23.1.2009 | 11:27
Skammist ykkar !
Það er mjög slæmt þegar fólk úttalar sig um hluti án þess að hafa kynnt sér þá til hlítar. Svo er því miður um marga sem tjá sig um þessa frétt.
Ég hvet fólk til að skoða mynd sem fylgir með frétt Morgunblaðisins og Mbl.is af fundi Réttlætis.is í gærkvöldi. Eru þetta fjárglæframenn, áhættusækið fólk sem vildi sem hæstu ávöxtun á sparnað sinn, slysabætur, örorkubætur eða annað?
Meðalaldur fundargesta í gærkvöldi var klárlega vel yfir 60 ár og þó nokkrir gesti voru um og yfir áttrætt. Mikið af þessu fólki hafði á langri starfsævi náð að safna saman 3-5 milljónum króna, með sparsemi og ráðdeildarsemi. Landbankinn beitti siðlausum og ólöglegum aðferðum við að komast í fjármuni þessa fólks og hreinlega stal af því 1/3 hluta sparnaðarins.
Aldrað fólk er ekki frekar en flest okkar sérfræðingar í fjármálum. Það þarf því að treysta upplýsingum sem það fær frá bankanum sínum. Flestir þeirra þúsunda sem áttu innistæður á peningabréfareikningum Landsbankans voru plataðir til að færa fjármuni sína þangað á þeirri forsendu að það væri öruggasta og besta fjárvarslan. Þetta var ekki fjárfesting heldur fjárvarsla almennings, þar með talið fólks sem hefur alla ævi búið við fátækt, en samt tekist að nurla saman nokkrum krónum til að létta sér ævikvöldið.
Þið sem hafnið því að þetta fólk nái sínum fjármunum til baka eruð litlu betri en þeir sem bera ábyrgð á að þetta gerðist, stjórnendur og stærstu eigendur Landsbankans, Fjármálaeftirlitið, ríkisstjórnin og alþingismenn.
Það er til háborinnar skammar fyrir íslenskt samfélag að þakka fólki fyrir ævistarfið með því að stela af því 1/3 hluta sparnaðar þess!
Hörður Hilmarsson
Fjölmenni með réttlæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2009 | 17:10
Áskrift að Stöð 2 sagt upp
Þetta var dropinn sem fyllti mælinn.
Ég hef verið á leiðinni að segja upp áskrift að Stöð 2 vegna lélegrar dagskrár.
Nú er ég búinn að segja áskriftinni upp.
Sigmundur er topp fréttamaður og á allt annað og betra skilið af vinnustað sem hann hefur unnið vel í 22 ár.
Hörður Hilmarsson
Frjáls undan oki auðjöfra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 10:34
Skilningsleysi
Ég get ekki orða bundist eftir að hafa lesið "komment" Ólafs Hrólfssonar, kunningja míns við þessari frétt. Hvílík samlíking ! Það er greinilegt að Ólafur á ekki aldraða foreldra sem voru ginntir með ósannindum til að færa ævisparnað sinn af sparisjóðsbókinni yfir á peningabréfareikning sem bar litlu hærri ávöxtun, en var sagður áhættulaus.
Ég hvet Ólaf og aðra sem eru sama sinnis til að kynna sér málið betur og reyna að setja sig í spor fólks sem hefur í sveita síns andlits safnað saman nokkrum fjármunum með ráðdeildarsemi og sparsemi og sér svo 1/3 þess sparnaðar gufa upp vegna aðgerða ósvífinna bankaeigenda og -stjórnenda og aðgerða stjórnvalda í kjölfarið. Heimasíðan www.rettlaeti.is segir ekki nema lítið brot af því sem átti sér stað í Landsbankanum í sambandi við kynningu á þessu sparnaðarformi og síðan sukki eigenda bankans með fjármuni innistæðueigenda í peningabréfum. FME og Seðlabankinn brugðust herfilega eftirlitsskyldum sínum og stjórnvöld og þingmenn klikkuðu einnig á einu af helstu hlutverkum sínum sem er að vernda borgarana fyrir óprúttnum aðilum og sviksemi í viðskiptum.
Með baráttukveðjum
Hörður Hilmarsson
Vongóð um að fá tjónið bætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 14:48
Er Barcelona besta félagslið í heimi?
Vaknaði snemma á sunnudagsmorgni og horfði á endursýningu frá leik Barcelona og Deportivo la Coruna frá kvöldinu áður. Sé ekki eftir því.
Barcelona sýndi bestu knattspyrnu sem ég hef séð á þessu keppnistímabili, einkum í fyrri hálfleik. 5-0 sigur var síst of stór; framherjarnir fótfráu og leiknu, Messi, Henry og Eto´o tættu vörn Deportivo í sig, vel studdir af leikstjórnanda Barcelona-liðsins, snillingnum Xavi. Annar frábær miðvallar-leikmaður, Iniesta, var varamaður sem segir sína sögu um styrk leikmannahópsins hjá Barca.
Það er í raun stórkostlegt afrek hjá Eiði Smára að vera í hópnum hjá Barcelona og leika jafn mikið og raun ber vitni.
Ég hef ýmist fylgt Barcelona og Real Madrid að málum í spænska boltanum. Studdi fyrst Barca, væntanlega vegna búningsins, borgarinnar og Katalóníu, en svo gerðist tvennt; Zidane hóf að leika með Real Madrid og síðar flutti elsta dóttir mín, Bryndís, til Madrid og gerðist eldheitur stuðnings-maður Real. Með franska snillinginn innanborðs var Real besta félagslið í heimi, en tímarnir breytast, í boltanum eins og öðru. Real er enn og verður stórveldi, var t.a.m. útnefnt "besta knattspyrnufélag 20. aldarinnar" af FIFA. En í vetur er það Barcelona sem er yfirburðalið í spænsku deildinni og eitt albesta félagslið Evrópu. Barca er eins og nýtt lið undir stjórn Pepe Guardiola, sem á fyrsta ári við stjórnvölinn hefur náð að endurvekja leikgleðina og samstöðuna meðal leikmanna félagsins. Getan var alltaf til staðar. Guardiola er klárlega þjálfari ársins í Evrópuboltanum.
Það yrði sigur fyrir knattspyrnuna ef Barcelona vinnur Meistaradeildina. Ég held að Barcelona sé um þessar mundir besta félagslið í heimi, en önnur félög eru reyndar einnig að gera fína hluti s.s. Man. Utd., Inter Milan o.fl.
Með knattspyrnukveðju
Hörður
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2009 | 02:56
"Glöggt er gests augað"
"Glöggt er gests augað" segir máltækið og það kom enn einu sinni í ljós í ræðu Roberts Wade á borgarafundi í Háskólabíó s.l. mánudag.
Meðal ummæla RW:
"Í stað þess fóru bankarnir á smásölumarkað með fé, með því að opna Icesave netreikninga og reikninga Singer and Friedlander. Þeir hófu að soga til sín sparifé með því að bjóða breskum, hollenskum og þýskum sparifjáreigendum ögn hærri innlánsvexti en þeir fengu frá sínum eigin bönkum."
"Hver ætti að bera ábyrgðina á því sem gerðist á Íslandi?
Í fyrsta lagi stuðluðu bankamennirnir og bankaráðin að því með virkum hætti að hagkerfið var keyrt fram af bjargbrún. Nú er ljóst að þeir notuðu bankana sem sína eigin sparibauka og brutu grundvallarreglur heilbrigðrar bankastarfsemi í þágu eigin viðskiptahagsmuna.
Tæknin sem þeir notuðu til að búa til falskar" eignir með sviksamlegum færslum á milli banka og tengdra fjárfestingarfyrirtækja er nú vel þekkt. Sömuleiðis sú sviksamlega tækni sem þeir notuðu til að fá sparifjáreigendur til að færa inneignir sínar í peningamarkaðssjóði sem tengd fjárfestingarfyrirtæki stjórnuðu."
Þetta er mergurinn málsins:
IceSave reikningarnir voru ákveðnir á einum fundi Landsbankans, peningabréfin á öðrum (eða sama fundi, það breytir engu).
Annars vegar var ákveðin leið til að seilast í vasa erlendra sparifjáreigenda, hins vegar í vasa íslenskra. Nú hefur verið ákveðið að endurgreiða erlendum sparifjáreigendum inneign sína, en hvað með íslenska innistæðueigendur sem töpuðu 1/3 af sparnaði sínum?
Hvar var FME, hvar voru stjórnvöld, hvar voru þingmenn???
Og hvað ætla þessir aðilar að gera nú þegar sukkið hefur verið opinberað?
Hörður Hilmarsson
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2009 | 00:24
Eigendur bankanna sukkuðu með fjármuni og sparnað almennings
Það er vel skiljanlegt að fólk sem fékk einhverjar bætur vegna íbúðarhúsnæðis sem eyðilagðist í jarðskjálftunum hafi ákveðið að geyma þá fjármuni inni á peningabréfum eða peningamarkaðsreikningum meðan ákveðið var hvað gera skyldi við bæturnar.
Kynning bankanna og skilningur almennings var samhljóða, þ.e. þetta voru bankareikningar sem báru góða vexti, enga áhættu og voru alltaf lausir, a.m.k. kynnti Landsbankinn sín peningabréf þannig. Landsbankinn kynnti peningabréfin gjarnan ásamt svo kölluðum vaxtareikning, en ekki var tíundað að annað reikningsformið bæri einhverja áhættu en hitt ekki. Fólk sem fékk örorkubætur, hlaut arf eða átti einhvern sparnað eftir ævilangt strit setti einnig, oft eftir mikla hvatningu frá sínum viðskiptabanka/þjónustufulltrúa, alla fjármuni sína í peningabréf. Fólk var blekkt. Hver ber ábyrgð?
Það er ekki nóg með að kynning og markaðssetning peningabréfanna hafi verið siðlaus og væntanlega ólögleg. Meðhöndlun fjármuna fólks sem setti sparnað sinn í peningabréf var eitthvert ósvífnasta sukk sem sá sem þessar línur ritar hefur kynnst. Hver ber ábyrgð?
Hvar var FME og aðrir þeir aðilar sem eiga að vernda almenning fyrir óprúttnum bankamönnum sem svifust einskis í þeirri viðleitni sinni að komast yfir eigur almennings?
Hvenær verður flett ofan af sukki eigenda bankanna með fjármuni (sparnað) almennings í eigin þágu og sinna fyrirtækja?
Ætlar ríkisstjórnin virkilega að loka augunum fyrir því siðleysi og þeirri lögleysu sem þarna átti sér stað?
Ætla alþingismenn að sitja hjá þegar 1/3 af ævisparnaði eldra fólks og annarra er rænt af siðlausum bankamönnum og bankaeigendum sem greinilega kunna ekki að skammast sín.
Þolinmæði mín er á þrotum. Ég vil svör og ég vil aðgerðir. Ég vil réttlæti!
Hörður Hilmarsson
Tjónabætur í peningamarkaðssjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2009 | 14:50
Takk fyrir mig og mína!
Það er flest satt og rétt í þessu áramótaávarpi Ólafs bæjarstjóra á Seyðisfirði.
Til viðbótar vil ég sjá meiri og betri vinnu stjórnvalda við að velja og hafna þeim kröfum sem til íslenska ríkisins eru gerðar vegna hruns "íslenskra" banka erlendis. - Vildu þeir ekki vera alþjóðlegir og er þá ekki rétt að segja alþjóðlegra banka? -
Hvaða sanngirni er í því að almenningi á Íslandi sé gert að borga erlendar skuldir gráðugra bankamanna? Ekki hefði þessi sami almenningur fengið sambærilegan hlut í hagnaði ef betur hefði tekist til!
Það er með óbragð í munni sem ég þakka hinum gráðugu bankamönnum og vanmáttugu stjórnvöldum sem hér hafa ríkt (og þá er enginn undanskilinn; FME, Seðlabankinn, ríkisstjórnin, Alþingismenn) fyrir skuldir þær sem ég og börnin mín hafa verið dæmd til að greiða og það án þess að nokkur réttarhöld hafi farið fram. Ég tel okkur saklaus af þeim gæp sem framinn var og annarra að hreinsa upp skítinn eftir sig, áður en seilst er í tóma vasa íslensks almennings.
Takk fyrir mig og mína ..... eða þannig!
Hörður Hilmarsson
Ekki borga skuldir bankahrunsins segir bæjarstjórinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2009 | 12:02
Til hamingju og takk fyrir mig !
Það var vitað mál að handboltakappinn og heimspekingurinn Ólafur Stefánsson yrði valinn íþróttamaður ársins 2008. Hann hefði ekki þurft að eiga jafn frábært ár og raun ber vitni með sínu félagsliði, Ciudad Real, til að eiga sigurinn vísan sem fyrirliði og leiðtogi íslenska handboltalandsliðsins sem vann silfrið á Ólympíuleikunum í Kína. Innilega til hamingju með kjörið Óli og ótrúleg afrek á einu og sama ári!
Mér fannst einnig gott að sjá Snorra Stein Guðjónsson í 2. sæti og Guðjón Val í því fjórða, því þeir voru eins og allir "strákarnir okkar" lygilegir á ÓL. Snorri valdi heldur betur tímann til að blómstra og brillera með landsliðinu og Guðjón Valur er að mínu mati einhver albesti íþróttamaður sem Ísland hefur fóstrað, mikill keppnismaður, frábær fyrirmynd og drengur góður.
Þá voru "stelpurnar okkar" áberandi á listanum yfir landsins bestu íþróttamenn árið 2008. Margrét Lára, Katrín fyrirliði Vals og landsliðsins, Dóra María leikmaður ársins í Landsbankadeildinni og KR-ingurinn Hólmfríður Magnúsdóttir í 3., 7., 13. og 17. sæti listans, afar verðskuldað enda árangur kvennalandsliðsins framúrskarandi og til sóma fyrir Sigga Ragga þjálfara liðsins og KSÍ.
Þótt engin félagapólitík ríki eða eigi að ríkja í sambandi við val á íþróttamanni ársins, get ég ekki annað en viðurkennt stolt mitt sem Valsmanns yfir því að fjórir af 10 bestu íþróttamönnum Íslands 2008 komi frá Hlíðarenda; Óli Stef., Snorri Steinn, Margrét Lára og Katrín. Og svo finnst okkur Valsmönnum við alltaf eiga töluvert í Eiði Smára sem hóf feril sinn sem leikmaður í meistaraflokki með Val árið 1994, þá aðeins 15 ára. Þetta er alls ekki sagt/skrifað til að kasta rýrð á aðra íþróttamenn eða önnur íþróttafélög. Ég met mikils alla góða íþróttamenn og öll félög sem vinna gott starf.
Að lokum vil ég bara þakka ofannefndum og aðstandendum þeirra, ekki síst Gumma Gumm landsliðsþjálfara og hans teymi, þar með talið Einar Þorvarðar, íslenska karlalandsliðinu í handbolta og íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta fyrir afar ánægjulegt íþróttaár 2008. Það verður seint toppað.
TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG !
Með íþróttakveðju
Hörður Hilmarsson
Ólafur Stefánsson íþróttamaður ársins 2008 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2008 | 21:24
Hugsað upphátt um áramót
Árið sem nú er að kveðja hefur verið um margt sérstakt og gleymist ekki í bráð, ef einhvern tíma.
Það sem stendur upp úr eru erfiðleikar í fjármálum lands og þjóðar, vandræði sem forsætisráðherra og fleiri framámenn í samfélaginu tönnlast í sífellu á að eigi sér erlendar orsakir, enda sé kreppa sú sem á landsmenn herjar alþjóðleg og ástand víða slæmt í heiminum í dag. Það má vel vera, en ég er einn þeirra sem telja að ástandið hér á landi sé að 50-75 % leyti domestic, heimatilbúinn vandi sem glæfralegir bankamenn og "útrásarvíkingar" sem og slakir eftirlitsaðilar (Fjármálaeftirlit, Seðlabanki, ríkisstjórn og Alþingi) bera öðrum fremur ábyrgð á.
Ég tel ennfremur að nauðsynlegt uppbyggingarstarf geti ekki hafist að neinu marki hér á landi nema að þeir axli ábyrgð sem hana bera á ástandinu og eftir að skipt verði um fólk í þeim ábyrgðarstöðum þar sem menn hafa brugðist, vegna eiginhagsmunapots, græðgi og oft óheiðarleika. Fyrirgefning er nauðsynleg, en á undan henni þarf að koma iðrun og eftirsjá þeirra sem hafa brugðist og/eða brotið af sér. Einnig þarf að refsa þeim sem brotið hafa lög og víkja úr starfi þeim sem kannski héldu sig innan ramma laganna, en sýndu dómgreindarskort og siðleysi sem ekki á líðast fólki í opinberum störfum.
Hrun stóru bankanna þriggja í byrjun október hafði margar alvarlegar afleiðingar. Ein þeirra var sú að fólk sem hafði geymt sparnað sinn eða varasjóð inn á peningamarkaðsbréfum bankanna tapaði 15 % til 1/3 hluta sparnaðar síns. Ég var einn þeirra sem geymdi eiginn sparnað og varasjóð fyrirtækis míns á reikningi sem kallaðist peningabréf Landsbankans og var gersamlega grunlaus um einhverja hættu á tapi ef illa færi, enda með upplýsingar frá bankanum sem lýstu peningabréfum sem "lang vinsælasta svona sparireikningi bankans, því hann ber góða vexti, enga áhættu og er alltaf laus", eins og stendur í tölvubréfi frá bankanum.
Endurgreiðslu bankans upp á 68.8 % var harðlega mótmælt af mér og fleirum og fyrr en varði hafði myndast baráttuhópur um endurheimt sparnaðar í Landsbankanum. Samtökin RÉTTLÆTI.is voru stofnuð og heimasíða opnuð, www.rettlaeti.is
Siðleysi það sem birtist í kynningu á Peningabréfum Landsbankans, markaðssetningu þeirra og upplýsingagjöf starfsmanna Landsbankans er með því ógeðfelldara sem ég hef kynnst um dagana.
Síðan bættu stjórnendur bankans gráu ofan á svart með dæmalausri meðhöndlun peningabréfasjóðsins, þ.e. fjármuna fólks sem átti inneignir í peningabréfum og Landsbankinn átti að passa, því peningabréfin voru fjárvarsla í augum flestra (og skv. upplýsingum bankans) en ekki fjárfesting. Sukkið og svínaríið sem Landsbankinn stundaði árið 2008 verður vonandi krufið til mergjar og þeim refsað sem voru í forsvari fyrir ráni á 1/3 sparnaðar af íslenskum almenningi, oft eldra fólki sem getur ekki bætt sér upp tapið og í raun enga björg sér veitt. Þetta mál er til háborinnar skammar fyrir samfélag sem vill kalla sig siðað og hljóta stjórnvöld að boða leiðréttingu á mistökum sínum og Landsbankans, því þetta var ekkert annað en þjófnaður, stórþjófnaður.
Með ósk um að við megum aldrei aftur upplifa ár eins og 2008 og að lærdómur þess megi verða okkur öllum víti til varnaðar um ókomin ár.
GLEÐILEGT ÁR !
Hörður Hilmarsson
Dægurmál | Breytt 3.1.2009 kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2008 | 20:19
GLEÐILEG JÓL !
Ég óska öllum ættingjum, vinum og kunningjum, nær og fjær, sem og landsmönnum öllum friðsælla jóla og gæfu og gleði á komandi ári.
Jólakveðjur
Hörður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar