið að þakka og geri það hér með. Takk kærlega fyrir mig !

Með íþróttakveðju um hvítasunnu 2009

HH


Staðreyndum hagrætt

Ég hef verið í bloggfríi, en þeim mun aktívari á Facebook. Magnað fyrirbæri og með fleiri fleti og möguleika en flestir gera sér grein fyrir.

En nú get ég ekki orða bundist, eftir að hafa lesið ummæli höfð eftir Tryggva Þór Herbertssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Mbl. í gær og heyrt Björn Þorra Viktorsson lögmann viðhafa svipaðar skoðanir. Tryggvi Þór segir að það sé "búið að tryggja sparifjáreigendur, að þeir muni ekki tapa innistæðum". Það er rangt. Þúsundir Íslendinga töpuðu 30-40% sparifjár síns í peningabréfareikningum stóru bankanna. Tryggvi segir einnig "þá var komið til móts við þá sem áttu í peningamarkaðssjóðum". Það má vel vera, en það er ekki aðalatriðið hvort bankarnir hafi sett fjármuni sem þeir fengu frá ríkinu inn í peningamarkaðssjóði sína. Aðal atriðið í að minnsta kosti tilfelli Landsbankans er að bankinn beitti ósannindum til að fá fólk til að flytja og setja sparifé sitt inn á peningabréfareikninga og sólundaði síðan þeim fjármunum sem inn á þessa reikninga söfnuðust, í eigin þágu og illa staddra fyrirtækja stærstu eigenda bankans. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og þáverandi ríkisstjórn bera ábyrgð á því að þetta var liðið og látið óátalið.
Og til að bæta gráu ofan á svart, þá er fólk sem nýbúið er að ræna 1/3 hluta sparnaðar af nánast þjófkennt og stimplað sem fjármagnseigendur og fjárfestar. Hvílík öfugmæli, rangtúlkanir og óréttlæti.
Þegar stolið er af manni einni milljón króna sem hann geymir í banka, þá er hann ekki sáttur þótt þjófarnir skili 688 þúsundum. Hann vill fá 312 þúsundin sem upp á vantar. Og ef um hærri upphæð er að ræða, t.d. 10 milljónir sem tekist hefur að nurla saman á langri starfsævi, þá vill maður fá alla upphæðina til baka, ekki bara 6.8 milljónir. Flest venjulegt fólk munar um þrjár milljónir.
Að bera þetta mál saman við skuldir fólks sem til er stofnað af ýmsu tilefni er gersamlega út í hött.

Hún hefur ekki náð athygli fjölmiðla sú staðreynd að NBI, nýi Landsbankinn, hefur þverskallast við að veita umbeðnar upplýsingar til lögmanna fólks sem tapaði sparifé í peningamarkaðssjóði Landsbankans. Hvers vegna skyldi það vera? Er ekki ástæðan einfaldlega sú að menn vita upp á bankann skömmina? Að bankinn vélaði fólk til að færa sparifé sitt yfir í peningabréf, sagði ósatt um það sparnaðarform og sukkaði svo með peningana? Úr því að bankinn vill ekki veita upplýsingar um málið, þá á dómsvaldið einfaldlega að gera ráð fyrir að stefnendur hafi rétt fyrir sér og færa sönnunarbyrðina yfir á Landsbankann, þ.e. að bankinn verði að afsanna að hann hafi staðið rangt (ósiðlega/ólöglega) að málum við kynningu og markaðssetningu peningabréfreikninganna og síðar meðferð fjármuna sem saman söfnuðust.

Helgarkveðja


Kosningar hvað?

Í hönd fara skrýtnustu kosningar sem ég man eftir. Hef engan áhuga á þeim og er slétt sama hvaða lið myndar ríkisstjórn að kosningum loknum. Þetta er kannski ekki allt sama tóbakið, en ýmist spillt og samsekt eða óhæft til að taka á málum.

Það gerist ekkert af viti fyrr en raunverulegu lýðræði verður komið á ... þar sem kjósendur geta kosið þvert á flokka það fólk sem því líst best á og treystir best til að stjórna landinu. Þetta á að vera spurning um fólk, en ekki flokka.

Öðrum valkosti hef ég hampað í gamni og þó nokkurri alvöru en það er Menntað einveldi !
Það getur ekki verið verra en þær ríkisstjórnir sem við höfum haft síðustu árin!

Gleðilegt sumar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 39943

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband