13.12.2008 | 17:29
Viðskiptavinir Landsbanka
Það er skrýtið að heyra allt í einu um og frá Landsvaka.
Ég fullyrði að langflestir sem lögðu sparifé sitt í peningabréf Landsbankans, oft að frumkvæði starfsmanna bankans, hafi talið og telji sig enn hafa verið viðskiptavini Landsbankans. Þessu fólki kemur Landsvaki í raun ekkert við. Landsvaki er innanhúsmál Landsbankans.
Þegar ég leitaði ráðgjafar um fjárvörslu, geymslu varasjóðs fyrirtækis míns, sendu starfsmenn Landsbanka mér upplýsingar um tvo reikninga sem þeir mæltu með, þ.e. vaxtareikning og peningabréf. Það var ekkert minnst á að annar reikningurinn væri undir umsjón Landsvaka og því var eðlilegt að álíta að um tvær sparnaðarleiðir Landsbankans væri að ræða.
Starfsmaður hjá mér hafði fengið sams konar upplýsingar þegar starfsmaður Landsbankans hringdi í hann og sendi síðan upplýsingar um reikninga sem hann mælti með, í stað þeirrar sparnaðarleiðar sem starfsmaður minn var með. Peningabréf eru þar kölluð "langvinsælasti svona sparireikningur bankans". Á grundvelli þessara upplýsinga lét ég millifæra varasjóð fyrirtækis míns og sparnað fjölskyldunnar á peningabréfareikning Landsbankans. Ég heyrði fyrst um Landsvaka eftir hrun Landsbankans og ég veit að svo er um flesta inneignarhafa í peningabréfareikning Landsbankans.
Það er hróplegt óréttlæti að inneign á peningabréfareikningum sé ekki tryggð 100 % á sama hátt og annar sparnaður landsmanna, því upplýsingar starfsmanna Landsbankans og skilningur fólks fór saman að því leyti að um örugga og góða ávöxtunar- og sparnaðarleið væri að ræða.
Hafi Landsbankinn farið illa með það fé sem hann hafði í fjárvörslu, ber hann og eigendur hans, bæði fyrrverandi og núverandi, ábyrgð á því, ekki það fólk og fyrirtæki sem skv. ráðgjöf starfsmanna Landsbankans valdi reikning sem hét peningabréf, í stað reiknings sem kallaðist vaxtareikningur eða sparisjóðsbók eða e-ð annað til að geyma sparnað sinn í.
Stjórnvöld hafa enn tækifæri til að leiðrétta hróplegt óréttlæti áður en yfir þau skellur holskefla lögsókna og annarra aðgerða sem verða tímafrekar og kostnaðarsamar fyrir alla aðila.
Kveðja
Hörður Hilmarsson
Yfirlýsing vegna peningabréfasjóðs Landsvaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.12.2008 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2008 | 01:49
Hvíl í friði, minn kæri
Fylgdi Rúna Júl. vini mínum í dag. Athöfnin var afar falleg, tónlist í fyrirrúmi og allir flytjendur eiga mikið hrós skilið, ekki síst synir Rúnars, Baldur Þórir og Júlíus Freyr, við afar erfiðar aðstæður.
Prestinum, séra Skúli S. Ólafssyni, mæltist mjög vel enda annað varla hægt, því efnið var einstakt.
Ég þekkti Rúnar í áratugi og fannst mikið til hans koma, sem tónlistarmanns og ekki síður sem manneskju. Vona að mér hafi tekist að sýna honum á meðan hann lifði, hve mér þótti vænt um hann. Í endurminningunni stendur upp úr þegar hann kom óvænt í brúðkaupsveislu okkar Ritu fyrir 15 árum, tók "Þú ein" eins og enginn annar gat eða getur og síðan fékk brúðguminn að kyrja eitt lag með kappanum.
Mikill mannvinur er genginn og söknuðurinn er sár, missirinn mikill. Mestur er missirinn hjá fjölskyldu Rúnars, sem hann bókstaflega lifði fyrir, Maríu, Baldri, Júlíusi, tengdadætrum og barnabörnunum.
Þau og aðrir ættingjar og vinir Rúnars eiga samúð mína alla. Það er vonandi einhver huggun harmi gegn að finna allan þann kærleika og virðingu sem Rúnari og þeim er sýnd þessa döpru daga í desember.
Með vinsemd og innlegum jólakveðjum
Hörður Hilmarsson og fjölskylda
Fjölmenni við útför Rúnars Júlíussonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 14.12.2008 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 14:33
Hvíl í friði
Rúni Júl. var stór maður með mikla sál og sérstakt tungutak. Einstakt eðalmenni. Hans verður sárt saknað og hans skarð aldrei fyllt.
Kæra María: Innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldunnar allrar. Guð blessi ykkur!
Háa skilur hnetti,
himingeimur
blað skilur bakka og egg,
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið
(Jónas Hallgrímsson)
Með virðingu
Hörður Hilmarsson
Rúnar Júlíusson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 7.12.2008 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 00:28
Mikill misskilningur í gangi !
Af þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við þessa frétt er ljóst að það er mikill misskilningur í gangi varðandi peningabréfin. Auðvitað átti alls konar fólk inneign í peningabréfum og peningamarkaðssjóðum. En af þeim mikla fjölda sem ég hef rætt þessi mál við síðustu tvær vikur og fengið tölvubréf frá, er í miklum meirihluta venjulegt fólk sem t.d. hafði fengið arf, fólk sem fengið hafði slysabætur eða örorkubætur, fólk sem hafði minnkað við sig í miðju "góðærinu", selt hús og keypt sér íbúð o.s.frv. En ekki síst eldra fólk, afar og ömmur sem höfðu með sparsemi og ráðdeildarsemi safnað saman nokkrum milljónum króna sem áttu að gera því síðustu æviárin léttbærari. Það er til háborinnar skammar að ræna af þessu fólki 31.2 % sparnaðar þess, því þetta fólk á enga möguleika til að bæta sér upp tapið. Peningabréf voru allt annað en hlutabréf. Þetta var sparnaður fólks og varasjóður sem ríkisvaldið á að meðhöndla eins og annan sparnað, sama hvaða nafn reikningurinn ber.
Þetta er ekki fólkið sem missti sig í því eyðslufylleríi sem var hér á landi undanfarin ár. Þetta er ekki fólkið sem keypti 2-3 jeppa á hvert heimili, flatskjái í hvert herbergi, fjórhjól og fleira. Þetta er fólkið sem sparaði og treysti bankanum sínum, sem margir höfðu átt viðskipti við í 40-50 ár. Þetta er fólkið sem treysti bankanum sínum þegar hann bauð góða og örugga ávöxtunar- og sparnaðarleið. Þetta er fólkið sem starfsmenn bankanna hringdu í að fyrra bragði og buðu betri kjör en sama öryggi. Þetta er fólkið sem hafði samband við bankann sinn í lok sept., byrjun okt. af ótta við ástandið og vildi færa inneignir sínar yfir á aðra reikninga, en bankinn taldi fólkið ofan af því, sagði að inneignir á peningabréfum væru tryggari en á öðrum reikningum, ef allt færi á versta veg. Og það hefur verið staðfest; sparnaður var tryggari í peningabréfum en hefðbundnari innlánsreikningum fram að setningu neyðarlaganna 6. okt. s.l. Hver ber ábyrgð á þeim? Og hverra er það þá að leiðrétta þau mistök að sumar innistæður séu tryggar en aðrar ekki. Kynningar banka, a.m.k. Landsbankans á peningabréfum og skilningur fólks fór saman. Þetta var/átti að vera tryggur sparnaður, án áhættu.
Þær lausnir sem hafa verið nefndar eru m.a. skuldajöfnun í viðkomandi banka, skattaafsláttur eins og hér er nefndur, hlutabréf í nýjum banka (það er ekkert sagt við því að ríkið býður erlendum kröfuhöfum slíkt, en hví býður ríkið ekki þeim Íslendingum sem töpuðu sparnaði sínum hlutabréf?) og bundin inneign í bankanum til 3ja-4ra ára.
Allur sá mikli fjöldi sem rændur var stórum hluta sparnaðar síns, sem búið var að greiða af skatta og önnur gjöld, lendir líka í sömu súpunni og aðrir landsmenn; stórhækkun lána, verðbólga, atvinnuleysi og álögur þær sem ríkið leggur okkur á herðar vegna glannaskapar íslenskra banka erlendis. Eini munurinn er sá að það er búið að taka af sumum þann varasjóð, þann sparnað sem nota átti í "mögru árunum", við stóráföll eða í ellinni. Þannig verður tap þessa fólks mun meiri en annarra. Sumum finnst það kannski í lagi, en mér finnst það til skammar fyrir íslenskt samfélag, hvernig sem á það er litið.
Með aðventukveðju
Hörður Hilmarsson
Þeir sem töpuðu fái skattaafslátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2008 | 00:20
Það er ekki að spyrja að frú Vigdísi
Hér talar sannur þjóðhöfðingi.
Verst að frú Vigdís skuli ekki enn vera í því starfi sem hún gegndi svo skörulega fram til 1996.
Með aðventukveðju
Hörður Hilmarsson
„ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 00:16
Til hamingju Rikki og fjölskylda !
Ég er alinn upp við aðdáun á Ríkharði Jónssyni og reyndar öllum leikmönnum ÍA liðsins í knattspyrnu á árunum um og eftir 1960. Faðir minn, Hilmar Bjarnason sendibílstjóri og glímumaður, var mikill aðáandi Skagaliðsins og ég fór ófáar ferðir upp á Skipaskaga með honum til að horfa á "gullaldarliðið" leika listir sínar.
Rikki fór fyrir frábærum hópi leikmanna sem innihélt Þórð Þórðar, Svenna Teits., Guðjón Finnboga, Þórð Jóns., Helga Dan. og marga fleiri, að ógleymdum Donna, Halldóri Sigurbjörnssyni heitnum sem ég hélt mikið uppá.
Rikki Jóns er afar vel að þessari vegsemd kominn.
Innilega til hamingju kæri Ríkharður, frú Hallbera og fjölskyldan öll !
Með knattspyrnukveðju
Hörður Hilmarsson
Ríkharður heiðursborgari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 23:59
Þorvaldur Gylfason
Það var gott að hlusta á Þorvald Gylfason í Mannamáli Sigmundar í kvöld, eins og ávallt undanfarið. Þorvaldur fór einnig á kostum á borgarafundinum í Háskólabíói s.l. mánudagskvöld og er klárlega maður sem margir vilja sjá í mikilvægu embætti sem allra fyrst. Við höfum ekki efni á því að hafa svona mann á hliðarlínunni. Hann á að vera í framlínunni.
Með aðventukveðju
Hörður
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.12.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2008 | 23:40
Þetta skýrir ýmislegt !
Þetta skýrir ýmislegt, t.d. það að á þremur dögum, 1.-3. okt., voru teknir út úr peningabréfasjóði Landsbankans um 70 milljarðar. Innistæða lækkaði úr 170 milljörðum í 102 milljarða. Það samsvarar öllum útgjöldum íslenska ríkisins í tvo mánuði. Hvar var sjóðsstjórinn? Hvar var eftirlitið?
Vegna þessa var endurgreiðsla til innistæðueigenda í peningabréfum Landsbankans aðeins 68.8 %, en um 85 % í peningamarkaðssjóðum Kaupþings og Glitnis sem þóttu þó báðir standa mun verr, einkum Glitnir.
Kveðja
Hörður
Notuðu peningamarkaðssjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 11:44
Samstarf við Norðmenn um olíuleit
Frést hefur að líklega sé á svæðinu í kringum Ísland mikið magn olíu. Það væri vissulega meiriháttar ef rétt reynist. En íslensk stjórnvöld eru engan veginn í stakk búin við núverandi ástand til að leggja út í kostnaðarsamar rannsóknir og olíuleit. Er ekki tilvalið að leita strax samstarfs við Norðmenn sem hafa reynsluna, tækin og annað sem þarf að framkvæma þær kannanir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru? Að sjálfsögðu þyrfti að semja um veglegar % til handa Norðmönnum, ef árangur verður af rannsóknum og leit, hvort sem þeir fengju 70 eða 80 % eða annað sem eðlilegt telst og um semst. Í öllu falli er betra fyrir okkur Íslendinga að fá 5, 10 eða 25 % af miklu, heldur en 100 % af engu.
Er eftir einhverju að bíða ?
Kveðja
Hörður Hilmarsson
16.11.2008 | 19:32
Newcastle
Er á heimleið úr vinnuferð til Newcastle og N-A Englands. Svæðið kom skemmtilega á óvart og verður spennandi að bjóða ferðir þangað þegar ástandið lagast. Það er mikið hægt að sjá og gera; kúltúr, ganga, hjólaferðir, verslun, næturlíf, fótbolti. golf, veðreiðar og margt fleira. Og svo er fólkið almennt vingjarnlegt og hjálpsamt.
Með kveðju
Hörður
Ferðalög | Breytt 19.11.2008 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar