15.10.2008 | 22:31
Þökkum fyrir stigin þrjú !
Við þökkum fyrir stigin þrjú, en fótboltinn er skrýtin íþrótt og úrslit ekki alltaf sanngjörn.
Í kvöld máttum við þakka fyrir að vinna Makedónana, sem áttu fjölda færa og voru í heildina betra liðið á vellinum. Í síðasta heimaleik gegn Skotum voru okkar menn betri aðilinn og verðskulduðu svo sannarlega að fá stig, eitt eða fleiri út úr leiknum. En svona er fótboltinn og oftast jafnast svona hlutir út yfir heila keppni eða mót og lið enda í því sæti sem þau eiga skilið.
Gunnleifur var góður í markinu, besti maður íslenska liðsins og aftasta vörnin var sterk en ég set þó spurningamerki við Indriða í vinstri bakvarðarstöðunni, bæði í kvöld og gegn Hollandi. Stefán Gísla komst vel frá sínu og eins Arnór eftir að hann kom inn á; mikið efni. Aðrir léku undir pari og eiga mikið inni. Það veit á gott að vinna leik án þess að spila vel og gott að enda haustleikjahrinuna með sigri. Skotland næst.
Til hamingju Óli Jóh., Pétur Péturs. og allir strákarnir!
Áfram ÍSLAND !
Hörður Hilmarsson
Veigar tryggði 1:0 sigur á Makedónum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 17.10.2008 kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2008 | 09:15
Reykjavík - Rotterdam flott bíómynd
Fór í bíó á laugardagskvöldið. Sá Reykjavík-Rotterdam og gef henni mín bestu meðmæli. Myndin er klárlega í hópi albestu kvikmynda sem Íslendingar hafa gert og aðstandendum öllum til mikils sóma.
Verð illa svikinn ef þessi mynd hlýtur ekki einnig mikið lof og aðsókn utan Íslands.
Takk fyrir mig.
Hörður
14.10.2008 | 09:03
Pólítískt leikrit Gordon Brown
Þetta er kórrétt hjá prófessor Eiríki.
Ég hitti um síðustu helgi ungt, vel menntað og greint fólk sem bjó um tíma í Englandi. Orð þeirra staðfestu það sem ég las í ummæli Gordons Brown um Ísland og íslensk stjórnvöld í síðustu viku.
GB notaði tækifærið til að beina sjónum breskra fjölmiðla og bresks almennings frá vandamálum sem skapast hafa vegna aðgerða eða aðgerðaleysis breskra stjórnvalda á heimavígstöðvum.
Litla Ísland lá vel við höggi og því var sett upp pólitískt leikrit sem Bretar kunna flestum þjóðum betur, enda vel sjóaðir frá orðaskylmingum á breska þinginu, í beinni útsendingu. Við Íslendingar kunnum ekki þennan leik og á tímabili fannst mér sem ég væri að fylgjast með viðureign íslensks utandeildarliðs gegn Chelsea eða Man. Utd.
Það var rangt að grípa ekki strax til varna gegn ofstopa og orðum Gordon Brown, erfiðara að leiðrétta ruglið löngu eftir á þegar mikill skaði er skeður. Það er samt betra seint en aldrei.
Ef aðgengi að breskum fjölmiðlum reynist lítið til að leiðrétta ruglið í Brown, Darling og félögum, þá er ég viss um að andstæðingar þeirra félaga í breskum stjórnmálum, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn myndu fagna upplýsingum og staðreyndum sem komið geta Brown og Verkamannaflokknum illa. Við eigum ekki að skipta okkur af breskri pólitík, en við eigum að nýta þau meðul og möguleika sem finnast til að leita réttar okkar gagnvart ákvörðun breskra stjórnvalda og aðgerða í síðustu viku.
Baráttukveðjur
Hörður Hilmarsson
Grimmúðlegt og úthugsað auglýsingabragð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 20:16
Góð frammistaða gegn sterkum mótherjum
0-2 gegn Hollandi á útivelli er ekkert til að skammast sín fyrir. En fótboltaleikir eru ekki bara úrslit þeirra þótt vissulega skipti þau mestu máli þegar upp er staðið.
Frammistaða íslenska landsliðsins í þessum leik var góð. Reyndar vorum við í miklum vandræðum fyrstu 30 mínúturnar eða svo, en eftir það náðu strákarnir prýðilegu spili á köflum og sköpuðu fleiri færi en ég átti von á að sjá.
Leikmenn stóðu sig misjafnlega; Gulli þakkaði fyrir traustið og stóð sig mjög vel, miðverðirnir voru traustir, einkum Kristján Örn sem var bestur Íslendinga. Hermann var einnig góður, en fór út úr stöðu sinni rétt áður en Hollendingar skoruðu 2. markið, sem reyndar átti að dæma af vegna hendi (og jafnvel rangstöðu en eitt leikbrot er nóg). Mér finnst Stefán Gísla flottur miðjumaður, rólegur og yfirvegaður og getur tekið á móti bolta með mann í bakinu, a la Rúnar Kristinsson. Þá var gaman að sjá Brynjar Björn aftur með og hann komst vel frá leiknum. Frammi var Veigar sívinnandi og ógnandi og skilaði sínu hlutverki vel. Aðrir leikmenn voru misgóðir, en allir lögðu sig fram. Eiður Smári er okkar besti leikmaður, en hann reynir of mikið of oft og tapar því boltanum þegar hægt er að spila honum á samherja .... og þá jafnvel fá hann aftur strax. Verð að minnast á einn varamannanna sem er í miklu uppáhaldi þess sem þetta ritar, en það er miðjumaðurinn knái Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Coventry. Þar fer óhemju efnilegur leikmaður sem ég sé leika stórt hlutverk í íslenska landsliðinu næstu 10-15 árin.
Óli Jóh. og Pétur Péturs. mega vera stoltir af liði sínu. Ég hlakka til að sjá strákana gegn Makedónum á miðvikudaginn. Þá vonast ég eftir fyrsta sigrinum í þessari undankeppni.
Áfram ÍSLAND !!!
Hörður Hilmarsson
Holland vann Ísland, 2:0 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 03:26
Vinsamleg grein en sláandi athugasemdir
Ég las greinina í Guardian og finnst hún vinsamleg og vel skrifuð. En athugasemdir við greinina eru vægast sagt sláandi. Það er greinilegt að ýmsir Bretar hafa litla samúð með okkur og kemur það mér á óvart hve margir eru óvægnir og beinlínis grimmir. Það kemur í ljós í vandræðum hverjir reynast vinir í raun og hafa Norðmenn sýnt mikið vinarþel og góðan hug til "afkomendanna" í norðri.
Heja Norge, en ég er ekki sáttur við "tjallana".
Með vinsemd og baráttukveðjum
Hörður Hilmarsson
Sparkað í liggjandi (Ís)land" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.10.2008 | 03:09
Fínn náungi Phil Brown ... eitthvað annað en Gordon !
Mér finnst sérlega ánægjulegt að fylgjast með frammistöðu Phil Brown með nýliða Hull City í ensku úrvalsdeildinni. Ég kynntist honum þegar hann var aðstoðarknattspyrnustjóri hjá Bolton Wanderers, meðan Sam Allardyce var stjóri. Þetta er hinn geðþekkasti maður, eins og Guðni Bergs, Arnar Gunnlaugs. og Eiður Smári geta borið vitni um. Phil hætti hjá Bolton til að taka við stjórastöðu hjá Derby County fyrir einum þremur árum. Hann kom með Derby í æfingaferð til Íslands í júlí (!) og léku þeir gegn ÍA, sem vann óvæntan sigur. Það gekk ekkert hjá Derby í 1. deildinni þetta tímbil og Phil var látinn fara. En "you can´t keep a good man down", eins og sagt er og Phil Brown er kominn aftur í baráttuna. Hann kom Hull City upp í úrvalsdeild á mettíma og félagið frá fiskimannabænum hefur komið verulega á óvart í upphafi keppnistímabilsins í Englandi. Hann á þessa útnefningu sannarlega skilið; "it could not happen to a nicer bloke".
Það skal tekið fram að Phil er ekkert skyldur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretaveldis, sem farið hefur offari og orðið sér til skammar fyrir árásir sínar og áróður um Ísland og Íslendinga í enskum fjölmiðlum í vikunni. Þar fer ekki fínn pappír.
Góða helgi !
Hörður Hilmarsson
Brown knattspyrnustjóri mánaðarins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2008 | 14:59
Er eftir einhverju að bíða?
Eftir hverju er ríkisstjórnin að bíða?
Svo virðist sem flest það sem gert hefur verið síðustu vikuna, síðan ríkisvaldið tók yfir Glitni, hafi gert ástandið verra en ekki betra. Það er eins og menn hafi verið að skvetta olíu á eld. Er betra að bíða eftir því að ástandið verði enn verra, áður en leitað verður til IMF eftir aðstoð? Þangað stefnir og er þá ekki betra að gera það strax og koma með því í veg fyrir enn frekari áföll?
Lengi getur vont versnað og því nauðsynlegt að stoppa það hrun sem hér á sér stað, ekki seinna en strax!
Baráttukveðjur
Hörður Hilmarsson
Baksvið: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn - með góðu eða illu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 10:25
Maður líttu þér nær !
Ég hef ekki þekkingu á Icesave reikningum Landsbankans í Englandi og Hollandi, en fram hefur komið að "góðar líkur séu á að eignir Landsbankans muni standa undir stærstum hluta innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi."
En hvað með þá sem treystu Landsbankanum á Íslandi fyrir sparifé sínu og/eða varasjóði og keyptu peningabréf skv. ráðleggingum ráðgjafa Landsbankans sem sögðu þau gefa "góða ávöxtun, bæru enga áhættu og væru alltaf laus"???
Á bara að segja sorry við það fólk og fyrirtæki sem slíkum ráðum treystu og horfa nú fram á gjaldþrot, bæði fyrirtækja og heimila?
Vona að þeir sem þessa leið völdu til að geyma sparifé eða varasjóð sitt tímabundið gleymist ekki þegar kemur að því að forgangsraða kröfum í Landsbankann.
Með jákvæðum straumum og baráttukveðjum
Hörður Hilmarsson
Nýi Landsbanki tekur við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2008 | 15:12
Ríkisstjórnin verður að tryggja inneignir í peningabréfum !!!
Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin verður að tryggja inneignir fólks og íslenskra fyrirtækja í peningabréfum eins og aðrar inneignir. Að öðrum kosti er hvorki sparifé fólks né atvinnulíf tryggt eins og hefur verið fullyrt af ríkistjórninni. Mörg fyrirtæki hafa sett fjármagn tímabundið í peningabréf. Ef það fé tapast, missa mörg fyrirtæki sitt bakland, sinn varasjóð og þurfa sum örugglega að segja upp fólki og jafnvel hætta starfsemi.
Sama gildir um einstaklinga sem hafa skv. ráðleggingum bankastarfsmanna keypt peningabréf til að hámarka ávöxtun án áhættu að því er sagt var. Margar fjölskyldur sem eru t.d. að minnka við sig húsnæði, eru tímabundið með mikið fé á milli handanna og vilja ávaxta það sem best án áhættu fram að næsta greiðsludegi. Ef þetta fólk tapar höfuðstólnum sem nýttur var til kaupa á peningabréfum, þá getur það ekki staðið í skilum og missir húsnæði sitt.
Það er skýlaus krafa til stjórnvalda að sama gildi um inneignir í peningasjóðum bankanna og aðra innlánsreikninga, enda lítur þorri fólks á þessa sjóði sömu augum og sparireikninga og þar liggur því ávöxtur af ævistarfi margra.
Hörður Hilmarsson
Reiðir viðskiptavinir Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2008 | 11:51
Enga svartsýni, en ekki meira af óhóflegri bjartsýni, takk.
Í fárviðri síðustu daga, í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu, vöruðu ýmsir almenning við því að leggjast í svartsýni og volæði, því það sé þrátt fyrir allt bjart framundan, þótt miklir erfiðleikar blasi við á næstu dögum, vikum og mánuðum. Ekki vil ég mæla svartsýni bót, en það var ekki svartsýni sem kom okkur í þau vandræði sem þjóðarbúskapurinn er nú kominn í. Ætli það hafi ekki frekar verið óhófleg bjartsýni og ofurtrú nokkurra "snillinga" á eigin flinkheitum. Og margir smituðust.
Það er óskandi að fólk almennt læri af biturri reynslu núverandi ástands og temji sér meira jafnlyndi og stöðugleika .... hvorki óhóflega bjartsýni né bölmóð og svartsýni. Ætli orðið sem ég er að leita að sé ekki raunsæi .... bæði gagnvart ríkjandi ástandi og möguleikum okkar í náinni framtíð.
Baráttukveðjur
Hörður Hilmarsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Mínir tenglar
- RÉTTLÆTI.is Barátta fyrir 100 % endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum Landsbankans
- ÍT ferðir Ferðaskrifstofa íþróttamannsins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar