GLEÐILEGT SUMAR !

Ég óska öllum bloggvinum og öðrum bloggurum gleðilegs sumars.
Vona að hreti vetrarins fari að ljúka og við taki betri tíð með blóm í haga og sól í sinni.
Sumarkveðja
HH


Það að skila auðu er afstaða!

Ég skil þá vel sem hyggjast skila auðu í Alþingiskosningunum á laugardaginn.
Ábyrgð á bankahruninu er ekki bara bankastjórnenda og -eigenda, Seðlabankans og FME, heldur bera stjórnvöld síðustu ára og alþingismenn einnig mikla ábyrgð, hvort sem þessir aðilar viðurkenna það eða ekki.

Það að skila auðu í kosningunum met ég sem óánægju með þá valkosti sem eru í boði, bæði gömlu flokkana og nýju framboðin. Ef kjósanda hugnast enginn þeirra flokka og hreyfinga sem í framboði eru, af hverju á hann þá að kjósa þann sem honum finnst minnst slæmur?
Nei, autt atkvæði er afstaða og því miður vel skiljanleg í ljósi atburða s.l. ára og heldur dapurra, nýrra valkosta.


mbl.is Fleiri munu skila auðu og strika yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærir tónleikar Stefáns Hilmarssonar

Ég fór á föstudagskvöldið á tónleika Stefáns Hilmarssonar, bæjarlistamanns Kópavogs, sem haldnir voru í Salnum. Stefán kom fram með mjög þéttu "bandi", auk þess sem Eyvi Kristjáns. leit inn og söng Nínu með bæjarlistamanninum og 16 ára sonur Stefáns lék á trommur í nokkrum lögum.

Þetta voru fínir tónleikar fyrir troðfullu húsi; söngvarinn í fínu formi og sagði sögur af tilurð laganna og öðru skemmtilegu inn á milli. Þótt Stebbi Hilmars. hafi um langt skeið verið afar vinsæll er ég ekki viss um að hann hafi alltaf notið sannmælis sem listamaður. Rödd hans hefur bara batnað með árunum og túlkun hans og tækni er í sérflokki. Þá hefur Stefán komið að samningu fjölmargra virkilega góðra laga, oftast með fallegum textum.

Tónleikarnir verða endurteknir enda varð uppselt nánast áður en farið var að auglýsa þá.
Hef ég heyrt að Stefán endurtaki leikinn 15. maí n.k. og hvet ég unnendur góðrar tónlistar til að missa ekki af frábærum tónleikum eins allra besta söngvara Íslands síðustu 20 árin.

Sunnudagskveðja


Gleðilega páska !

Það er einlæg ósk mín að allir eigi friðsæla páskahátíð og hugleiði þann boðskap sem tengist þessari stórhátíð sem víða er jafnvel stærri í hugum fólks en sjálf jólin.
Friður, fegurð og fögnuður ríki meðal allra manna í dag.
Gleðilega páska !


Mikið var !!!

Það var mikið að það kom fram á sjónarsviðið maður sem veit hvað varð Íslandi að falli og hvað gera á í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum nú í. Michael Hudson, bandarískur maður, skrifar magnaða grein í helgarblað Fréttablaðsins (bls. 22). Hinn sami Michael var gestur í Silfri Egils í dag. Ég hvet alla til að lesa greinina og horfa á endursýningu á Silfrinu í kvöld. Kjarninn í máli Michael er að við Íslendingar getum ekki og eigum ekki að borga skuldir þær sem nokkur tugur einstaklinga komu sér og sínum fyrirtækjum í. Ég er svo hjartanlega sammála. Ég vil ekki borga skuldir annarra!
Þetta er að mínu mati stærsta málið sem við er að glíma í dag og á að vera mál númer eitt á málefnaskrá allra stjórnmálahreyfinga fyrir kosningarnar eftir þrjár vikur.
HVAÐ ÆTLA FLOKKARNIR AÐ GERA? Borga skuldir óreiðumannanna og með því rýra lífskjör okkar Íslendinga næstu ár og áratugi eða gera það eina rétta í stöðunni; semja um niðurfellingu skulda?
 


Tekur vitleysan engan enda?

Einmitt. Það er saknæmt að segja frá sukkinu og spillingunni sem átti sér stað í íslenskum fjármálastofnunum (bönkum), en það er í lagi að stela frá lífeyrissjóðum, innistæðueigendum o.s.frv.
Ætlar vitleysan engan endi að taka?


mbl.is Brutu þau bankaleynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Diplómat með stálhnefa í flauelshönskum"

Það er alltaf fréttnæmt þegar skipt er um formann í stærstu stjórnmálahreyfingum landsins og svo er einnig nú. En burtséð frá pólitískum skoðunum fólks þá er ljóst að þjóðin kallar eftir sterkum leiðtoga, nú sem aldrei fyrr. Las nýlega í blaði að nú þyrfti þjóðin "diplómat með stálhnefa í flauelshönskum", held að þetta sé rétt haft eftir. Mér finnst þetta góð lýsing á þeim eiginleikum sem leiðtogi lands og þjóðar þarf að hafa.

Burtséð frá tregðu manna í áhrifastöðum, í ríkisstjórn, á Alþingi, í Seðlabanka, í FME, í stóru bönkunum og sumum öðrum útrásarfyritækjum til að viðurkenna mistök og axla ábyrgð, þá er ljóst að mikil mistök voru gerð í aðdraganda bankahrunsins og sömuleiðis eftir að bankarnir féllu.

Nýir forystumenn helstu stjórnmálaflokka verða að stíga fram af hreinskilni og heiðarleika, viðurkenna mistök, axla ábyrgð og leggja fram skýrar línur um hvað menn hafa lært á sukki og siðspillingu síðustu ára og hvernig menn ætla að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig, í náinni framtíð þegar við höfum unnið okkur upp aftur, því það munum við gera. Það er ekki annað í boði.


mbl.is Nýr formaður kosinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgarpistill

Laugardagurin var í rólegri kantinum á þessum bænum. Lofa meiri "action" um næstu helgi.
Sæmi frændi Sigurðsson var með magnaða myndasýningu frá ævintýraferð sinni til Aconcagua, hæsta fjalls Suður-Ameríku. Við hjá ÍT ferðum verðum með ferð þangað í desember. Kynntum í leiðinni aðrar gönguferðir sem við bjóðum upp á í ár og næsta ár.
Það er bara eitt sæti laust í nýja ferð til Póllands í júní, en laus pláss í fyrirhugaðar gönguferðir um Króatíu og Svartfjallaland. Síðan er ný ferð á dagskránni til Perú 2010, auk þess sem við munum aftur bjóða upp á með ævintýralegar ferðir til Grand Canyon og Kilimanjaro.
Hjördís systir á allan heiður af þessum göngu- og ævintýraferðum ÍT ferða. Hún setur þær upp og fer oftast sem fararstjóri í fyrstu ferð á hvern stað. Mögnuð kona Hjördís og mikils metin á meðal íslenskra göngugarpa.

Annars leið laugardagurinn að mestu við sjónvarpsgláp og tölvuskrif. Það hefur fjölgað umtalsvert í vinahópnum á fésbókinni og gaman að ná aftur sambandi við "gamla" vini og kunningja, skólafélaga, vinnufélaga, meðspilara og fólk almennt. Það er gott og gefandi að vera í sambandi, þó ekki sé nema tölvusambandi, við gott fólk. 

Fylgdist með fréttum af landsfundum Sjálfsflokksins og Samstæðisfylkingarinnar (!). Kom á óvart öruggur sigur Dags Eggerts. á Árna Árna í varaformannsslag Samfó. Átti von á minni mun.
Davíð Odds. stal enn og aftur senunni hjá Flokknum (með stóru effi). Held að hefði hann sleppt árásinni á "endurreisnarnefndina"og Villa Egils, þá hefðu flestir verið sáttir, en hann bar ekki gæfu til þess. Davíð getur aldrei opnað munninn án þess að hnýta í eitthvað eða einhvern og sést þá ekki alltaf fyrir. Og reyndar tókst honum að móðga Alzheimer sjúklinga og aðstandendur þeirra, nýja norska Seðlabankastjórann, Jóhönnu Sigurðardóttur og norska forsætisráðherrann í leiðinni. Geri aðrir betur .... eða verr.

Í dag er fermingarveisla aðal málið á dagskránni og reyndar önnur um næstu helgi. Þetta fylgir stórum fjölskyldum.

Með sunnudagskveðju


Kraftur í ferðaþjónustunni

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem staðið hefur í allan dag kom skýrt fram að það er mikill kraftur í þeim fyrirtækjum og frumkvöðlum sem í atvinnugreininni eru. Það er vonandi að fólk almennt átti sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir samfélagið. Ferðaþjónustan er ekki bara meðal þeirra 3ja atvinnugreina sem skapa mestan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Greinin skapar fjölda starfa úti um allt land og síðast en ekki síst skapar engin atvinnugrein jafn mörg "afleidd" störf, þ.e. störf í öðrum atvinnugreinum en einmitt ferðaþjónustan.


mbl.is Miklar vonir bundnar við ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegur kennari fallinn frá

Einn besti og eftirminnilegasti kennari sem ég hafði á minni skólagöngu var borinn til grafar í dag. Indriði Gíslason kenndi íslensku við Kennaraskólann á námsárum mínum við þann ágæta skóla 1968-72. Indriði var mjög eftirminnilegur maður og frábær kennari. Hann jók áhuga nemenda sinna á íslensku máli og Íslendingasögunum. Það var skemmtun að sækja tíma hjá honum, ekki síst í Njálu sem hann gæddi lífi og kryddaði á ógleymanlegan hátt.
Blessuð sé minning Indriða Gíslasonar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hörður Hilmarsson
Hörður Hilmarsson
Framkvæmdastjóri ÍT ferða, fyrrum kennari, íþróttamaður og þjálfari
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband